24.02.1969
Sameinað þing: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

Utanríkismál

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. ráðh. er enn ekki mættur á fundinum, en ég hefði viljað í upphafi máls míns beina nokkrum orðum til hans, en það er að vísu þess efnis, að það skiptir engu meginmáli, hvort ráðh. er viðstaddur eða ekki. En það, sem ég hefði viljað segja fyrst, er það, að ég tel, að hæstv. ráðh. hafi unnið athyglisvert brautryðjendastarf með þeirri skýrslu, sem hann flutti hér, og þess ber að vænta, að hún verði upphaf þess, að slíkur háttur verði á hafður framvegis, að ráðh., sem fer með utanríkismál, gefi öðru hverju skýrslur um þessi mál í þinginu og síðar geti farið fram umr. um þau af hálfu þm. — Ég sé, að hæstv. ráðh. er hér kominn og skal aðeins endurtaka það, sem ég var að segja, að ég tel, að hæstv. ráðh. hafi með þeirri skýrslu, sem hann flutti í þinginu í dag unnið merkilegt brautryðjendastarf, og þess ber að vænta, að því verði haldið áfram, og ég álít, að hann eigi þakkir skilið fyrir það að hafa rutt brautina í þessum efnum. Mér finnst líka rétt að láta það koma fram við þessar umr., að ég tel hæstv. ráðh. einnig hafa unnið merkilegt starf með því að endurreisa eða endurvekja utanrmn., ef svo mætti segja. Það var flokksbróðir hans, Héðinn Valdimarsson, sem á sínum tíma átti frumkvæði að því, að utanrmn. var sett á stofn árið 1928. Nefndin vann mjög merkilegt starf næstu árin eða allt fram til þess tíma, að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Hún vann þá eins og þingsköp gera ráð fyrir. Ríkisstj. hafði þá náið samband við hana, og þannig voru traust tengsl milli þingsins og stjórnarinnar í þessum efnum. Eftir síðari heimsstyrjöld kom hins vegar sá háttur á, að þetta samstarf stjórnarinnar og utanrmn. lagðist meira og minna niður, og má segja, að svo hafi verið að mestu leyti þangað til nú, að hæstv. ráðh. hefur haft frumkvæði að því að utanrmn. starfi með eðlilegum hætti og eins og þingsköp gera ráð fyrir, þannig að hún fjalli ekki eingöngu um þau mál, sem koma fram hér í þinginu og snerta verkahring hennar, heldur láti ríkisstj. hana fylgjast með því helzta, sem er á prjónunum hverju sinni í utanríkismálum, og ekki aðeins meðan þing stendur, heldur líka þegar þing starfar ekki. Þess vegna hefur sá háttur nú verið upp tekinn, að n, heldur a. m. k. mánaðarlega fundi og oftar, eftir því sem þörf krefur.

Ég álít, að með því að endurvekja þannig utanrmn. og stuðla að því, að hún starfi eins og þingsköp gera ráð fyrir, hafi hæstv. núv. utanrrh. unnið merkilegt starf, sem ég treysti og þm. vafalaust allir, að framhald verði á. Ég vil einnig segja það, að ég tel, að hæstv. utanrrh. hafi einnig haft athyglisverða forystu í sambandi við skipan sendinefndarinnar á þingi Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur tekið þann hátt upp, sem er víða annars staðar, að gefa öllum þingflokkum kost á því að eiga fulltrúa í n. Það vantaði mikið á, að svo væri oft áður. Ég álit, að þetta sé nauðsynlegt til tengsla við störf þessarar miklu stofnunar, Sameinuðu þjóðanna, og vænti þess, að áfram verði fylgt því fordæmi, sem hæstv. núv. utanrrh. hefur tekið upp eða komið á í þessu efni.

