08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

120. mál, áfengislög

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 623 brtt. við þetta frv. og vil gera grein fyrir efni þessara brtt. með nokkrum orðum.

Þetta frv. sem hér er nú til 2. umr., hefur fengið mikinn undirbúning og á sér nokkuð langan aðdraganda. Ég ætla, að upphaf þessa máls hafi verið það, að á þinginu 1965 komu fram nokkrar till., sem snertu áfengismál og miðuðu að því að veita aukið aðhald um áfengisneyzlu, einkum meðal ungmenna, en menn höfðu það fyrir augum, að áfengisnautn virtist fara vaxandi bæði á samkomustöðum og í hópferðum úti í náttúru landsins og höfðu orðið óhöpp af þessum sökum. Ein af þeim till., sem flutt var í þessu efni, var frá Magnúsi Jónssyni, núv. hæstv. fjmrh., þar sem hann lagði til, að skipuð yrði nefnd sjö alþingismanna til þess að endurskoða áfengislöggjöfina. Þessi till. var samþykkt og mþn. kosin. Og þetta frv. er árangur af starfi þessarar mþn. Þegar frv., sem hún samdi, var fyrst flutt á þinginu 1966, fylgdu því mörg fskj., þar sem rökstuðningur fyrir efni frv. og upplýsingar um mörg mikilvæg atriði, sem mþn. hafði aflað sér af hálfu manna, sem eru mjög kunnugir þessum málum og framkvæmd þeirra. Eitt af þeim ákvæðum, sem höfundar frv. tóku upp, var það, að ungmennum innan tiltekins aldurs skyldi óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á veitingastað, þar sem vínveitingar eru leyfðar, nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Segja má, að þetta ákvæði skerði nokkuð frelsi ungmenna til þess að njóta skemmtunar á 1. flokks veitingahúsum í kaupstað, sem fengið hafa vínveitingaleyfi. En til þess að koma nokkuð til móts við það sjónarmið, var einnig í frv. mþn. ákvæði þess efnis, að hvert veitingahús, sem vínveitingaleyfi hefur, skuli halda uppi fullkominni þjónustu án vínveitinga a. m. k. eitt laugardagskvöld af hverjum fjórum eftir kl. 8 síðdegis samkv. reglum, er ráðh. setur að fengnum till. áfengisvarnaráðs.

En við meðferð málsins í hv. Nd. var þetta ákvæði fellt niður úr frv. mþn. Nokkrir hv. þm., sem sæti eiga í Nd., hafa í sambandi við afgreiðslu málsins á þessu þingi beitt sér fyrir því að taka þetta ákvæði inn í frv., en það náði ekki nægu fylgi í hv. Nd. til þess að það yrði samþ. Ég hef leyft mér að taka þessa till. upp og vil freista þess að leita eftir vilja þessarar hv. þd. um hana og vona, að hún taki hv. Nd. fram í þessu efni og samþykki þetta ákvæði, sem stóð í hinu upphaflega frv., sem mþn. samdi, eins og ég hef áður sagt.

Þá flyt ég brtt. við 9. gr. Það er, að við gr. bætist svo hljóðandi ákvæði: Verði ungmenni innan 20 ára aldurs uppvíst að ölvun, skulu viðkomandi lögregluyfirvöld þegar í stað rannsaka, hver selt hafi eða veitt því áfengi og skulu hinir seku sæta refsingu skv. 45. gr. þessara laga. „Á skal að ósi stemma“ er fornt orðtak, og það er að sjálfsögðu mjög nauðsynlegt að setja reglur, sem reisa skorður við því, að áfengi verði ungmennum að fótakefli. En eitt af því, sem þarf að gefa gætur í því efni að mínum dómi, er að fylgjast með því, hvar ungmenni, sem ekki hafa leyfi til þess að fá áfengi keypt skv. ákvæðum þessa frv., kunna að hafa fengið aðstöðu til að ná í það og neyta áfengisins. Og miðar þetta ákvæði, sem ég nú mæli fyrir, að því að auðvelda rannsókn á því, hver selt hafi eða veitt áfengið og að greiða fyrir því, að sá, sem slíkt hefur gert, sæti refsingu fyrir skv. nánari ákvæðum 45. gr.

