16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú reyna að lengja ekki þessar umr. mikið, þar sem naumur tími er, en kemst þó ekki hjá að segja nokkur orð til þess að útskýra nokkuð afstöðu mína til þessara brtt. og svara ákveðnum fsp., sem fram hafa komið og ég tel ekki annað viðeigandi en að gera að umtalsefni.

Tveir hv. þm. Austf. leggja til, að tekin verði upp heimild til lántöku vegna Austfjarðaáætlunar. Ég er á engan hátt andvígur því, að það komi til greina að framkvæma Austfjarðaáætlun, hefur reyndar verið samþ. í stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs nú fyrir skömmu, að athugað verði með gerð sérstakrar samgönguáætlunar fyrir Austfirði. Eins og allir hv. þdm. vita, þá hefur verið unnið að þessum byggðaáætlunum í áföngum og tekin viss svæði í einu, því að vitanlega verður ekki við allt ráðið, það er sjáanlegt, og verður að velja hér á milli. Samgönguáætlun Vestfjarða var fyrst tekin, vegna þess að þá stóðu sakir þannig, að það var mál manna yfir höfuð, að aðstaða Vestfirðinga væri þá erfiðust landsmanna, m.a. vegna fólksflutninga úr Vestfjarðakjördæmi. Það þótti ekki mögulegt að taka upp aðra áætlanagerð, fyrr en Vestfjarðaáætlun væri langt komin, hvað framkvæmd snertir. En eftir að nokkur tími var liðinn frá því, að hafizt var handa um gerð Vestfjarðaáætlunar og ákvörðun tekin um framkvæmd samgöngumálakafla hennar, þá var ákveðið af ríkisstj. í samráði, eins og menn vita, við stéttarfélög á Norðurlandi, að hafizt yrði handa um gerð Norðurlandsáætlunar og þá fyrst og fremst atvinnumálaáætlunar fyrir Norðurland, sem byggðist á því, að það var þá einnig sammæli manna yfir höfuð, að ég held — enda komu engin andmæli gegn því — að þá væri erfiðast atvinnuástand á Norðurlandi af öllum byggðarlögum á landinu. Að þessari áætlun hefur síðan verið unnið.

Nú er gerð atvinnumálakafla Norðurlandsáætlunar að ljúka. Hv. samþm. minn, 5. þm. Norðurl. e., var að vísu ekki mjög ánægður með yfirlýsingar mínar um það efni á liðnum árum, og taldi, að allt hefði það gengið tregar en ég hefði lofað. Að vísu vil ég ekki kannast við, að ég hafi lofað neinu um það, sagði aðeins það, sem ég hafði reiknað með, vegna þess að það er nú ekki ég, sem geri þessa áætlun, heldur var Efnahagsstofnuninni falið að gera þetta. Og hverju sinni, þegar ég sagði frá því, hvað ég reiknaði með eða teldi líklegt, þá byggðist það á umsögnum Efnahagsstofnunarinnar um gang málsins. Hinu hefur þessi stofnun hvað eftir annað vakið athygli á, að það hafi seinkað þessari áætlun, hvað mannafli hennar miðað við verkefni hafi verið naumur, og hvað eftir annað komið fyrir tímabundin vandamál, sem stofnuninni voru fengin til meðferðar, sérstaklega í sambandi við erfiðleika sjávarútvegs, vinnudeilur og annað, sem tók upp allan starfstíma stofnunarinnar. Og auk þess gerðist það óhapp varðandi áætlunina, sem má vafalaust telja happ að öðru leyti, að maðurinn, sem aðallega vann að henni, var tekinn af okkur Norðlendingum og fluttur norður til allt annars verkefnis, en hann er núverandi bæjarstjóri á Akureyri. En þetta olli því, að áætlunargerðin lá niðri um nokkurra mánaða skeið, áður en hægt var að hefjast handa um hana aftur, þannig að við getum kannske sjálfa okkur um sakað varðandi þetta atriði.