Sú skýrsla, sem hæstv. ráðh. flutti hér, var mjög umfangsmikil og kom víða við, og þess vegna verður ekki hægt að víkja að nema litlu af því, sem þar kom fram. Hann gaf ítarlegt yfirlit um störf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, og er ástæða til að minnast á ýmislegt af því, sem þar kom fram, en ég mun láta nægja að víkja aðeins að einu atriði, og er það þau afskipti, sem sendinefnd Íslands hafði af þeim málum, sem snerta hafsbotninn og auðæfi hafsins, en eins og ráðh. skýrði frá, bar þau mál mjög á góma á seinasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ég álít, að sendinefnd okkar og þeir menn, sem komu þar mest við sögu, hafi unnið athyglisvert starf, sem var þar veitt athygli með því og sérstaklega fyrir það, að Hannes Kjartansson, Gunnar Schram og Haraldur Kröyer, sem allir fluttu ræður í sambandi við þessi mál, höfðu forgöngu um þann tillöguflutning, sem ráðh. minntist á. Ég álít, að bæði með þeim tillöguflutningi og með þeim ræðuhöldum af hálfu Íslands í sambandi við þessar till., hafi verið vakin athygli á því, að Ísland lætur sig þessi mál miklu varða, og það muni í framtíðinni verða tekið eftir því, sem Ísland hefur fram að færa á þessu sviði. Hitt er svo það, að við eigum hér mikið starf óunnið.

Ráðh. minntist á það, að það gæti verið ástæða til þess, að Ísland beitti sér fyrir því, að kvödd væri saman sérstök ráðstefna, alþjóðleg ráðstefna, til að fjalla um landhelgismálið. Ég álít, að þetta sé eitt af þeim atriðum, sem hæstv. ríkisstj. og Alþ. þurfa að hafa nánara samráð um. Það má vel vera, að það sé rétt stefna í þessum efnum, að Ísland beiti sér fyrir sérstakri ráðstefnu um landhelgismálið, áður en langt líður, en mér finnst rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi, að þegar þessi mál bar seinast á góma á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1951, þegar um það var að ræða, eftir að fyrri Genfarráðstefnan um landhelgismálin hafði misheppnazt að verulegu leyti, þá komu fram tvær mismunandi skoðanir um það, hvernig halda ætti á málinu til frambúðar. Önnur var sú, að það væri nægilegt að ræða þetta mál á allsherjarþinginu sjálfu, en hin var sú, að það væri rétt að kveðja saman nýja landhelgisráðstefnu. Ísland fylgdi þá þeirri stefnu, að það væri nægilegt að ræða þetta mál á allsherjarþinginu sjálfu, en ekki þyrfti nýja ráðstefnu til að fjalla um það, sem væri óunnið í þessum efnum. Það urðu talsverð átök um þetta á þinginu, sem lauk þannig, að samþ. var með eins atkv. mun að efna til nýrrar ráðstefnu í landhelgismálinu. Nú er það þannig, að því er mér skilst, að það er svona visst takmark hjá forráðamönnum Sameinuðu þjóðanna að efna ekki til nema einnar alþjóðlegrar ráðstefnu á ári, og það er þegar búið að ákveða slíkar ráðstefnur a. m. k. fram til 1972, þegar haldin verður sú ráðstefna, sem Svíar beittu sér fyrir um verndun mannlegs umhverfis, og það má vel vera, að búið sé að ákveða fleiri ráðstefnur síðar meir. En það, sem veldur því, að það er frekar tregða á að halda slíkar ráðstefnur, er, að þeim fylgir mjög verulegur aukakostnaður, og Sameinuðu þjóðirnar eiga við verulega fjárþröng að búa, eins og kunnugt er. Þess vegna má vel vera, að okkur þyki ástæða til að æskja þess, að málið verði tekið upp á vettvangi allsherjarþingsins sjálfs, en ekki efnt til sérstakrar landhelgisráðstefnu. Þetta er a. m. k. atriði, sem mér finnst, að ætti að íhuga nánar, áður en endanleg ákvörðun verður um þetta tekin. Það, sem mér finnst á skorta í þessum efnum, er það, að við þurfum að kynna okkur miklu betur en hingað til hefur verið gert, hvert er viðhorf hinna ýmsu þjóða til landhelgismálsins og þó sérstaklega þess máls, sem við berum mest fyrir brjósti, en það er viðurkenning á sjálfu landgrunninu eða viðurkenning á rétti strandríkisins til fiskveiða þar. Nú hafa orðið miklar breytingar í þessum efnum, síðan landhelgisráðstefnan síðari var haldin í Genf 1960. Það hafa bætzt við fjölmargar nýjar þjóðir í samtökin, og við vitum ekki fullkomlega um það, hver þeirra afstaða kann að vera til þessa máls. En mér fyndist, að það væri eðlilegt, að af Íslands hálfu yrði unnið að því á næstu árum eða næstu misserum að kynna okkar sjónarmið til þessara mála og grennslast fyrir um það, hvert er viðhorf hinna ýmsu þjóða til þessa máls og þá ekki sízt þeirra þjóða, sem eru nýjar í samtökunum. Þetta er mikið starf, en ég hygg, að bezt verði að vinna þetta í sambandi við sendinefnd okkar í New York og þar sé ærið verk að vinna, sem öðru fremur réttlæti það, að við höfum sérstaka sendinefnd þar allt árið um kring, að við látum vinna mikið könnunarstarf í þessum efnum. En ég held, að það væri ekki hyggilegt fyrir okkur að beita okkur fyrir því, að kvödd yrði saman ný landhelgisráðstefna eða málið tekið upp sérstaklega á þingi Sameinuðu þjóðanna, fyrr en við erum búnir að fá nokkuð greinilegar upplýsingar um það, hvert er viðhorf hinna ýmsu þátttökuþjóða í þessum efnum og ekki þó sízt þeirra, sem nýjar eru.

