25.02.1969
Sameinað þing: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2010 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

Efnahagsmál

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Benedikt Gröndal, minntist hér áðan á þá kenningu hv. 6. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar, að ríkisstj. hafi með síðustu gengislækkun verið að flytja 3000 millj. kr. frá verkalýðnum til atvinnurekenda og lagði áherzlu á það, að það vildi svo til, að þetta væri einmitt sú tala, sem þjóðarbúið vantaði, miðað við gósenárin mestu, og skildist mér, að í því ætti að felast, að slík tilfærsla væri eðlileg og óhjákvæmileg. En heldur hæstv. ræðumaður, að verkafólk á Íslandi hafi engri kjaraskerðingu orðið fyrir annarri en þeirri, sem felst í áhrifum af síðustu gengislækkun. Er honum ekki ljóst, að verkafólk var búið að taka á sig stórfelldar kjaraskerðingar, áður en síðasta gengislækkun var framkvæmd, vegna minnkandi atvinnu og hækkaðs vöruverðs? Þó að hv. Alþfl.-þm. hafi e. t. v. ekki orðið var þessara kjaraskerðinga, sem verkafólk hefur tekið á sig auk áhrifanna af síðustu gengislækkun, þá hafa þær því miður ekki farið fram hjá alþýðuheimilunum í landinu.

Þegar rætt er um þau efnahagsvandamál, það geigvænlega atvinnuleysi, sem nú er við að etja, eftir að gjaldeyristekjur hafa dregizt saman og við búum nú við eðlilega meðaltalsveiði og meðaltalsafurðaverð, og það kemur óhjákvæmilega upp í huga hvers manns, hve illa var með gjaldeyrinn farið undanfarin ár, þá er það algengasta viðkvæði stuðningsmanna ríkisstj., að það sé auðvelt að vera vitur eftir á. En þá er þess að gæta í fyrsta lagi, að þess sjást enn alls engin merki, að ríkisstj.-flokkarnir hafi öðlazt vizkuna, ekki einu sinni eftir á, þó að það ætti samkvæmt hinu gamla orðtaki ekki aðeins að vera auðvelt, heldur sjálfsagt og lágmarkskrafa til ábyrgra aðila. Ekkert bendir til þess, að stjórnarflokkarnir læri af reynslunni. Ekkert bendir til þess, að þeir dragi lærdóma af árangrinum af gjaldeyrissóuninni, stjórnleysinu í fjárfestingarframkvæmdum undanfarin veltiár, heldur er þeirri stefnu, sem leiddi til ófarnaðarins, til atvinnuleysisins og til hruns veigamikilla þátta atvinnulífsins, haldið áfram í þrjózku og blindni.

Í öðru lagi er þess að gæta, að í þeirri afsökun stuðningsmanna stjórnarfl., að það sé auðvelt að vera vitur eftir á, á það að felast, að engir hafi orðið til þess að benda á hættuna í tíma. Engir hafi í vímu hins einstæða gjaldeyrismoksturs af völdum metafla og metverðlags afurðanna bent á, að betur yrði að nýta verðmætin en gert var, betur yrði að tryggja undirstöðuatvinnuvegina en ríkisstj. fékkst til að gera. Þetta er að sjálfsögðu alrangt. Fulltrúar Alþb. hafa ekki aðeins sýnt fram á eftir á, hver eru óhjákvæmileg áhrif stjórnarstefnu sem þeirrar, sem viðreisnarstjórnin hefur einskorðað sig við, en þar sýnir árangurinn sig bezt sjálfur. Atvinnuleysi og hrun framleiðslugreina er órækur vitnisburður um árangur viðreisnarstefnunnar. En einmitt þegar gjaldeyrisausturinn var sem mestur vegna aflahlaupa og verðhækkana á afurðum og fæsta þeirra fyrrverandi stuðningsmanna stjórnarflokkanna, sem nú sjá viðreisnarstefnuna í nýju ljósi, óraði fyrir því, sem nú blasir við, þá varaði Alþb. við því, sem hlyti að gerast, ef stefnu ríkisstj. um stjórnleysi í fjárfestingar-, innflutnings- og verðlagsmálum yrði haldið áfram.

