22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

150. mál, skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég ætla í þessu máli að fara að dæmi hv. fyrri minni hl. fjhn., er hann rímaði nál. sitt, og tala í léttum tón. Ef einhver söngelskur hv. þm. kynni að vilja taka undir það, sem ég segi, þá er lagið: Stóð ég úti í tunglsljósi.

Fjárhagsnefndin ræddi um mikið skattamál.

Mjög ber það að harma, að allt fór það í bál.

Flest getur í þingnefndum furðulegt hent,

framsóknarmennirnir klofnuðu í tvennt.

Skúli reyndist andríkur og orti prýðisljóð,

þótt ekki væri skynsamlegt,sem þar í kvæði stóð.

En Vilhjálmur reyndist skynsamur,

hann víst má eiga það,

þótt væri það lítið, sem hann festi á blað.

Er það nokkuð undarlegt, ef að er betur gáð

þótt einingin sé lítil og tvenn þeirra ráð,

því hér er ekki um að ræða hagsmunamál

fyrir hreina og góða,

dygga og trygga framsóknarsál.

Ef ekki er um slíkt að tefla,

allt er hjá þeim til.

allra handa skoðanir hverjum manni í vil.

Eru þeir ekki til dæmis með og móti her,

með og móti amerísku varnarliði hér?

Og vilja þeir ekki hækka kaup

og lækka kaup um leið?

Ef leiðtoginn er Thorlacius, hleypt er á skeið.

En Erlendur í SÍS er á ísagrárri spöng,

hann engan heyrir lengur fjaðraþyt né söng.

Maddama Framsókn forðum oft sig furðulega bar,

nú furðar menn að sjá, hve hún er mikið skar.

Stundum hún andvarpar ein með sjálfri sér:

Er það máske feigðin, sem kallar að mér?