Ég sé ekki ástæðu til að víkja að því, sem hæstv. ráðh. sagði um afstöðu okkar til Norðurlanda, vegna þess að ég hygg, að þm. hafi yfirleitt verið sammála um það án tillits til flokka. En mér finnst þó rétt að víkja nokkrum orðum að því, sem kom fram um Atlantshafsbandalagið.

Eins og hæstv. ráðh. gat um, segir svo í 19. gr. sáttmála Atlantshafsbandalagsins. — Ég er ekki alveg viss um það, hvort það er 19. gr. eða einhver önnur. Það skiptir ekki máli. En sú grein, sem fjallar um það efni, sem ég ætla að víkja að, hljóðar á þessa leið:

„Þegar 20 ár eru liðin frá gildistöku samnings þessa, getur hver aðili sagt honum upp með eins árs fyrirvara, talið frá afhendingu tilkynningar þess efnis til ríkisstj. Bandaríkjanna, en hún skýrir ríkisstj. annarra aðila frá afhendingu slíkra tilkynninga.“

Eins og sést á þessu ákvæði í gr. um 20 ára fast gildistímabil samningsins, var það almenn von eða ósk á þeim tíma, þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað, að innan 20 ára frá stofnun þess yrðu Sameinuðu þjóðirnar orðnar svo traustar eða orðið svo friðsamlegt af öðrum ástæðum á Atlantshafssvæðinu, að slíks svæðisbandalags eins og Atlantshafsbandalagsins yrði ekki þörf lengur. Það má tvímælalaust segja það um starfsemi Atlantshafsbandalagsins, að það hefur borið mikinn og góðan árangur. Evrópa hefur verið einn friðsamasti hluti heimsins undanfarin 20 ár, og tvímælalaust stendur friðurinn í dag miklu traustari fótum í Evrópu en hann gerði fyrir 20 árum. Þetta er tvímælalaust mjög að þakka því hernaðarlega jafnvægi, sem Atlantshafsbandalagið hefur skapað og þó öðru fremur þátttöku Bandaríkjanna í því, því að sú þátttaka hefur gefið bandalaginu þann styrk, sem mest hefur munað um. En þrátt fyrir þennan árangur hafa hins vegar þær vonir ekki rætzt, að á þessum 20 árum efldust Sameinuðu þjóðirnar svo mikið, að NATO yrði óþarft eða upp risi eitthvað nýtt og betra, sem gæti leyst það af hólmi, eins og t. d. sameiginlegt öryggisbandalag NATO og Varsjárríkjanna. Þess vegna eru öll þátttökuríki Atlantshafsbandalagsins sammála um það, að NATO-samstarfinu verði haldið áfram að óbreyttum ástæðum. Og ég get lýst því yfir fyrir hönd þess flokks, sem ég fylgi, að hann er því sammála, að Ísland verði áfram í Atlantshafsbandalaginu að óbreyttum aðstæðum. Atburðirnir í Tékkóslóvakíu hafa sýnt það enn gleggra en ella, að nauðsynlegt er að halda þessu samstarfi áfram, a. m. k. enn um hríð. Þótt innrás Rússa í Tékkóslóvakíu sé ekki almennt túlkuð þannig, að hún sé undirbúningur árásar á Vestur-Evrópu og það sé álitið enn eins og áður, að Rússar vilji komast hjá stórveldastyrjöld ekki síður en aðrar þjóðir, þá ber þessi atburður samt merki um ótta og taugaóstyrk á bak við hina lokuðu múra Kreml, sem hvetur vestrænar þjóðir til varúðar og samstöðu. Enginn getur sagt, hvert þessi uggur eða ótti við bæði ímyndaða og raunverulega innlenda og erlenda andstæðinga gæti leitt stjórnendur Ráðstjórnarríkjanna, ef t. d. varnarsamstarf vestrænna þjóða leystist upp og einhvers staðar þætti tækifæri til útþenslu, án þess að það leiddi til styrjaldar. Þess vegna verður NATO-samstarfið að halda áfram, meðan þetta óvissa ástand varir, en vonandi helzt það ekki lengi. Það, sem gerðist í Tékkóslóvakíu, má hins vegar ekki verða til þess, að menn gefist upp við að vinna að bættri sambúð milli austurs og vesturs í Evrópu. Það má ekki vera varanlegt ástand eða verða varanlegt ástand, þótt það sé óhjákvæmilegt um skeið, að Evrópa skiptist milli tveggja hernaðarbandalaga.