Alþb.-menn átöldu sóunina á gjaldeyrinum, ekki aðeins sóunina í erlendar neyzluvörur, sem auðvelt var að framleiða hér á Íslandi, innflutning, sem lagði í rúst hina margvíslegu innlendu framleiðslu og svipti smám saman fjölda fólks atvinnu, sem það hafði haft um árabil, heldur deildi Alþb. einmitt á þeim árum hvað mest á hina stjórnlausu fjárfestingu, þegar gróðahvötin var ein látin um ráðstöfun gjaldeyrisins. Fulltrúar Alþb. deildu ekki aðeins á hina fráleitu sóun í verzlunarhallir og banka, heldur einnig á það stjórnleysi, sem ríkti í fjárfestingunni í sjálfum framleiðsluatvinnugreinunum. Það má t. d. minna á kassagerð Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Það er ekki núna fyrst sem við höldum því fram, að fráleitt sé að byggja verksmiðju fyrir milljónir kr. til þess að framleiða vöru, sem unnt er að framleiða í verksmiðju, sem fyrir er og getur annað allri þörf landsmanna fyrir vöruna og meira til. Við deildum á þá ráðstöfun strax og hún var á undirbúningsstigi. Og það var t. d. ekki sérlega vinsælt á þeim árum að finna að fjárfestingu í fiskvinnslustöðvum, en þó gerðum við Alþb.-menn það, þegar okkur var ljóst, að um var að ræða framkvæmdir, sem voru algjörlega brenndar því marki stjórnarstefnunnar að vera skipulagslausar framkvæmdir fyrir almannafé, byggðar á óraunhæfum vonum um einkagróða án alls tillits til hagsmuna þjóðfélagsins eða viðkomandi byggðarlags.

Ég skal t. d. rifja upp, hvað ég sagði eitt sinn í þessum ræðustóli, þegar framleiðsla þjóðarinnar og gjaldeyristekjur voru enn stórvaxandi og áttu enn eftir að aukast verulega. Það var löngu áður en að samdrættinum kom. Ég sagði við 2. umr. fjárlaga 2. des. 1965, með leyfi hæstv. forseta: „Og það eru ekki aðeins ónauðsynlegar framkvæmdir einar, skrifstofu- og verzlunarhúsnæði, sem byggt er í stjórnleysi og án nokkurrar heildarskipulagningar. Jafnvel fjárfesting í öðrum greinum, t. d. fiskvinnslustöðvum, er algjörlega skipulagslaus. Ég get tekið sem dæmi, að undanfarin ár hefur risið í Hafnarfirði fjöldi af fiskvinnslustöðvum, frystihúsum og öðru í einum hnapp, án þess að samtímis sé tryggt, að þær fái hráefni, og voru þó fyrir í bænum mjög afkastamiklar nýtízku fiskvinnslustöðvar, sem berjast í bökkum vegna hráefnaskorts. En þetta er einkennið í dag. Stórfelld fjárfesting í verzlunar- og skrifstofuhúsnæði og í öðru lagi algjörlega skipulagslausar þær fjárfestingar einkaaðila, sem þó eru á nauðsynlegri sviðum.“

