16.05.1969
Efri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

211. mál, heimild að selja Keflavíkurkaupstað landssvæði sem tilheyrði samningssvæði varnarliðsins

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir, er komið í þessa hv. d. frá Nd., þar sem það var borið fram fyrr á þessu þingi. Málið er ofur einfalt. Nokkur landspilda, sem áður var hluti af því svæði, sem varnarliðið hafði til umráða, hefur nú losnað úr þeim álögum og er því til ráðstöfunar innan lögsagnarumdæmis Keflavíkur, og Keflavíkurkaupstaður hefur farið fram á að fá landið keypt. Ég hygg, að málið hafi verið afgr. án nokkurrar andspyrnu frá nokkurri hlið í hv. Nd., og allshn. er sammála um að mæla með framgangi þess hér og fer fram á það við hv. d., að frvgr. verði samþ. og málinu vísað til 3. umr.