19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. landbn., þá var landbn. ekki á eitt sátt í þessu máli. Við 3 nm. flytjum hér brtt., það eru auk mín hv. 2. þm. Austf. og hv. 6. þm. Sunnl., en eins og þegar er fram komið, þá fjallar þetta frv. um ráðstafanir í landbúnaði í sambandi við þá gengisbreytingu, sem átti sér stað fyrir rúmum mánuði síðan.

Það er með landbúnaðinn eins og aðra atvinnuvegi, að hann hagnast ekki á gengisfellingunni. Útflutningur landbúnaðarvara hefur yfirleitt verið lítill þar til nú síðustu árin, að hann hefur aukizt nokkuð, en hins vegar hefur verðlagið farið heldur lækkandi á erlendum markaði samhliða því, að við höfum þurft að fá mun hærra verð fyrir okkar afurðir hérna innanlands, sakir þess hvað allur framleiðslukostnður hefur hækkað mikið í verði. Það er líka vitað mál, að reksturskostnaður allur stórhækkar nú eftir gengisbreytinguna. Fóðurbætir og áburður kemur hvort tveggja til með að hækka um 50% og þótt benda megi á, að eitthvað komi þar á móti í hækkuðu verði á útlendum landbúnaðarvörum, þá verða þær ekki til að brúa það bil, sem er á milli hækkunar innanlands og þess, sem bændur þurfa að fá fyrir sínar vörur. Það er vitað mál, að framleiðslukostnaður á osti hækkar t.d. um 17 kr. nú eftir þessa gengisbreytingu, en verðhækkun á hverju kílói, sem kemur á móti, er aðeins 12,00 kr. Það er líka vitað mál, að allar vélar og tæki til landbúnaðarins hafa stórhækkað nú um eins árs skeið, og hygg ég, að sú hækkun, sem er frá því í fyrra í október, sé í það minnsta 80%. Þetta eru að verða það gífurlegar hækkanir á kostnaði við vélakaup, að bændur sjá varla fram á, hvernig þeir halda við vélakosti sínum með þeirri dýrtíð, sem orðin er í landinu. Samhliða þessu þá er það vitað mál, að ef tekið er árið 1967, þá hafa bændur ekki haft meiri meðaltekjur en tæpar 100 þús. kr., samkvæmt því sem Hagstofa Íslands upplýsir, en þeim bar samkv. verðlagsgrundvelli að hafa því sem næst 200 þús. kr. í árstekjur. Þeir hafa því orðið að taka meginhlutann af framleiðslukostnaðaraukningunni yfir á sínar eigin herðar og brúa bilið af eigin kaupi, sem þeim bar að nota til heimilisþarfa. Þar af leiðandi hafa bændur orðið lang-tekjulægsta stétt þjóðarinnar nú, eins og raunar oft áður, þó að ekki hafi orðið í jafnríkum mæli og hér hefur orðið. Það verður því að spyrna við fótum, ef vel á að fara um landbúnaðinn í framtíðinni. Þetta frv. felur það í sér að ráðstafa fjármagni, sem við flm. þessarar brtt., sem er á þskj. 207, leggjum til, að verði fyrst og fremst varið til þess, að bændur nái því grundvallarverði, sem þeim er ætlað að fá út úr búvöruverðinu. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að bændur lifi á jafnlágum tekjum og raun ber vitni um, að þeir hafi gert árið 1967. Það er því brýn nauðsyn á að nota þann gengishagnað, sem til fellur í þetta sinn, til að brúa það bil, sem er á milli þess, sem bændur fá fyrir framleiðsluvörur sínar, og hins, sem þeim ber að fá samkvæmt verðlagsúrskurði hverju sinni. Þá gerir okkar brtt. einnig ráð fyrir, að landbrh. setji reglur um afgreiðslu þess fjár, sem til ráðstöfunar kann að verða umfram það, sem fer til þess, að skráð verð fáist fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir, en leita skal hann þó umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um það, hvernig þessu fé skuli varið, því að Framleiðsluráð landbúnaðarins er þessum málum þaulkunnugt og veit því betur en aðrir, hvernig hyggilegast er að verja slíkum fjármunum hverju sinni. Ég vænti því þess, að brtt. verði samþ., svo að við vitum í meginatriðum, hvernig því fjármagni verði varið, sem frv. fjallar um.