Sitthvað bendir nú til þess, að Rússar séu farnir að gera sér ljóst, að þeir hafi misreiknað sig í Tékkóslóvakíu, alveg eins og Bandaríkjamenn sjá nú orðið, að þeir hafa misreiknað sig í Víetnam. Bæði stórveldin virðast nú fúsari til samkomulags en oft áður. Margar hugmyndir eru nú uppi um leiðir til að reyna að draga úr skiptingu Evrópu og þeirri hættu, sem hlýtur að vera henni samfara. Ýmsir stjórnmálaflokkar á Norðurlöndum, eins og t. d. sósíaldemókratar í Danmörku, hafa lýst sig fylgjandi sérstakri ráðstefnu Evrópuríkja um öryggismál Evrópu. Í byrjun þessa mánaðar var birt í Bandaríkjunum álit sérstakrar nefndar, sem hafði starfað á vegum félags Sameinuðu þjóðanna þar í landi.

Formaður þessarar n. var Sörensen, sem var einkafulltrúi Kennedys forseta á sínum tíma, en meðal nefndarmanna voru m. a. Erlander, sem var fyrrv. aðalfulltrúi Bandaríkjanna hjá Atlantshafsbandalaginu, Mackay, sem var hernámsstjóri Bandaríkjanna í Vestur-Þýzkalandi og Kissinger, sem nú er aðalráðgjafi Nixons. Rétt er að geta þess, að hann fór úr n., þegar Nixon réð hann í þjónustu sína. Meðal þess, sem þessi n. leggur til, er það, að stofnuð verði einhvers konar öryggisnefnd Evrópu, sem skipuð sé fulltrúum fimm NATO-ríkja og fimm Varsjárbandalagsríkja, eða fulltrúum Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Vestur-Þýzkalands og Ítalíu og svo fulltrúum Sovétríkjanna, Póllands, Ungverjalands, Austur-Þýzkalands og Tékkóslóvakíu. Þessi öryggisnefnd ræðir m. a. um leiðir til að draga skipulega úr herstyrk beggja bandalaganna í Mið-Evrópu. Þá leggur þessi ameríska nefnd til, að þýzku ríkin sjálf, Vestur-Þýzkaland og Austur-Þýzkaland, hefji viðræður um samvinnu með sameiningu fyrir augum síðar meir. Þannig eru nú uppi margs konar till. um aðgerðir til að draga úr spennu og bæta sambúð austurs og vesturs. Þá er rétt að geta þess, að miklar vonir eru bundnar við þær viðræður, sem nú eru að hefjast milli forseta Bandaríkjanna og ríkisstjórna nokkurra Vestur-Evrópuþjóða, en í framhaldi af þeim eru væntanlegar viðræður milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Vel má því vera, að stærri breytingar séu í vændum en margir gera sér ljóst nú, og stefni þær í rétta átt, þá ber að sjálfsögðu að taka þeim með fögnuði. En þetta hlýtur m. a. að valda því, að allar aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins munu stöðugt verða að endurskoða afstöðu sína með tilliti til þeirra breytinga, sem kunna að verða í þessum efnum í náinni framtíð, þó að þær telji hins vegar nauðsynlegt að halda bandalaginu áfram að óbreyttum aðstæðum.