Ég veit nú ekki nema menn kunni að brosa, ef ég segi enn einu sinni, að það sjái fyrir endann á þessari áætlun. En það er nú samt svo, að atvinnumálakafla áætlunarinnar er lokið, þannig að hún er nú til yfirlestrar hjá Efnahagsstofnuninni, og verður síðan borin samkv. samkomulagi, sem þar að lútandi var gert, undir samtök sveitarfélaga á Norðurlandi og samtök verkalýðsfélaga á Norðurlandi, sem ég vona, að taki skamman tíma, því við þessa aðila hefur náttúrlega verið meira og minna rætt um málið. Og ég geri mér því fullkomlega vonir um það, að nú innan mjög skamms tíma — ég hafði jafnvel vonazt til, að það yrði áður en þingi lýkur, en það getur ekki orðið — þá verði hægt að ganga frá þessari áætlun, þannig að hún geti orðið til til fjölritunar, og þá get ég lofað hv. þm. því, að það er að sjálfsögðu eðlilegt og sanngjarnt, að a.m.k. þm. þeirra svæða, sem þetta varðar, fái þessa áætlun til athugunar, þegar eftir að hún hefur verið gerð.

En Austurlandsáætlun hefur ekki verið gerð. Ég veit að vísu, að Austfirðingar hafa haft mann á sínum vegum til að vinna að undirbúningi þeirrar áætlunar. Um það mál hef ég ekkert séð, og eins og sakir standa og eins og gert er ráð fyrir í lögum, þá er reiknað með því, að Atvinnujöfnunarsjóður hafi forgöngu um gerð byggðaáætlana, og svo sem ég áðan sagði, þá hefur Atvinnujöfnunarsjóður nýlega samþ. og leitað um það álits Efnahagsstofnunarinnar formlega, hvort ekki væri tímabært að hefjast handa um gerð samgönguáætlunar fyrir Austfirði og að ljúka atvinnumálakafla Vestfjarðaáætlunar, sem aldrei hefur verið gerður nema í ramma. Á þessu stigi tel ég engan veginn tímabært að leita lántökuheimilda til þessara framkvæmda, sem er ekki einu sinni búið að taka ákvörðun um, hvernig að verði unnið, hvort verði tekin samgönguáætlun út af fyrir sig, eða atvinnumálaáætlun fyrir Austurland, eða hvernig því verði hagað. Hér er aðeins leitað lántökuheimilda til lántöku, sem þegar er vitað, að er auðið að fá. Ég tel engar líkur til, að við ættum kost á því að fá lán til Austfjarðaáætlunar á þessu stigi, því að það hefur meira að segja gengið erfiðlega að fá lán til Norðurlandsáætlunar, vegna þess að við höfum ekki getað gefið nægilega ljósar upplýsingar um það, til hverra hluta þetta lán ætti að ganga, af því að áætlunin hefur ekki verið tilbúin. Hvað þá, ef við færum nú á fjörurnar um lántöku til áætlunar, sem við getum ekkert sagt um, annað en að við hugsum okkur að gera hana.

Þetta má enginn skilja sem nokkra andstöðu mína við þá hugmynd, sem hér liggur að baki, heldur er það ákveðin skoðun mín, að hér sé ekki um tímabæra till. að ræða, og að fyrst þurfi að komast niður á, hvaða kafla Austfjarðaáætlunar eigi að leggja áherzlu á, og hvaða þarfir það verði, fjárhagslega séð, sem þurfi þá að uppfylla, til þess að hægt verði að framkvæma þá áætlun, eins og t.d. var gert formlega varðandi samgöngumálaþátt Vestfjarðaáætlunar. Þetta veldur því, að ég tel fyrir mitt leyti ekki mögulegt og leggst mjög gegn því, að þessi brtt. hv. þm. Austf. verði á þessu stigi samþ. við þetta frv.

