15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

120. mál, áfengislög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. flytur hér brtt. á þskj. 396. Hún er við 12. gr. l., og er meginbreytingin frá gildandi lögum sú, að þar sem segir í upphafi 12. gr. áfengislaganna, að í kaupstöðum, þar sem áfengisútsala er, geti dómsmrh. veitt veitingahúsum leyfi til vínveitinga, þegar eftirtalin skilyrði eru fyrir hendi, sem þar eru tiltekin, leggur allshn. til með þessari brtt., að þessi heimild verði nokkuð rýmkuð þannig, að dómsmrh. er heimilt að veita veitingahúsum leyfi til vínveitinga að uppfylltum þeim skilyrðum, sem eru óbreytt og áður hafa verið, og sömuleiðis er gert ráð fyrir því í þessari brtt., að það sé einnig heimilt að veita vínveitingaleyfi húsum utan kaupstaða á þeim árstíma, sem heimsóknir erlendra ferðamanna eru að jafnaði mestar, þ. e. frá 1. júní til 30. sept. Sömuleiðis er lagt til að 6. mgr. í 12. gr. áfengislaganna falli niður, en hún er svo hljóðandi, að ef áfengisútsala í kaupstað er lögð niður samkv. ákvæðum 10. gr., falli samtímis úr gildi vínveitingaleyfi veitingahúsa þar.

Það kom fyrir allshn. erindi, sem var sent frá eigendum veitingahúss í Hafnarfirði, fyrirtæki, sem Skiphóll heitir, og þar er skýrt frá því, að þetta félag hafi tekið á leigu húseign við Strandgötu í Hafnarfirði, og þar hefur verið komið fyrir kaffisölu á jarðhæð og opnaður jafnframt 50 manna salur á 2. hæð hússins, þar sem ýmis félagasamtök í þessu bæjarfélagi hafa fengið aðstöðu. Enn fremur er verið að vinna að innréttingu á 200 manna samkomusal á 3. hæð hússins. Þessir aðilar óskuðu eftir því að fá vínveitingaleyfi, en samkv. l. eins og þau eru nú, er það ekki heimilt, þar sem engin áfengisútsala er í Hafnarfirði, en hins vegar benda þeir réttilega á það, að í fjölmörgum tilfellum fara ýmsir aðilar úr kaupstaðnum til Reykjavíkur til þess að halda árshátíðir sínar og aðrar veizlur, sem slíkir aðilar efna til og þar með er gengið fram hjá þessu eina stærsta bæjarfélagi landsins af þeirri einu ástæðu, að áfengisútsala er ekki í Hafnarfirði. Allshn. taldi rétt að verða við þessum tilmælum og breyta 12. gr. áfengislaganna á þann hátt, sem ég hef þegar skýrt frá, og brtt. liggur nú fyrir á þskj. 396. Við teljum ekki ástæðu til þess að binda þetta endilega við, að áfengisútsala þurfi að vera í viðkomandi kaupstað eða viðkomandi héraði og því teljum við eðlilegt, að þessi breyting sé gerð. En hins vegar höldum við ákveðið við það, að áður en vínveitingaleyfi er veitt, skuli leita umsagnar bæjarstjórnar eða sýslunefndar í þeim kaupstað eða sýslu, er í hlut á, og er ráðh. óheimilt að veita slíkt leyfi, ef hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd reynist leyfisveitingunni mótfallin. Við 7. gr. er brtt., sem er nánast sagt leiðrétting — í stað orðanna „1. maí, 17. júní, 1. desember og sumardaginn fyrsta“ í 1. mgr. komi: „sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst“ og síðan eru aftur aðrar leiðréttingar í sambandi við Áfengisverzlun ríkisins, sem breytt er í Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, en þetta sást mönnum yfir, þegar brtt. voru fluttar við 2. umr.

3. brtt. er við 16. gr., um að á eftir a-lið komi nýr stafliður, 4. mgr. 1. tölul. orðist svo:

„Flytji skip hingað ólöglega áfengi, svo að telja megi það verulegan hluta af farmi þess, skal heimilt að gera skipið upptækt handa ríkissjóði með dómi.“

Ég vil aðeins leiðrétta, að það hefur slæðzt þarna villa, þegar brtt. var prentuð, sem ég vildi leyfa mér að leiðrétta hér með, að í stað orðanna „skal heimilt“ komi „er heimilt“. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til þess að skýra frekar þær brtt., sem allshn. flytur við áfengislögin, en hins vegar eru hér fleiri brtt., sem að sjálfsögðu munu verða til þess, að miklar umr. verða um þessi mál í heild, og ætla ég á þessu stigi ekki að taka þátt í því, fyrr en þá e. t. v. að frsm. þeirra brtt. hafa flutt sínar ræður.