Síðan þessi orð voru mælt, eru liðin rúm 3 ár, og nú eru ávextir viðreisnarstefnunnar að falla fullþroskaðir til jarðar. Nú er atvinnuleysi í Hafnarfirði meira en nokkru sinni hefur áður þekkzt í sögu bæjarfélagsins. Þar hefur tala atvinnuleysingja náð um 330, en það svarar til þess, að um 7500 manns væru atvinnulausir í öllu landinu, ef atvinnuleysi væri jafnmikið hvarvetna annars staðar. Þótt eitthvað muni draga úr atvinnuleysinu nú, þegar róðrar eru hafnir, þá fer því fjarri, að á því verði ráðin full bót, þar sem ekki munu nema 10 bátar verða gerðir út þaðan í vetur. Þessi tala, sem ég hér nefndi, er síðan á sunnudaginn var, eftir að bátar voru farnir að róa. Þetta geigvænlega atvinnuleysi í Hafnarfirði, hið stórfelldasta, sem um getur, stafar ekki af því, að þar hafi ekki verið notað verulegt fjármagn til fjárfestingar á undanförnum árum, heldur m. a. af því, að við ráðstöfun þess fjármagns hafa ekki verið hafðir í huga heildarhagsmunir verkafólksins í bænum. Fjármagnið hefur ekki verið notað til þess að tryggja atvinnuöryggi bæjarbúa, heldur hafa þar aðrar hvatir ráðið. Í fjárfestingarframkvæmdum í Hafnarfirði hefur stefna stjórnarflokkanna kristallazt í framkvæmd, og birtist þar í einkar skýru ljósi. Sú hefur verið stefna stjórnarflokkanna undanfarin ár að láta fjármagnið sem frjálsast, þannig að þau efnahagslögmál mættu verka sem óheftust, að fjármagnið leitaði í þær atvinnugreinar og þann rekstur, sem hver einstaklingur, sem yfir fjármagni réði, gerði sér í hugarlund, að gæfi honum mestan gróðann. Þess vegna hefur verulegum hluta fjármagnsins verið varið til bankabygginga í bænum. Þar var fyrir viðreisnina einn sparisjóður í litlu og gömlu húsnæði, en nú eru þar tvö bankaútibú í nýju húsnæði og sparisjóðurinn kominn í tugmilljóna króna hús. En togaraflotinn varð á sama tíma aðeins 1/3 hluti þess, sem hann áður var, þegar sparisjóðurinn í sínu gamla húsnæði dugði bæjarbúum vel. Og vegna þess, að fyrir einstaklinga leit reikningsdæmi gróðavonarinnar þannig út, að fiskverkun væri arðvænleg, en útgerð togara og báta til bolfiskveiða hins vegar ekki, þá spruttu upp fiskvinnslustöðvar, frystihús og aðrar verkunarstöðvar eins og gorkúlur á haug, allt byggt meira og minna fyrir fjármagn úr almannasjóðum. Þegar fiskvinnslustöðvunum fjölgaði þannig á ári hverju, en bátum og togurum fækkaði að sama skapi, því að ekkert var gert af hálfu ríkisvaldsins til þess að efla þann rekstur og byggja hann upp, þá kom þar fljótlega, að það varð ekki einu sinni einn bátur að meðaltali á hverja fiskvinnslustöð í bænum. Þetta var viðreisnarstefnan í hnotskurn. Auðvitað varð ríkisvaldið samkvæmt bókvizku erlendra hagfræðikenninga að stuðla að því, að fjármagnið lenti í þeim rekstri, sem álitið var, að gæfi gróða, en flykktist úr útgerð, sem engu skilaði nema tapi.

Á almennum borgarafundi, sem verkalýðsfélögin í Hafnarfirði boðuðu til haustið 1967, lýsti ég því, eftir því sem unnt var á þeim 10 mínútum, sem ég hafði þar til umráða, hve stórhættuleg áhrif stefna ríkisstjórnarflokkanna hefði á atvinnulíf þar, atvinnuöryggi almennings í bænum og hversu þessi stefna mundi bitna verr á Hafnfirðingum en flestum landsmönnum öðrum, þar sem Hafnfirðingar byggðu afkomu sína á þeim greinum útgerðar, sem stjórnarstefnan léki verst. Nú eru þessi áhrif komin skýrar í ljós en þá var og atvinnuöryggi bæjarbúa svo komið, að hverjum bæjarbúa er nú ljóst, að engir hafa goldið eins grimmilega afleiðinganna af stefnu stjórnarflokkanna og Hafnfirðingar.

Í bókinni Saga Hafnarfjarðar eftir Sigurð Skúlason hefst kaflinn um atvinnulíf með þeim orðum, sem ég nú skal lesa með leyfi hv. forseta: „Frá því um aldamót hafa fiskveiðar ekki einungis verið meginatvinnuvegur Hafnfirðinga, heldur einnig sú starfsemi, sem skapað hefur vöxt bæjarins og verið undirstaða annarra atvinnuvega þar.“ Þessi orð voru rituð árið 1933, og á því tímabili, sem þau greina frá og jafnan síðan, hafa Hafnfirðingar gert sér ljós þau grundvallarsannindi, sem í þeim felast, og aðalkappsmál bæjarbúa, hvar í flokki sem þeir hafa staðið, hefur verið að auka og efla fiskveiðar og fiskvinnslu í bænum, hafi þeir sjálfir fengið að ráða þróuninni. Bæjarbúar hafa fullvel vitað, að um langt skeið a. m. k. er ekkert annað atvinnuöryggi til fyrir þá en blómleg útgerð.

