06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1544)

188. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur hlotið einróma afgreiðslu hv. Ed., svo sem fram kemur á þskj. 634. Tilgangur með flutningi þessa frv. er tvíþættur. Í fyrsta lagi er lagt til, að framlag ríkissjóðs til aflatryggingasjóðs verði lækkað, þannig að það verði fjórðungur á móti útflutningsgjaldi í stað helmings áður. Í öðru lagi er frv. flutt til staðfestingar samkomulags um greiðslu upp í fæðiskostnað skipverja á bátaflotanum, og skal nú vikið að hvorum þessara þátta fyrir sig.

Ef ákvæði l. um sjóðinn stæðu óbreytt þannig, að framlag ríkissjóðs yrði áfram helmingur á móti útflutningsgjaldi, hefði framlag ríkissjóðs þurft að hækka um 20 millj. kr. á fjárl. 1969, bæði vegna krónuhækkunar útflutningsgjaldsins af völdum gengisbreytingarinnar, svo og vegna hækkunar frá fyrra ári, þar sem ákvæði l. nr. 5 frá 1968, um ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda, giltu aðeins fyrir árið 1968, en með þeim var ákveðið, að framlag ríkissjóðs skyldi vera þriðjungur á móti útflutningsgjaldi á því ári. Í fjárl. ársins 1969 er miðað við, að framlag ríkissjóðs verði óbreytt í krónum frá fjárl. 1968, en það svarar því sem næst til þess, að mótframlag ríkissjóðs sé 1/4 hluti útflutningsgjaldsins, eins og lagt er til með frv. þessu. Með afgreiðslu fjárl. fyrir jól var því í raun tekin ákvörðun um lækkun á framlagi ríkissjóðs, svo sem frv. gerir ráð fyrir.

Samkv. útflutningsspá Efnahagsstofnunarinnar mun gengisbreytingin í nóv. á s.l. ári valda því, að tekjur aflatryggingasjóðs af útflutningsgjaldi aukast um 26 millj. kr. á árinu 1969. Ef frv. þetta verður að l., verður ráðstöfunarfé aflatryggingasjóðs 110 millj. kr. á árinu 1969. Sé litið á bótagreiðslur úr sjóðnum undanfarin ár, má álykta, að umræddar 110 millj. kr., sem yrðu til ráðstöfunar á þessu yfirstandandi ári samkv. framangreindum forsendum, ættu að nægja til þess, að sjóðurinn gæti starfað eftir óbreyttum reglum, þrátt fyrir þá lagabreytingu, sem frv. felur í sér.

Eins og ég áðan sagði, er frv. einnig flutt til staðfestingar á samkomulagi um greiðslu upp í fæðiskostnað skipverja á bátaflotanum Í samningum þeim, sem gerðir voru í febrúar s.l. milli sjómanna á bátaflotanum og útvegsmanna, og í miðlunartill., sem lögfestar voru í kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum þann 18. febr. s.l., fólst samkomulag það, er frv. er ætlað að lögfesta. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að við aflatryggingasjóð skuli starfa sérstök deild, áhafnadeild, sem greiði hluta af fæðiskostnaði áhafna á fiskibátum, og verði árlegar tekjur deildarinnar 1% af fob-verði útfluttra sjávarafurða. Skal greiða úr deildinni 100 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann vegna áhafna á fiskibátum 151 brúttórúmlest að stærð og stærri, en 85 kr. á úthaldsdag og áhafnarmann vegna áhafna á fiskibátum undir 151 brúttórúmlest að stærð. Greiðslurnar skulu vera ársfjórðungslegar. Við ákvörðun úthaldsdagafjölda og áhafnarstærðar skal sjóðurinn styðjast við úthaldsskýrslur Fiskifélags Íslands og upplýsingar lögskráningarstjóra.

Eins og áður var sagt, er frv. þetta flutt til staðfestingar á ákvörðunum, sem þegar hafa verið teknar. Í fyrsta lagi fjallar frv. um lækkun ríkissjóðsframlags í samræmi við ákvörðun Alþ. með afgreiðslu fjárl. fyrir jól, og í öðru lagi er frv. flutt til staðfestingar á samkomulagi, sem gert var um greiðslu upp í fæðiskostnað skipverja á bátaflotanum. Nauðsyn ber til, að báðir þessir þættir fái fullnaðarafgreiðslu á Alþ. hið allra fyrsta.

Ég tel ekki þörf á því, herra forseti, að fjölyrða frekar um þetta frv., en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.