16.05.1969
Neðri deild: 95. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (1691)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Frsm. minni bl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er ætlunin að setja ný lög um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf í stað þeirra, sem gilt hafa með litlum breytingum í 40 ár.

Sumt í þessu nýja frv. tel ég vera til bóta, eins og t.d. ákvæðin í 7. gr. þess, sem voru sett inn í hv. Ed., um það, að umbúðir um vindlinga skuli á áberandi hátt merktar með eftirfarandi áletrun: Viðvörun, vindlingareykingar geta valdið krabbameini í lungum og hjartasjúkdómum. — Ég tel það gott, að þetta var sett inn í frv., en ég tel. að það hefði mátt setja eitthvað hliðstætt viðvíkjandi áfengi, en það varð víst ekki samkomulag um það í hinni deildinni og líklega vonlítið um það, því að komið er alveg á síðustu daga þingsins, að koma þessu inn hérna. Það hefði verið ástæða til að setja einhverja viðvörun á áfengisflöskurnar, sem hefði getað verið t.d. á þessa leið: Viljir þú viti halda, varastu mig. — Því að það er kunnugt, að sá vökvi veldur brjálsemi hjá mörgum og heilsutjóni að öðru leyti líka, fjárhagstjóni og glataðri lífshamingju svo fátt sé talið.

En þó að ég telji þetta um tóbakið vera til bóta, þá er annað í þessu frv., sem ég tel ekki rétt að lögfesta og vil gera á því breytingu. Það er gert ráð fyrir því í frv. að fella niður einkaheimild ríkisstj. til að flytja til landsins eða framleiða hér á landi ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn, bökunardropa, kjarna til iðnaðar og pressuger, en ríkisstj. er búin lengi að hafa þessa einkaheimild. Það er nú svo, að ég ber ákaflega takmarkað traust til núverandi hæstv. ríkisstj., en það er sagt, að engum sé alls varnað og ég tel, að það væri óhætt að láta hana hafa þetta einkaleyfi áfram, enda hafa nú ráðh. ekki sjálfir fengizt við þetta, heldur falið framkvæmdina einni ríkisstofnun, sem heitir Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Áfengis- og tóbaksverzlunin hefur haft af þessu nokkrar tekjur. Það munu vera, að því er mér er sagt, um 3 millj. á ári þessi síðustu ár, og þarna hefur nokkuð af fólki haft atvinnu við að ganga frá þessum vörum, mér er sagt að það muni vera 12 manns. Nú er það meiningin að leggja þetta niður og leyfa hverjum sem er að flytja þetta inn frá útlöndum. Þá tapar ríkissjóður þarna nokkrum millj. og nokkuð af fólki missir atvinnu, sem færist yfir til útlendinga, en það er nú svona með þessa ríkisstj. að hún stundar það nokkuð að færa atvinnu frá Íslendingum til útlendinga, og ég tel að við eigum að standa á móti slíku. Því er það, að við í minni hl. fjhn., ég og hv. 5. þm. Austf., sem höfum skilað nál. á þskj. 750, höfum líka flutt brtt. við frv. á þskj. 751 og hún er þannig með leyfi hæstv. forseta. Við viljum umorða 2. málsl. 1. málsgr. í 1. gr. og hafa hann svona: „Ríkisstj. ein má flytja til landsins eða framleiða hér á landi ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn og bökunardropa, kjarna (essensa) til iðnaðar og pressuger.“

Þetta er nákvæmlega eins og er í gildandi lögum, við viljum sem sagt láta þetta halda sér.

Ég vil enn benda á eitt, sem styður þetta mál. að hún verði samþykkt þessi till. okkar. Það er nefnilega nokkur hætta á því, að ef innflutningur á þessum vörum verður gefinn frjáls hvað snertir t.d. hárvötn og andlitsvötn, geti svo farið, að inn verði fluttar vörur innihaldandi meira spíritusmagn en leyfilegt er samkvæmt lögum, þar eð nokkur hætta á því, að það geti orðið erfitt að líta eftir þessu.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, þetta er einfalt mál og auðskilið hverjum manni og ég býst við, að hv. þdm., sem hafa séð þessa brtt., hafi gert sér ljósa grein fyrir því, hvert efni hennar er og séu þess vegna reiðubúnir til þess að greiða atkvæði um hana.