Í vitund landsmanna hefur Hafnarfjörður verið öflugur útgerðarstaður, ein höfuðstöð togaraútgerðar á Íslandi, og hafa Hafnfirðingar þó mátt berjast við margs kyns erfiðleika, sem útgerð fylgja að jafnaði, aflabrest og óáran og verðfall á mörkuðum og auk þess brotthlaup umfangsmikilla atvinnurekenda með atvinnutæki sín frá staðnum. Þó hélt Hafnarfjörður jafnan velli sem útgerðarbær, sem tryggði afkomu og atvinnuöryggi bæjarbúa a. m. k. til jafns við önnur bæjarfélög. En nú hefur þeirri ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl., sem hefur haft það að höfuðmarkmiði að knýja fram óheft umsvif einkagróðans án alls tillits til samfélagslegra þarfa, tekizt á mestu gósenárum, sem Íslendingar hafa lifað um aflabrögð og afurðaverð, að murka svo niður útgerð í bænum, að hún má teljast í algerum rústum og lífsafkomu launþega þar með stefnt í algjöran voða.

Í Hafnarfirði hafa um skeið aðeins verið gerðir út tveir togarar, og í vetur á hávertíðinni verða að líkindum ekki gerðir þar út nema 10 bátar, svo að þrátt fyrir lausn sjómannaverkfallsins er fyrirsjáanlegur svo alvarlegur atvinnuskortur, að því ríkisvaldi, sem komið hefur útgerðinni á vonarvöl með fráleitri stefnu sinni, kippt grunninum undan atvinnuöryggi bæjarbúa, hlýtur óhjákvæmilega að vera skylt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að reisa atvinnulífið þar úr rústum.

Ég lýsti því að nokkru í útvarpsræðu frá Alþ. s. l. haust, hversu málum væri komið í Hafnarfirði, og áttu þó afleiðingar af hruni útgerðarinnar þar eftir að koma enn skýrar í ljós. Ef til vill hafa einhverjir hv. alþm. talið, að ég málaði myndina of dökkum litum, og ég tel því ástæðu til að lesa — með leyfi hv. forseta og með leyfi bæjarstjórans í Hafnarfirði — bréf hans til atvinnumálanefndar Reykjaneskjördæmis, sem dagsett er 25. jan. s. l. Það hljóðar svo:

„Í framhaldi af samþykkt bæjarráðs Hafnarfjarðar hinn 23. þ. m., þar sem mér var falið að gera yður grein fyrir þróun þeirri, er orðið hefur í atvinnumálum Hafnfirðinga á undanförnum árum, ástandinu, eins og það er nú, og horfum, en í ályktun bæjarráðs kemur skýrt fram sú skoðun, að mikils þurfi nú með, til þess að mál þessi megi á ný komast í eðlilegt horf. Í þessu efni vil ég sérstaklega benda á allt eftirfarandi: Við atvinnuleysisskráningu að undanförnu hefur tala skráðra verið sem hér segir: 1. desember 30, 1. janúar 38, og nú eru skráðir atvinnulausir 190.“

Þetta var 25. janúar, en í þeirri ályktun, sem ég gat hér áðan frá fundi verkalýðsfélaganna, sem haldinn var á sunnudaginn var, kemur fram, að í Hafnarfirði eru nú atvinnulausir 333 menn. Síðan segir áfram í bréfinu:

„Þessar tölur skráðra atvinnuleysingja segja þó hvergi nærri allt, þar sem vitað er, að hvarvetna hefur atvinna dregizt saman, vinnutími stytzt og atvinnutekjur þar af leiðandi lækkað. Á þetta einkum þó við varðandi útgerð og fiskverkun, en á slíkri starfsemi hafa Hafnfirðingar um langan aldur fyrst og fremst byggt afkomu sína, en einnig á þetta við um iðnað, ekki sízt byggingariðnað, svo og þjónustustarfsemi hvers konar.