Varðandi það, hvað sé Norðurland þá er það náttúrlega kannske rannsóknarefni út af fyrir sig, en eitthvað eru þm. Vestf. í vafa um, hvað hluti af þeirra kjördæmi skuli teljast. En það liggur ljóst fyrir, að Strandasýsla tilheyrir Norðurlandi, enda þótt Norðlendingar muni ekki fara að ásælast kjósendur þeirra þar, það er önnur saga. En þegar samkomulagið var gert við verkalýðssamtökin á sínum tíma þá náði það einnig til Strandasýslu, því ég hygg, að það sé innan svæðis þess verkalýðssambands Norðurlands, sem starfandi er og samningarnir voru þá gerðir við. Og það sem meira er; ákveðið var að teygja Norðurland einnig suður til Vopnafjarðar. Hversu glaðir Austfirðingar verða yfir því skal ég ekkert um segja, en það er ástæðan til þess, að Vopnafjarðarhöfn hefur hlotið vissa náð fyrir augum okkar í sambandi við Norðurlandsáætlun, að þeir eru taldir tilheyra Norðurlandi að þessu leyti. Ég get hinsvegar jafnframt gefið þá yfirlýsingu, að við höfum ekki hugsað okkur að sækjast eftir þeim kjósendum þeirra Austfjarðaþm., sem þar búa heldur. En sem sagt það er rétt, að það liggi ljóst fyrir, að Norðurlandsáætlun nær yfir svæðið frá og með Strandasýslu til Vopnafjarðar eða suður til Bakkaflóa. Vopnafjörður er þar reyndar með. Það mun vera suðuroddi þessarar áætlunar í framkvæmd.

Hér hafa komið fram brtt., sem eru í því fólgnar, að ákveða nú í þessum lögum, hvernig eigi að ráðstafa þessu fé. Þetta tel ég ákaflega óheppilegt, ekki vegna þess að það séu ekki allt nytsamlegar og góðar framkvæmdir, sem hér er talað um, heldur sýnist mér með öllu móti óeðlilegt að fara að afgera, hvernig þessu fé skuli ráðstafað, án þess að þessi áætlun liggi fyrir. Og án þess að vitað sé, hvort hún samræmist því, sem hér er gert ráð fyrir. Til dæmis standa þannig sakir, að í áætluninni, eins og hún liggur fyrir núna, er ekki gert ráð fyrir vegamálum, á þessu stigi. Það verður unnið áfram að vegamálakafla Norðurlandsáætlunar, það er allt önnur saga, en á þessu 1. stigi er hann ekki tilbúinn, og hann mun ekki vera í þeirri áætlun, sem innan tíðar verður nú birt; ekki teljast til atvinnumálakafla hennar. Rafvæðingin verður þar að vissu leyti, það get ég sagt, án þess að fara út í einstök atriði, en hvort hún verður nákvæmlega í því formi, sem hér er gert ráð fyrir, um rafvæðingu býla á þessu svæði upp að tveimur km, það þori ég ekkert um að segja.

En það er eitt, sem ég vil leggja áherzlu á, varðandi báðar þessar brtt., sem líka gerir þær ófærar til framkvæmda og samþ., eins og þær eru. Og það það er ekki ætlazt til að þetta fé sé óafturkræft, þannig, að ef það ætti að leggjast til vega eða til raforkuframkvæmda þá yrði það að endurgreiðast. Og þetta byggist á því, að það hefur verið ákveðið, að Atvinnujöfnunarsjóður taki þetta þýzka lán sem tekið verður til Norðurlandsáætlunar, en samkvæmt lögum um Atvinnujöfnunarsjóð þá má hann aldrei veita óendurkræft neitt fé, sem tekið er að láni erlendis frá. Og raunar ekki neitt fé, sem tekið er að láni, heldur skal eingöngu verja því til framkvæmda, sem eru það öruggar, að telja megi víst, að féð verði endurgreitt. Og þetta yrði þess vegna að vera í því formi, ef það ætti t.d. að verja því til rafvæðingar strjálbýlisins, að þá yrði að liggja fyrir skuldbinding um það frá ríkissjóði, að ríkið veitti fé á einhverju árabili til þess að endurgreiða þetta lán. Og sama mundi verða með vegamálin, að ef ætti að verjá þessu til þessara vega þá yrði að liggja fyrir — ég satt að segja veit nú ekki frá hverjum hún ætti að liggja fyrir á þessu stigi — yfirlýsing um það, að Vegasjóður tæki að sér endurgreiðslu þessara lána á vissu tímabili.

