04.03.1969
Neðri deild: 60. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

150. mál, skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í frv. þessu er lagt til, að einn merkur og frægur rithöfundur hér á landi skuli sleppa við að greiða tekjuskatt og útsvar af verðlaunum, sem hann er um þessar mundir að fá í hendur úr konungsríkinu Danmörku. En hvernig er búið að öðru fólki í þessu efni? Mig langar til að nefna dæmi um það.

Ég hef lesið í nýlega prentaðri bók frásagnir af einum embættismanni hérlendum. Sá heitir Jón og er prestur á Snæfellsnesi í námunda við Jökulinn. Séra Jón hefur ættarnafn eins og fleiri merkir menn. Ættarnafn hans er Prímus. Þetta er hæfileikamaður, bæði á andlega sviðinu og hinu verklega, völundur hinn mesti og sérlega fróður um allar vélar. Í tómstundum sínum gerir hann við prímusa fyrir fólk og fleiri vélar. Þetta er góðhjartaður maður, þessi prestur. Ég býst ekki við, að hann gangi ríkt eftir borgun fyrir viðgerðir, sem hann innir af höndum fyrir fólk, einkum ef fátækir eiga í hlut. Þó get ég búizt við, að honum áskotnist nokkrir skildingar árlega fyrir þessi aukastörf. En hann verður að borga af þessum aukatekjum sínum skatta og útsvar samkvæmt landslögum. Sögn er um það, að séra Jón Prímus hafi tekið sér ferð á hendur um fjallveg örðugan til einnar verstöðvar þar á nesinu þeirra erinda að gera við vélar í frystihúsi. Þetta frystihús er illa statt fjárhagslega. Þannig er um fleiri frystihús og mörg önnur atvinnufyrirtæki hér á landi um þessar mundir. Stafar það ekki sízt af því, að núverandi ráðherrar hafa setið of lengi í ráðherrastólum. Ég er ekki viss um það, að séra Jón Prímus geri háar kröfur til frystihússins um borgun fyrir sína vinnu þar, því að þetta er, eins og ég tók fram áðan, eftir lýsingum að dæma góðviljaður maður og vill öllum gott gera. En hitt tel ég alveg víst, að forráðamenn frystihússins hafi séð sóma sinn í því að láta prestinn hafa frítt uppihald, meðan hann vann hjá þeim við að koma vélunum í gang. Þá koma nú skattayfirvöldin til skjalanna. Þau meta til peningaverðs matinn, sem fer ofan í prest þessa daga, sem hann er að vinna þarna, og síðan er matsupphæðinni skellt ofan á embættislaun hans og reiknaður tekjuskattur og útsvar af allri summunni. Þannig koma skattamenn fram við þennan þjón drottins.

Séra Jón Prímus er kvæntur maður. Með því að eiginkona hans hefur dvalið langdvölum í útlöndum við ýmis viðfangsefni, hefur hann búið með ráðskonu. Sú nefnist Hnallþóra, gerðarlegasti kvenmaður í sjón og raun, m. a. vel fær í kökubakstri og öðrum innanbæjarstörfum. Hún hlýtur því að hafa sæmilegt kaup hjá presti. En hún verður að borga af þessu skatt og útsvar. Fröken Hnallþóra nýtur engrar miskunnar hjá Magnúsi, ekki heldur hjá yfirvöldum í því sveitarfélagi, þar sem hún á heima.

Ég ætla að nefna eitt dæmi enn og nú af manni í Reykjavik. Einn af mörgum, sem þar búa, nefnist Umbi. Þetta mun vera fágætt nafn. Að minnsta kosti man ég ekki eftir því, að ég hafi heyrt fleiri menn nefnda, sem bera þetta heiti. Umbi þessi gerðist sendimaður biskups, fór í umboði hans vestur til að vísitera í prestakalli séra Jóns Prímusar. Biskup lofaði að borga honum fyrir þetta eftir embættismannataxta, og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að biskup hefur staðið við það fyrirheit. En þetta eru ekki allt hreinar tekjur hjá umboðsmanninum. Hann varð fyrir fjárhagstjóni í ferðinni vegna stórskemmda á skófatnaði. Þegar hann hóf vesturför, var fótabúnaður hans þannig, að hann var í boxkálfskóm, támjóum. Er hann hafði lokið erindum þar vestra og var snúinn heim á leið, festist bifreið, er hann sat í, í forarvilpu. Umbi varð því að fara fótgangandi langa leið í aurbleytu. Skór hans voru því ákaflega illa útlítandi, þegar hann kom heim til sín til Reykjavíkur, hann gat ekki sýnt sig í þeim á strætum höfuðstaðarins og alls ekki gengið á þeim í biskupsstofu til að skila sínum skýrslum. Ekki gat hann heldur farið á þessum skóm á dansgólf, þó að hann hefði löngun til að stíga dansspor með fögrum konum og fjörugum á skemmtistöðum borgarinnar á síðkvöldum. Umba var því nauðugur einn kostur að fara í skóverzlun og kaupa handa sér nýja skó. En þó að færa mætti rök að því, að þessi kostnaður hans við skókaupin stæði í beinu sambandi við förina á Snæfellsnes, fær hann ekki að draga verð nýju stígvélanna frá launum þeim, sem biskup borgaði honum, áður en lagður er á þau skattur og útsvar. Skattstjórinn og borgarstjórinn í henni Reykjavík eru ekki á þeim buxunum að leyfa honum þetta.

Ég hef nefnt hér þrjú dæmi, sem sýna það, við hvað menn eiga að búa í skattamálum. En undir þessu sama skattalögmáli eru landsmenn yfirleitt allir. Og mér er spurn: Á þá ekki skáldið í Gljúfrasteini í Mosfellshreppi í Kjósarsýslu, Halldór Guðjónsson Kiljan Laxness, einnig að fá sæti við þetta sama stóra borð með vinum sínum, séra Jóni Prímusi, fröken Hnallþóru ráðskonu, Umba. biskupssendimanni, Helga hreppsnefndaroddvita og hrossakaupmanni í Langavatnsdal og öðrum landslýð yfirleitt, þ. á m. öðrum skáldum og listamönnum, ha?

Já, skáldum vel á minnzt. Íslenzka ríkið greiðir rithöfundum og öðrum listamönnum ár hvert nokkurt fé úr sjóði sínum, sem kunnugt er. Þetta reiknast allt skattskyldar tekjur hjá rithöfundum. Það er lagður tekjuskattur og tekjuútsvar á öll þessi listamannalaun. Það, sem um getur í frumvarpskríli þessu, sem hér liggur fyrir, er að vísu annað folald úr annarri meri, eins og segir á einum stað í þeirri merku bók, sem ég hef hér lítillega vitnað til. Dönsk folöld munu vera stærri en íslenzk folöld, og þá er mér spurn: Hvers vegna ætti stórt folald hingað komið úr konungsríkinu Danmörku að vera lakari skattstofn fyrir okkar ríkissjóð en lítið folald, vaxið upp í lýðveldinu Íslandi, ha?

Þó að ég hafi borið fram hér nokkrar athugasemdir, tel ég sjálfsagt, að mál þetta fái þinglega afgreiðslu. Ég vil því, að frv. verði vísað til þn., sem skoði það vandlega í krók og kring.