17.05.1969
Neðri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

248. mál, vinnumiðlun

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hirði nú ekki um að svara þeim kafla ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem fjallaði um hjartaflutninga. Ég hygg, að fáir okkar þyrðu undir hans hendur í þá aðgerð. En um hitt atriðið, sem hann virtist leggja hér mesta áherzlu á, það, hvað ríkisstj. hefði gert í atvinnuvandamálum skólafólks og ungs fólks yfirleitt, þá leyfi ég mér að vísa til þess svars, sem ég gaf honum hér við fsp., sem var til umræðu hinn 23. apríl s.l. Mig minnir nú, að hv. þm. hafi þá sagt, að hann legði ekki mikið upp úr því orðagjálfri, eins og hann nefndi mín svör. En ég vil ekki tefja störf þingsins nú á því að endurtaka þessa ræðu, sem ég þá flutti, en vísa til þess. Undirstaðan að því, að skólafólk sem og aðrir í landinu hafi atvinnu, er að tryggja þó fyrst og fremst atvinnu þeim, sem byggja lífsafkomu sína á því að vinna árið um kring. Af því leiðir svo aftur, að hægara er um vik að leysa vanda þeirra ungu. Þetta kom fram í mínu svari hér í vetur, og hv. frsm. minni hl., hv. 2. þm. Reykn., lét að því liggja, að ég hefði þá lofað því, að í væntanlegum breytingum á atvinnuleysistryggingunum yrði aðstoð við skólafólk. Það, sem ég sagði um þetta þá, er orðrétt á þessa leið:

„Án þess að um hafi verið spurt, tel ég rétt að skýra frá því, að nú stendur yfir endurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar. Í þeirri n., sem málið hefur til meðferðar, hefur sú hugmynd verið rædd, að skólafólk geti notið atvinnuleysisbóta, sem það nýtur ekki í dag.“

Öðruvísi var mitt loforð ekki, ég sagði aðeins frá þessum umræðum.

Ríkisstj. er legið hér mjög á hálsi fyrir það, hve seint frv. kom fram. Ég hygg, að þeir menn, sem að undirbúningi málsins unnu, hafi notað hverja þá stund, sem þeim gafst til þess að afgreiða þetta mál í hendur rn. og síðar þingsins. Og þetta mál stöðvaðist ekki einn dag í rn. frá því að þeir luku sínum störfum og þar til það var komið í prentun. Af þeim ástæðum er m.a. sú breyting, sem fram kemur í n. nú, að málið hefur hlotið allt of litla athugun. Það er alveg rétt. Ég taldi það hins vegar hreina skyldu mína að leggja málið fyrir undir eins og n. hafði lokið sínum störfum. Það er því ekki nein vanræksla af hálfu ríkisstj., sem hér er mjög höfð á oddinum, nema síður sé. Það mætti heldur álasa henni fyrir, að hún hafi látið málið lítt athugað inn í Alþ. Þess vegna er sú brtt., sem n. hér flytur, fram komin, að mönnum hefur ekki unnizt tími til að rannsaka þetta mál svo sem nauðsynlegt hefði verið. Það þykir of óljóst, hvað þessi liður, sem upphaflega var í till. umræddrar nefndar, þýði, og mun það áfram verða til meðferðar hjá þeirri n. í þeirri framhaldsrannsókn, sem fram fer í þessu máli, og væntanlega verður hægt að leggja endanlegar niðurstöður á endurskoðun laganna allra fyrir þing í haust. En n. mun starfa áfram að þessari endurskoðun.

Það er alveg rétt, sem hér kom fram áðan, að ástæðan fyrir flutningi þessa máls nú er, að það er ekki fyrr en á allra síðustu tveimur árum, að virkilega hefur reynt á framkvæmd þessara laga vegna þess atvinnuleysis, sem hér hefur ríkt. Þess vegna hafa komið fram margir vankantar á sjálfri framkvæmdinni, sem þykir nauðsynlegt að leiðrétta í ljósi þeirrar staðreyndar, sem fengin er um framkvæmd þessara mála. Og ég hygg, að enginn efist um það, að þeir menn, sem að endurskoðuninni unnu, hafi rækt skyldur sínar og þekki vel hvar eldurinn heitast brennur í þessum efnum, og till. þeirra lúta að því að fá auðveldari og réttlátari framkvæmd þessara laga.