Og ég tek hér dæmi, sem vikið var að af einhverjum þessara hv. þm. — ég man nú ekki, hver þeirra það var, það skiptir ekki máli — þar sem hann talaði um, að nú mundi þegar, í sambandi við Norðurlandsáætlun, þótt hún væri ekki tilbúin, vera búið að ákveða tvær lánveitingar. Aðra til hafnargerðar í Vopnafirði og hina til iðnskóla á Akureyri. Þetta er hvort tveggja rétt. Þetta er gert hvort tveggja í samráði við atvinnumálanefnd ríkisins. Atvinnujöfnunarsjóður hefur gert þetta, byggt á umsögn Efnahagsstofnunarinnar um það, að hvor tveggja þessara framkvæmda geti fallið innan ramma Norðurlandsáætlunar, eins og Efnahagsstofnunin muni nú ganga frá henni. En þessi lán eru veitt með þeim hætti, og því segi ég frá til að útskýra það sem ég áðan sagði, að fengi ekki staðizt með vegina og rafvæðinguna, eins og frá þeim till. er gengið, að t.d. lánveitingin til Iðnskólans á Akureyri er háð því skilyrði, að fjvn. gefi um það yfirlýsingu, að hún muni beita sér fyrir því, og reyndar rn. líka, að á næstu fjórum árum verði tekin í fjárlög nægilega há upphæð til þess að endurgreiða þetta lán. Og þetta er auðvitað nægileg trygging. Með hafnargerðina í Vopnafirði er sömu sögu að segja. Að það er gerð sú krafa, að fyrir liggi, að þessi hafnargerð sé innan ramma hafnaáætlunar, hún verði gerð til fjögurra ára, að þingmenn þessa kjördæmis lýsi því yfir, að þeir muni styðja það, að fjárveiting hennar verði í samræmi við það, sem þar er lagt til. Og í þriðja lagi, að fjvn. Alþ. gefi yfirlýsingu um það, að hún muni fyrir sitt leyti styðja það, að þessi fjárveiting verði veitt, til að hægt sé að endurgreiða lánið á vissu tímabili. Þessi dæmi nefni ég aðeins til þess að mönnum verði ljóst, hvernig framkvæmd þessa er hugsuð, að þetta er allt hugsað sem lánveitingar til skemmri eða lengri tíma, helzt til sem skemmst tíma til þess að sé hægt að velta fénu hraðar, greiða fyrir mikilvægum framkvæmdum.

Það er ljóst auðvitað, að hafnargerð í Vopnafirði er grundvöllur undir atvinnulífi þar, þannig að það er ekkert efamál, að það fellur undir atvinnumálakaflann. Og jafnframt telur Efnahagsstofnunin, að Iðnskólabyggingin á Akureyri, þar sem jafnframt er bækistöð Tækniskólans og Vélskólans, sé slík undirstaða undir tæknimenntun á Norðurlandi, að hún sé tvímælalaust þáttur í almennri atvinnuuppbyggingu og verkmenningu á Norðurlandi og þess vegna sé nauðsynlegt að ljúka þeirri byggingu. Þetta eru ástæðurnar til þess, að þetta hefur verið tekið þarna með. Og þetta eru fyrstu fjárveitingar, sem ákveðnar hafa verið af Norðurlandsáætlunarfé.

