15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1727 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

120. mál, áfengislög

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Nú er hringt stóru bjöllunni. 5 hv. þm. leggja fram till. á þskj. 419 um þjóðaratkvgr. Fyrirliði þeirra er hv. 10. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson. Meðreiðarmenn hans eru hv. 2. þm. Reykn., Jón Skaftason, hv. 4. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hv. 8. landsk. þm., Steingrímur Pálsson og hv. 5. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson.

En um hvað á þessi atkvgr. að vera? E. t. v. um nýja stjórnarskrá handa lýðveldinu? Ýmsir munu mæla, að kominn sé tími til þess að athuga það mál og greiða um það atkvæði. Eða um nýjar leiðir í skóla- og menningarmálum, heilbrigðismálum eða jafnvel efnahagsmálum, sem eru eilíft vandamál? Nei. Það er ekkert af þessu, sem þeir vilja láta greiða atkvæði um. Fimmmenningarnir vilja láta þjóðina segja til um það með almennri atkvgr., hvort hún óski eftir meiri áfengisneyzlu í landinu. Áfengið hefur sína fylgifiska og ekki fallega. Það er óþarfi að lýsa þeim. Ef til kemur, verður atkvgr. um það, hvort gefa eigi þessu fylgdarliði áfengisins aukinn byr í seglin.

Mér þykir sennilegast, að persónulegar þrár flm. liggi að baki till. Líklega eru þeir þyrstir, og trúlega eru þeir haldnir minnimáttarkennd vegna þess, að líkamlegt vaxtarlag þeirra sé öðruvísi en þeir vilja hafa það. Þeir búast við að verða betur metnir af samtíðarfólki, ef þeir verða gildari um miðjuna, hafa heyrt, að öldrykkju fylgdu stærri magar, svonefndar bjórvambir, og telja þær eftirsóknarverðar.

En þurfa fimmmenningarnir endilega að þamba öl til þess að fá kúlur framan á sig? Geta þeir ekki notað eitthvað af þeim mörgu áfengistegundum, sem fást hér í vínverzlun ríkisins? Þeir munu svara því til, að vegna þess að þeir drykkir eru sterkir, sé tæplega hægt að drekka nógu mikið magn af þeim. En geta þeir þá ekki brugðið á ráð Bárðar gamla á Búrfelli að þynna mjaðarskömmina með vatni? Bárður fór með sinn kút að bæjarlæknum og bætti þar í hann, en tillögumennirnir munu allir hafa vatnsleiðslur í sínum húsum, svo að blöndunin getur orðið þeim auðveldari en Bárði. Falli hinum fimm hv. þm. ekki þetta ráð, má benda þeim á annað. Þegar þingi lýkur í vor, gætu þeir farið til Kaupmannahafnar og gengið þar á ölkrár næsta sumar. Ef þeir stunda vel drykkjuna, gætu þeir sennilega verið búnir að fá álitlegar kúlur framan á sig á næsta hausti, þegar Alþingi kemur saman, gætu þá komið til þings hressir og pattaralegir, allvel gildir um miðbikið, lausir við vanmáttarkenndina og vel færir til löggjafarstarfa.

Það er alldýrt fyrirtæki að láta fara fram þjóðaratkvgr. Kostnaður ríkisins við þetta er töluverður, og svo eru dagsverk kjósendanna. Í samanburði við þetta eru það smámunir einir, þó að tillögumennirnir fimm verði utanlands næsta sumar í persónulegum erindum fyrir sig. Ég er viss um, að allt slampast af og jörðin heldur áfram að snúast, þó að þessir fimm dándismenn verði fjarri sínu föðurlandi í fáeina mánuði. En brtt. þeirra tel ég ósköp kjánalegan samsetning og legg til, að hún verði felld.