Allmikið er af fiskvinnslustöðvum í bænum, sem byggzt hafa upp á undanförnum áratugum, en sem nú standa ýmist óstarfræktar eða lítt starfræktar sökum skorts á hráefni mikinn hluta ársins. Á þetta rætur sínar að rekja til þess, að fiskveiðifloti sá, sem héðan stundar veiðar til vinnslu í bænum, hefur stórlega gengið saman. Þannig má benda á, að í stað þess að 10 togarar voru gerðir út frá Hafnarfirði um eitt skeið, en Hafnarfjörður hefur jafnan fyrst og fremst verið talinn heppilegur staður fyrir útgerð togara, hefur þeim fækkað af ýmsum ástæðum, m. a. vegna sölu til erlendra aðila vegna rekstrarörðugleika undanfarinna ára, þannig að nú eru starfandi einungis tveir togarar. Sama má næstum segja varðandi vélbátaútgerð í bænum, þ. e. útgerð þeirra báta, sem að jafnaði stunda fiskveiðar með það fyrir augum að skila afla sínum til úrvinnslu í Hafnarfirði. Hins vegar hafa bætzt við flotann nokkur stærri fiskiskip, sem fyrst og fremst eru ætluð til síldveiða og starfa því mestan hluta ársins utanbæjar. Sem afleiðingu þessarar þróunar má benda á, að sumar fiskvinnslustöðvar, þar á meðal frystihús, hafa á síðustu árum neyðzt til þess að hætta störfum, bátar hafa horfið, farizt, brunnið eða eyðilagzt á annan hátt, án þess að fyllt hafi verið í skörðin, og benda má á, að ein stærsta fiskvinnslustöð um langt skeið, Jón Gíslason s. f., hefur lítt eða ekki verið starfrækt síðustu ár. Í stað þess, að þar var útgerð 10 báta, er nú ekki útlit fyrir neina starfrækslu á þessu ári. Þegar er búið að ráðstafa bátum fyrirtækisins á ýmsa vegu, auk þess sem þeir hafa farizt á ýmsan hátt án endurnýjunar. Munu nú fara fram úrslitaathuganir um framtíð þessa fyrirtækis. Naumast er útlit fyrir, að meira en 10 bátar verði gerðir út á komandi vertíð, sem leggja afla upp í Hafnarfirði, en mun færri annan tíma ársins, í stað 35 báta árið 1967. Í beinu sambandi við hrörnun útgerðarinnar kemur svo að sjálfsögðu samdráttur í störfum öllum, er lúta að þjónustu við útgerðina, svo sem í skipaviðgerðum, skipasmíði, verzlun og miklu fleiri störfum.

Byggingarvinna, sem hefur verið um árabil allumfangsmikil, hefur dregizt mjög saman, m. a. sökum minnkandi lánveitinga úr húsnæðismálasjóði til Hafnarfjarðar, sem sést af því, að í stað þess að á árinu 1967 voru veitt lán að upphæð 47.114.000 kr., urðu þau á árinu 1968 aðeins 15.867.000 kr., auk þess sem óeðlilegur dráttur hefur orðið á afgreiðslu lána þessara.

Af því, sem mjög lauslega er drepið á hér að framan, má sjá, að mjög þarf skjótra úrræða, ef takast á að breyta þeirri óheillaþróun, sem um alllangt skeið hefur átt sér stað í atvinnumálum Hafnfirðinga. Þess skal getið, að þessi þróun í hafnfirzku atvinnulífi hefði þó reynzt enn örlagaríkari, ef eigi hefði komið til framkvæmda við Búrfell og Straumsvík, en allmikið af Hafnfirðingum leituðu sér atvinnu við þessar framkvæmdir, einkum við upphaf framkvæmdanna við Straumsvík. Hefur þessi atvinnumöguleiki verið að dragast saman, eftir því sem líður að lokum byggingarframkvæmda þar og er nú mjög óverulegur. Við ráðningu fastra starfsmanna til framtíðar liggur eigi fyrir nein vissa um hlut Hafnfirðinga til þeirra starfa. Jafnframt því, sem Hafnfirðingar fagna tilkomu atvinnumálanefndarinnar og vænta sér mikils af störfum hennar til stuðnings ýmsum tiltækum aðgerðum til úrbóta, vil ég benda á eftirfarandi, sem líklegt væri til skjótvirkra umbóta í þessu efni:

