16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. þetta um heimild til lántöku vegna Vestfjarðaáætlunar og Norðurlandsáætlunar er borið fram af hæstv. ríkisstj. til staðfestingar á brbl., sem hún gaf út á síðasta degi ársins 1968.

Fyrir fáum dögum fengu þm. frá Efnahagsstofnuninni allmikið rit. Það nefnist Greinargerð um Vestfjarðaáætlun og framkvæmd hennar. Þetta eru fyrstu. upplýsingarnar, sem alþm. yfirleitt hafa fengið um málið. Þá fyrst fengu þeir áætlunina, þegar framkvæmdum hennar má heita lokið.

En hvað er að frétta af Norðurlandsáætluninni? Fjhn. óskaði upplýsinga um málið frá Efnahagsstofnuninni — en henni mun hafa verið falið að semja áætlunina — og 23. apríl s.l. kom sendimaður frá Efnahagsstofnuninni á fund fjhn. Hvað hafði hann að segja? Engin áætlun til. Nokkrir þættir í smíðum, að því er manni skildist, en engum lokið. Tvennt var þó búið að ákveða. Það var búið að veita loforð um lán til Vopnafjarðarhafnar, 7 millj. kr. af því fé, sem hugmyndin er að taka að láni til Norðurlandsáætlunar. Vopnafjarðarhérað hefur hingað til ekki verið talið á Norðurlandi, en vel má vera, að Norðlendingar hafi ekki á móti því, að það góða hérað verði flutt til þeirra, og að þeir fái í sinn hóp það góða fólk, sem þar býr. Þó er e.t.v. réttast, að byggðarlögin séu áfram á þeim sömu stöðum, þar sem þau hafa verið fram að þessu. Í öðru lagi er að sögn búið að veita loforð um lán til iðnskóla á Akureyri, líklega um 4 millj. kr. Annað og meira hafði sendimaður Efnahagsstofnunarinnar ekki að segja okkur í fjhn. um þetta mál.

Við, sumir af fjhnm., teljum rétt, að ákveðið verði í lögum, að nokkru af því fé, sem ákveðið er að afla til Norðurlandsáætlunar, verði varið til mjög nauðsynlegra framkvæmda í raforkumálum og samgöngumálum á Norðurlandi. Fólkið, sem býr á Norðurlandi og annars staðar á landinu, þarf að hafa rafmagn til heimilisnota og annarra þarfa, og það þarf að hafa viðunandi vegi. Verði þessum skilyrðum ekki fullnægt, yfirgefur fólkið byggðir sínar. Á sjötta tug þessarar aldar var byrjað að leggja rafmagnslínur um sveitirnar, og hefur verið haldið áfram síðan. Þessu hefur miðað sorglega seint, en þó er meiri hluta verksins lokið, og það er ekki mikið átak að ljúka raflínulögnum til heimila á þeim svæðum, þar sem meðalvegalengd milli bæja er innan við tveir km. Þessu þarf að ljúka hið bráðasta. Það er ekki sæmilegt að láta menn bíða lengur eftir þeim mikilsverðu þægindum, sem rafmagnið veitir. Áætlað er, að á öllu Norðurlandi séu 160 til 170 sveitabýli, sem ekki hafa rafmagn frá samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum, á svæðum, þar sem meðalvegalengd milli býla er 2 km eða styttri.

Á þskj. 733 flytjum við 3 þdm. till. um raflínulagnir til þessara heimila. Till. er þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 1. gr. frv. komi ný grein, þannig:

Af því fé, sem aflað verður til Norðurlandsáætlunar samkv. 1. gr., skal greiða kostnað Rafmagnsveitna ríkisins við að leggja raflínur til þeirra sveitaheimila á Norðurlandi, sem ekki hafa rafmagn frá samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum og eru á svæðum, þar sem meðallínulengd milli býla er 2 km eða styttri. Framkvæmdir við raflínulagnir þessar skulu hafnar á árinu 1969 og þeim verða lokið svo fljótt sem unnt er.“

Flm. till. eru auk mín hv. 2. þm. Norðurl. v., Óskar Levy, og hv. 1. þm. Norðurl. e., Jónas Jónsson. Vegáætlun fyrir næstu árin er nú til meðferðar hér á þingi. Of lítið fé er veitt til vegamála til að fullnægja brýnustu þörfum. Allmiklu fé var veitt til samgöngubóta samkv. Vestfjarðaáætlun. Eins þarf að gera á Norðurlandi. Við 1. þm. Norðurl. e., Jónas Jónsson, flytjum till. á þskj. 734 um nokkurt framlag til vegagerðar af því fé, sem aflað verður vegna Norðurlandsáætlunar. Till. okkar er aðallega um endurbætur vega á aðalsamgönguleiðum um Norðurland. Till. er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 1. gr. komi ný grein, þannig:

Af því fé, sem aflað verður til Norðurlandsáætlunar samkv. lögum þessum skal verja til samgöngubóta sem hér greinir: Til Norðurlandsvegar í Hrútafirði 6 millj. kr.“

Um þetta er það að segja, að fyrir mörgum árum var byrjað að endurbyggja veginn, Norðurlandsveginn, nálægt Stað í Hrútafirði. En síðan var hætt við þessar framkvæmdir og hefur ekki verið hreyft við því í fjölda ára. Vegurinn á austurströnd Hrútafjarðar er slæmur. Hann er hlykkjóttur og víða mjór og víða eru mjó ræsi á veginum. Þarna fer öll umferðin um til Norður- og Austurlands héðan að sunnan, og þarna er mikil þörf endurbóta. En það reynist ekki hægt að fá fé í þetta samkv. vegáætluninni, sem á að afgreiða hér næstu daga.