Ég vil loks gera að umtalsefni með nokkrum orðum 5. gr. frv., eins og hún er nú á þskj. 484, en þar er um að ræða breytingu á 12. gr. áfengislaga. Hv. frsm. allshn. rakti nokkuð, í hverju þessar breytingar eru fólgnar frá gildandi lögum, og þarf ég því ekki að fara langt út í það efni. En ég vil aðeins drepa á það, að eins og lögin eru nú, er áfengisútsala leyfð einungis í kaupstað, og áður en áfengisútsölu er komið á fót, þarf almenna atkvæðagreiðslu í því sveitarfélagi eða í þeim kaupstað, sem í hlut á, og áfengisútsala verður því aðeins sett á fót í kaupstaðnum, að meiri hl. atkvæða hafi fallið á þann veg, að slíkt leyfi skuli veitt. Og í lögunum, eins og þau eru nú, er samhengi að þessu leyti þannig, að vínveitingaleyfi er einungis hægt að veita húsum, veitingahúsum, á stöðum, þar sem áfengisútsala hefur verið leyfð, og ef atkvæðagreiðsla er síðan endurtekin og þar verður samþykkt að leggja áfengisútsölu niður í kaupstað, skal vínveitingaleyfi veitingahúss, sem þar starfar og hefur áður fengið umrætt leyfi, falla úr gildi. Frá þessu er aðeins ein undantekning, sú, að ef veitingahús hefur aðallega þá starfsemi með höndum að veita erlendum ferðamönnum, geti það veitingahús fengið sérstakt leyfi til þess að hafa vínveitingar um hönd, meðan þjónustan er aðallega bundin við erlenda ferðamenn. Með þessari 5. gr. frv. er gerð sú breyting á þessari skipan, að það á að vera heimilt að veita vínveitingaleyfi veitingahúsum utan kaupstaða á stöðum, þar sem áfengisútsala hefur ekki verið leyfð. Til þess þarf ekki skv. frvgr. atkvæðagreiðslu kosningarbærra manna í sveitarfélaginu, sem í hlut á, heldur einungis samþykki sýslunefndar, og þessi leyfi á ekki að binda við það, að það veitingahús, sem í hlut á, veiti aðallega þjónustu erlendum ferðamönnum, en að sönnu á leyfisveitingin að gilda á þeim árstíma, þegar heimsóknir erlendra ferðamanna eru að jafnaði mestar, þ. e. frá 1. júní til 30. sept.

Þetta sýnist mér vera miklu rýmra ákvæði en það, sem nú er í gildandi lögum. Samkv. gildandi lögum getur eitt tiltekið veitingahús sótt um leyfi, ef það færir með umsókninni sönnur á, að þjónustan sé eingöngu eða aðallega vegna erlendra ferðamanna, en samkv. ákvæðinu, eins og það er nú í frvgr., má veita veitingahúsum víðs vegar úti um land vínveitingaleyfi á tímabilinu 1. júní — 30. sept., svo framarlega sem samþykki hlutaðeigandi sýslunefndar liggur fyrir. Ég tel, að með þessari frvgr. sé gengið lengra en góðu hófi gegnir, og ég mun því, þegar greinar frv. verða bornar upp, greiða atkv. móti 5. gr. frv., eins og hún hljóðar nú á þskj. 484. Það geri ég með þeim skilningi, að verði þessi gr. í frv. felld, stendur eftir 12. gr. laganna, eins og hún er nú, og ég vil heldur framkvæmdina í því formi, sem 12. gr. laganna mælir fyrir um, en 5. gr. þessa frv.