1. Að takast mætti að efla fiskveiðiflota, gerðan út frá Hafnarfirði, til eflingar fiskiðnaði í bænum. Má í því sambandi sérstaklega benda á nauðsyn þess, að auka mætti á ný verulega við togaraútgerð í Hafnarfirði. Slík útgerð hentar Hafnfirðingum bezt og er líklegust til þess að skapa fiskvinnslustöðvunum samfellda vinnslu mestan hluta ársins. Gæti í þessu efni komið til greina leiga eða kaup á togurum, sem hvorugt mundi geta komið til, nema hið opinbera greiddi sérstaklega fyrir því á einn eða annan hátt. Er kunnugt um nokkurn áhuga í þessu efni, sem mikils væri um vert, að n. gæti stutt til raunhæfra aðgerða. Í þessu efni má benda á, að áhugi er fyrir kaupum á b. v. Gylfa hjá tveimur Hafnfirðingum, og væri vel, ef n. gæti haft áhrif á framgang þess máls. Enn fremur vil ég benda á nauðsyn þess, að stutt yrði að lausn á fjárhagsvandamálum Jóns Gíslasonar s. f., þannig að sú starfsemi mætti hefjast að nýju, en það fyrirtæki var hvað stærsti atvinnuveitandi hér í bæ um árabil.

2. Efling vélbátaflotans einkum með hliðsjón af fiskvinnslu í bænum væri mjög aðkallandi.

3. Aukið fjármagn til byggingariðnaðarins, m. a. til aðkallandi skólabyggingarframkvæmda bæjarsjóðs, væri einnig líklegt til að bæta verulega úr atvinnuþörf, sem er miklu meiri en fram kemur af atvinnuleysisskráningunni.

4. Enn fremur vil ég benda á nauðsyn þess, að unnt yrði sem fyrst að koma til framkvæmda byggingu dráttarbrautar í Hafnarfirði, svo sem ráðgert hefur verið, en frestað að ósk ríkisstj., þar sem fjár var vant til uppbyggingar svo margra dráttarbrauta á sama tíma, sem ráðgerðar höfðu verið.

Hér hefur aðeins verið drepið á fátt eitt, en þó fyrst og fremst út frá því sjónarmiði, hvað mætti verða til skjótvirkra úrbóta. Taldi bæjarráð rétt að árétta þessi vandamál bæjarfélagsins við n., þegar við upphaf starfs hennar. Mundi bæjarráð að sjálfsögðu æskja sem bezts samráðs við atvinnumálan. um lausn þess vanda, er við blasir. Læt ég fylgja hér með ábendingar, er bæjarráði hafa borizt frá atvinnumálanefnd, sem starfað hefur hér í bæ að undanförnu.

Með fyllstu von um, að n. taki þessi mál til náinnar athugunar, og beztu óskum til hennar um farsæl störf kveðjum vér yður í umboði bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði.