Þá er 2. liður: „Til endurbóta á vegi frá Reykjum á Reykjabraut um Svínadal að Svartárbrú, 6 millj. kr.“ Það er gert ráð fyrir því í þeim till. um vegáætlanir, sem nú hafa verið lagðar fram, að á næstu árum verði lokið við vegagerð frá Norðurlandsvegi rétt norðan við Giljá í Þingi og beina leið að Reykjum á Reykjabraut, en þar er nú að rísa skólastaður. Þegar þessari vegagerð er lokið, opnast leið fyrir menn eftir Svínadal yfir brú á Blöndu hjá Löngumýri og um brú á Svartá á Norðurlandsveg vestan við Bólstaðarhlíð. Þessi leið er miklu skemmri en gamla leiðin, sem farin er um Langadal og Blönduós, og það mun verða mikil umferð um þennan veg, þegar hann er kominn. En vegurinn um Svínadal er ekki gerður fyrir þá þungu umferð, sem er um Norðurlandsveginn, og þess vegna er þar þörf mikilla endurbóta. Okkur er ljóst, að þessar 6 millj. eru ekki nægilegar til þess að styrkja veginn, svo að hann þoli þessa miklu umferð, sem þar verður á næstu árum, en þó er þetta spor í áttina til endurbóta á veginum.

Næst er liður, sem nefndist: „Til að brúa Svartá hjá Daufá í Skagafirði og gera veg að henni, m.a. vegna félagsræktunar bænda í Lýtingsstaðahreppi, 4,4 millj. kr.“ Þetta er framkvæmd, sem er þýðingarmikil vegna innanhéraðsumferðar þarna í innanverðum Skagafirði. Geta má þess, að hestamannafélagið í Skagafirði, sem heitir Stígandi, hefur látið gera skeiðvöll á Vindheimamelum, sem er nálægt þessu brúarstæði, og þennan völl mætti nota til lendingar fyrir sjúkraflugvélar, og væri það mikið öryggismál fyrir Lýtingsstaðahrepp í neyðartilfellum. En til þess að þeir eigi greiðan aðgang að þessum flugvelli, þarf að brúa Svartá. Enn má nefna það, að Lýtingsstaðahreppur hefur nú nýlega fest kaup á jörð á þessum slóðum, innarlega á láglendinu í Skagafirði, jörð, sem heitir Borgarey. Þar eru ræktunarskilyrði mjög mikil og góð, og það er hugmynd bændá í Lýtingsstaðahreppi að stofna þarna til mikillar félagsræktunar, til þess að auka heyfenginn og tryggja sér nægilegt fóður fyrir búféð. Og við teljum, að þetta framtak þeirra sé sjálfsagt að styðja. En þeir hafa þörf fyrir brú á Svartá, til þess að þeim verði auðveldara að koma þessum framkvæmdum fram, ræktuninni og heyflutningum af þessu nýja félagslandi.

Ég held, að þetta sé það, sem koma skal, að bændur hefji félagsræktun. þar sem skilyrði til þess eru hagstæð. Og eins og ég sagði áður, tel ég sjálfsagt að styðja slíkar framkvæmdir. Það er því áreiðanlega vel varið nokkru af því fé, sem aflað verður vegna Norðurlandsáætlunar, til þess að auðvelda íbúum Lýtingsstaðahrepps félagsræktunina með því að brúa Svartá. Eins og fram kemur í till. er þarna ekki um mjög stóra fjárhæð að ræða. Það er gert ráð fyrir, að brúin kosti 2.7 millj., þetta er ekki löng brú, en vegagerð að brúnni kosti 1.7 millj., svo að þetta eru 4.4 millj.

Þá flytjum við til viðbótar á þessu þskj., sem ég nefndi, þskj. 734, till. um framlög til tveggja vega í innanverðum Skagafirði, þ.e. Héraðsdalsvegar Í millj. og Vesturdalsvegar 1.7 millj. Það var ekki rúm fyrir þetta á vegáætluninni, en þarna er mikil þörf endurbóta.

Og loks eru 4 till. okkar um framlög til endurbóta á vegum á aðalleiðinni um Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur. Það er í fyrsta lagi vegur frá Öxnadalsheiði að Hörgárdal, þ.e.a.s. Norðurlandsleiðin, endurbæta veginn á henni. Svo er það Ólafsfjarðarvegur frá Hörgárbrú að Dalvík. Við leggjum til, að fari 5 millj. í hvorn þessara vega, sem ég hef nefnt. Til endurbóta á vegum á milli Akureyrar og Húsavíkur á aðalleiðinni verði varið 5 millj., og loks til endurbóta á Þingeyjarsýslubraut á milli Húsavíkur og Þórshafnar, 5 millj. Samtals eru þetta rúmar 39 millj., sem við leggjum til, að verði teknar af þessu fé Norðurlandsáætlunar til þessara aðkallandi samgöngubóta á Norðurlandi.