Ég veit ekki, hvort þessar skýringar eru teknar góðar og gildar af hv. þm., ég er með þessu ekki að mótmæla neinu af þeirra hugmyndum, sem þeir eru hér með, þetta er allt þarft og gott, en ég tel, að þetta séu fullgild rök fyrir því, að ekki sé stætt á því að samþykkja þessa till. um ráðstöfun fjár, samkv. áætlun, sem ekki hefur ennþá formlega verið gengið frá og með þeim hætti, sem ljóslega brýtur gersamlega í bága við þau vinnubrögð, sem höfð verða við lánveitingar samkv. þessari áætlun.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson, 5. þm. Norðurl. e., spurðist fyrir um áætlunina. Ég hef þegar sagt, að ég vonast til, að hún verði til á næstunni og vonandi verður það nú öruggt mál, ekki sízt af því að ég hef séð hana í handriti, svo að ég held, að það ætti ekki að geta staðið lengi á því.

Hann spyr, hvort 60 millj. séu ætlaðar til samgöngumála. Það er ekki gert á þessu stigi, því að eins og ég áðan sagði, þá er samgöngumálakafla áætlunarinnar ekki lokið.

Hann spyr um hitaveitur á Dalvík og Húsavík, og hefði reyndar kannske mátt spyrja og bæta við þriðja staðnum, Ólafsfirði, hvort gert væri ráð þar fyrir að lána til þeirra. Það getur vel komið til álita, að það verði gert, og það er bent á hagnýtingu jarðhitans sem mjög mikilvægan þátt í eflingu byggðar á Norðurlandi. En allar þessar framkvæmdir eru nú til meðferðar hjá atvinnumálanefnd ríkisins og munu væntanlega fá verulega aðstoð úr þeirri átt, til þess að þær komist í gang. Og hér er að vísu um svo stórar framkvæmdir að ræða, eins og hitaveitu á Húsavík, að þar þarf að framkvæma sérstaka lánsfjáröflun. En ég held, að allar þessar framkvæmdir séu það jákvæðar, að það sé ljóst, að hyggilegt sé í þær að ráðast og þær muni fá eftir einhverri leið jákvæða afgreiðslu.

Varðandi stækkun frystihúsa þá auðvitað fellur það undir ramma Norðurlandsáætlunar, án þess að ég geti farið að ræða þar um einstök frystihús, enda er Norðurlandsáætlunin ekki í því formi, að hún segi til um, hvaða tiltekin fyrirtæki eigi að stækka eða ekki stækka, heldur hvaða flokka fyrirtækja þurfi að efla og hvers konar atvinnurekstur. Mér er hins vegar kunnugt um það, að hjá atvinnumálanefnd ríkisins hefur þegar fengizt viðurkenning á því, að það sé brýn nauðsyn að stækka mjög verulega fyrst og fremst frystihúsið á Akureyri, vegna nýrrar starfsemi, sem þar á að taka upp. Og af hálfu bæði atvinnumálanefndar ríkisins og Atvinnujöfnunarsjóðs og enn fremur Fiskveiðasjóðs hefur á þessu ári verið varið verulegum fjárhæðum til aukningar margra frystihúsa á landinu, þar sem hefur þurft sérstakra endurbóta við.

Seinustu spurningunum, um það hvort þm. Norðlendinga fengju þessa áætlun í hendur, tel ég mig þegar hafa svarað jákvætt, og ég tel ekkert nema eðlilegt við það, eftir að hún hefur verið athuguð. Ég reikna með, að hún verði fyrst með eðlilegum hætti afhent ríkisstj., þar sem Efnahagsstofnunin hefur samkvæmt fyrirmælum hennar gert þessa áætlun og að þá verði frá henni gengið, þannig að þm. geti fengið hana.

Hins vegar hefur þegar verið ákveðið, og er það í samræmi við lög um Atvinnujöfnunarsjóð, að Atvinnujöfnunarsjóður sjái um framkvæmd áætlunarinnar, og þó að það séu ekki allir þm., sem þar eiga aðgang að, þá vill nú svo til, að stjórn þess sjóðs er skipuð sjö alþm., þannig að þeir munu þekkja flest þau vandamál, sem helzt er við að glíma í sambandi við uppbyggingu byggðarinnar.

Herra forseti. Ég bið afsökunar, að ég hef lengt umr. um þetta, hefði ekki viljað þurfa gera það, en taldi ekki mögulegt annað en víkja nokkrum orðum að þessum till., eins og þær liggja fyrir.