Til atvinnumálanefndar Reykjaneskjördæmis.“

Eins og ljóst er af þessu, eru slæmar horfur í atvinnulífi Hafnfirðinga um þessar mundir, og atvinnulífi þar er á þann veg háttað, að þær atvinnugreinar, sem bæjarbúar byggja afkomu sína á, togaraútgerð og rekstur fiskibáta, sem leggja upp afla sinn til verkunar í fiskvinnslustöðvum, nutu ekki síldargróðans. En þar sem þessar atvinnugreinar guldu hins vegar í ríkum mæli verðbólgustefnunnar, sem mest hefur markað verðlagsmálin undanfarin ár, hlaut að koma að því, að þessar atvinnugreinar hryndu. Samkvæmt þeim hagfræðikenningum, sem hafa verið leiðarljós ríkisstjórnarflokkanna, að gróðahvötin og stundarhagsmunir einstaklinga skyldu vera hreyfiaflið í atvinnulífinu og ráða uppbyggingu þess, voru engin viðbrögð höfð í frammi til þess að koma í veg fyrir, að þeim greinum útgerðar, sem skiptu Hafnfirðinga öllu máli, blæddi út. Þessi stjórnarstefna, að láta fjármagnið leita þangað, sem gróðinn er fyrir, en láta afskiptalaust, að aðrar atvinnugreinar koðni niður, hefur leikið atvinnulífið í Hafnarfirði hrapallega, eins og fram kemur í bréfi bæjarstjórans þar til atvinnumálanefndar, sem ég var hér áðan að lesa. Bæjarfélagið hefur undanfarin ár þurft að kosta milljónum króna til þess að halda sem lengst lífi í þeirri togaraútgerð, sem ríkisvaldið hefur algerlega vanrækt að efla. Hag Hafnfirðinga væri án efa betur komið í dag, ef sú stefna Alþb. hefði ráðið, að sérhverri ríkisstj. beri á hverjum tíma með yfirvegaðri stjórnarstefnu, með stjórn á fjárfestingar-, innflutnings- og verðlagsmálum að tryggja, að einstakar mikilsverðar atvinnugreinar séu ekki látnar brotna niður, þótt í móti blási, þegar einkafjármagnið með gróðasjónarmiðin ein að leiðarljósi vill eðli sínu samkvæmt leita annað. Hagur Hafnfirðinga væri betri í dag, ef sú stefna Alþb. hefði ráðið, að hverri ríkisstj. beri að tryggja stjórn á þróun atvinnulífsins vitandi vits, styðja við þær atvinnugreinar, sem höllum fæti kunna að standa hverju sinni, og tryggja með því atvinnuöryggi alls almennings í hinum einstöku byggðarlögum í landinu. Svo grátt hefur stefna núv. stjórnarflokka leikið undirstöðuatvinnuveg Hafnfirðinga, togaraútgerð og bátaútgerð, að það er sérstök siðferðisleg skylda þeirra að gera nú þegar sérstakar ráðstafanir til þess að efla að nýju þær atvinnugreinar, sem hafa verið að lamast á undanförnum árum. Sérstaklega er í þessu efni rík skylda þeirra þm. Reykjaneskjördæmis, sem styðja stjórnarflokkana og bera sína ábyrgð á þróuninni í undirstöðuatvinnuvegum Hafnfirðinga.

Fyrsti togarinn, sem Íslendingar eignuðust, var gerður út frá Hafnarfirði, og það er athyglisverð staðreynd, að einn þeirra manna, sem mestan þátt áttu í því að auka því skipi við atvinnutækin í bænum, var afi hv. núv. 1. þm. Reykn. Matthíasar Á. Mathiesens. Sá hv. þm. hefur alla sína þingmannstíð verið í þingflokki, sem hefur haft ríkisstjórnarforustu, og því haft sérstakt tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum, til þess að stjórnarstefnan stuðlaði að eflingu útgerðar í bænum.

En á þeim mestu gósenárum, sem þjóðin hefur lifað, hefur togurum í Hafnarfirði hins vegar fækkað um 2/3 hluta. Það er vonandi, að þessum afkomanda eins frumkvöðuls togaraútgerðar í Hafnarfirði og á Íslandi fari nú að renna blóðið til skyldunnar og láti það ekki gerast á þingferli sínum, að sá fornfrægi togarabær Hafnarfjörður hreppi þau örlög að verða aðeins svefnpláss fyrir starfsfólk, sem sækir vinnu sína í Reykjavík, eða til erlends auðhrings í Straumsvík. Hvað sem öðru líður, er hætt við, að þeim gömlu Hafnfirðingum, sem voru brautryðjendur í togaraútgerð og lögðu metnað sinn í umsvifamikinn hafnfirzkan atvinnurekstur, þætti þá lágt lotið.

Ég ætla að hafa sem fæst orð um hlut hæstv. fyrrv. sjútvmrh., hæstv. núv. utanrrh., Emils Jónssonar, sem var hæstráðandi í útvegsmálum þjóðarinnar á árum mesta aflahlaups og beztu viðskiptakjara, sem þjóðin hefur lifað. En togaraútgerðin, undirstöðuatvinnuvegur í heimabæ hans í hálfa öld, var á sama tíma látin hrynja saman án nokkurra viðbragða stjórnarvalda til þess að sporna við því. Lengst af þeim tíma, sem hrun togaraútgerðarinnar hefur orðið, áttu Hafnfirðingar tvo Alþfl.-ráðh. í ríkisstj. Það er e. t. v. ekki án samhengis við það, að samhliða því, sem togurum í bænum hefur fækkað um tvo þriðju hluta hefur fulltrúum Alþfl. í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fækkað næstum nákvæmlega jafnmikið.

Ég hef einskorðað mig svo til alveg við að greina frá áhrifum viðreisnarstefnunnar á atvinnulíf í Hafnarfirði og atvinnuöryggi bæjarbúa þar, m. a. vegna þess, að ég tel, að þar birtist árangurinn af stefnu hins óhefta kapítalisma á íslenzku atvinnulífi í hnotskurn. Örlög undirstöðugreina atvinnulífsins í Hafnarfirði á tímum viðreisnarstjórnarinnar eru lýsingin á því, hvernig stefna skipulagslausrar fjárfestingar, stefna stjórnlauss innflutnings, stefna algjörs frjálsræðis gróðafjármagnsins og stefna frjálsrar álagningar hefur verið að gjöreyðileggja grunninn undir veigamiklum þáttum atvinnulífsins, einmitt þeim þáttum, sem úrslitum valda um atvinnuöryggi Hafnfirðinga og hafa verið undirstaða að öllu atvinnulífi í bænum í meira en hálfa öld. Jafnvel mestu góðæri í sögu þjóðarinnar varðandi aflabrögð og markaðsverð dugðu ekki til þess að vega upp deyðandi áhrif viðreisnarstefnunnar á þessa þætti atvinnulífsins. Þá hef ég ekki síður rætt um Hafnarfjörð sérstaklega til þess að leggja áherzlu á, að hvergi liggur atvinnulífið í eins algjörri rúst og þar, hvergi er afkomuöryggi alþýðuheimila meira ógnað en í þessum 9000 manna bæ, sem hefur verið að missa burtu hvert á fætur öðru þau atvinnutæki, sem ein geta tryggt lífshagsmuni bæjarbúa. Ég hef lagt áherzlu á að lýsa atvinnuástandinu í Hafnarfirði vegna þess, að það er sérstök skylda ríkisvaldsins að gera nú þegar og án alls dráttar sérstakar ráðstafanir til þess að reisa framleiðsluatvinnuvegi Hafnfirðinga úr rústum.

Þótt verkafólk í Hafnarfirði þurfi nú og eigi rétt á sérstakri aðstoð til þess að endurreisa atvinnulífið í bænum, þá eru framtíðarhagsmunir þess fyrst og fremst þeir að taka höndum saman við launþega um land allt til þess að tryggja, að þeir fái að búa við aðra stjórnarstefnu en þá, sem steypt hefur grunninum undan afkomuörygginu á síðustu árum. Hafnfirðingar munu án efa draga sína lærdóma af reynslu undanfarinna ára, og er ljóst að sú ein ríkisstj., sem leggur höfuðáherzluna á eflingu allra greina sjávarútvegsins, getur tryggt afkomuöryggi þeirra. Þeir munu því geta tekið undir og talið sérlega tímabær nú orð hv. 7. þm. Reykv., Birgis Kjarans, en hann mælti svo á Alþingi hinn 11. febr. 1960, með leyfi hv. forseta: „Efnahagsstefna er aðeins góð og forsvaranleg, þegar hún er þegnunum nytsamleg og flytur þeim velmegun eða ver þá áföllum. En þegar hún er tekin sjálfkrafa að þrengja kjör þeirra og hefur misst alla hæfni til að fást við úrlausnarefni, er hún orðin úrelt og hefur lokið hlutverki sínu og á skilyrðislaust að víkja fyrir nýrri og betri stefnu, sem er vandanum vaxin.“

Eins og ég gat um í upphafi máls míns, bendir ekkert til þess, að hæstv. ríkisstj. hafi lært af reynslunni undanfarin ár, og þess er því naumast að vænta að sú ríkisstj., sem hefur stritazt við að sitja nokkru lengur en sætt er, taki mark á þessum glöggu ábendingum hv. 7. þm. Reykv., sem eru lýsandi fyrir viðreisnarstefnuna. En víst er, að hagsmunir almennings í landinu, atvinnuöryggi og afkoma hans, er undir því komið, að hæstv. ríkisstj. segi af sér sem allra fyrst og viðreisnarstefnan víki fyrir nýrri og betri stefnu, sem er vandanum vaxin.