Mikil áherzla hefur jafnan verið lögð á það, að Atlantshafsbandalagið væri frjáls samtök; hver ein ríkisstjórn gæti gagnrýnt það, sem henni þætti miður fara. Þannig hafa líka t. d. Noregur og Danmörk gagnrýnt nýlendustefnu Portúgala og fasistabyltinguna í Grikklandi og stuðning sumra NATO-ríkja við fasistastjórnina þar. Ég efast um, að Ísland hafi staðið hér við hlið frændþjóða sinna innan Atlantshafsbandalagsins, þó að það kunni að hafa gert það á öðrum sviðum. En það er víst, að bæði nýlendustefna Portúgala og fasistabyltingin í Grikklandi hafa komið miklu óorði á Atlantshafsbandalagið í Afríku og Asíu og það engan veginn að ófyrirsynju. Forystumenn Atlantshafsbandalagsins mega ekki gleyma því, að höfuðhlutverk þess er að vernda frelsið, og þess vegna mega þeir ekki látast ekki sjá það, að fasistar og nýlendukúgarar eru innan bandalagsins. Því hefur stundum heyrzt haldið fram, að við megum ekki gagnrýna Portúgala og Grikki af viðskiptaástæðum, en hvers vegna máttum við þá gagnrýna Rússa fyrir innrásina í Tékkóslóvakíu, þar sem viðskipti okkar við þá eru miklu meiri en við Portúgala og Grikki?

Ég læt þetta nægja um Atlantshafsbandalagið, en vík að öðru máli, sem ekki skiptir síður miklu fyrir okkur, en það er afstaðan til varnarsamningsins. Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., þá er um tvö alveg aðskilin mál að ræða, þar sem annars vegar er aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og hins vegar aðild okkar að varnarsamningnum frá 1951. Þetta hefur verið margsinnis áréttað af hálfu forystumanna okkar, og m. a. gerði hæstv. forsrh. þetta mjög rækilega á ráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins, sem var haldinn hér á s. l. sumri. Enda þarf ekki annað en að lesa varnarsamninginn til að sjá, að svo er, því að í honum er uppsagnarákvæði sem gerir okkur mögulegt að segja samningnum upp hvenær sem er með eins og hálfs árs fyrirvara. Við höfðum fullkominn fyrirvara um það, og hann var einnig viðurkenndur af hinum þátttökuþjóðunum, þegar við gengum í Atlantshafsbandalagið á sínum tíma, að með þeirri þátttöku tækjum við ekki á okkur skuldbindingar um að hafa hér her á friðartímum, en hins vegar gæti leitt af þátttökunni, að það kæmi fram ósk um það frá bandalaginu, að hér yrði herseta á stríðstímum, en ekkert yrði þó gert í þeim efnum, nema það sem Ísland samþykkti sjálft.

Áður en ég ræði nánar um varnarsamninginn, finnst mér rétt að lesa hér upp þá ályktun, sem flokksþing framsóknarmanna, sem haldið var 1967, þ. e. seinasta flokksþingið, sem haldið hefur verið, gerði um þetta mál og mun svo ræða um málið nánara í framhaldi af því, en þessi ályktun flokksþingsins hljóðaði á þessa leið:

„Flokksþingið vill minna á þann fyrirvara, sem gerður var af hálfu Íslendinga, er þeir gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu, en meginefni hans var á þá lund, að á Íslandi yrði ekki herlið á friðartímum, að það væri algjörlega á valdi Íslendinga sjálfra, hvenær hér væri erlent herlið og Íslendingar hefðu ekki eigin her og ætluðu ekki að setja hann á fót. Samkvæmt þessum fyrirvara og í samræmi við fyrri yfirlýsingar vill Framsfl. vinna að því, að varnarliðið hverfi úr landi í áföngum. Flokksþingið telur, að stefnt verði að því, að Íslendingar sjálfir taki við gæzlu ratsjárstöðva og nauðsynlegra varnarmannvirkja, er hið bandaríska varnarlið hverfur á brott. Sú breyting verður að gerast með skipulegum hætti og stig af stigi. Telur þingið tímabært, að hafnar séu viðræður um, að gjörð sé fjögurra ára áætlun um brottflutning varnarliðsins og að þjálfaðir verði íslenzkir kunnáttumenn, sem tækju við starfrækslu ratsjárstöðvanna og gæzlu nauðsynlegra mannvirkja stig af stigi, samhliða því að bandarískum hermönnum á Íslandi yrði fækkað. Þess sé vandlega gætt að leyfa ekki þær framkvæmdir á vegum varnarliðsins, sem torveldað gætu þessar breytingar.“

Sú meginstefna, sem hér kemur fram, er á þann veg, að Íslendingar eigi sjálfir að taka að sér gæzlu og varðveizlu varnarstöðvanna, meðan þeirra er talin þörf hér, án þess að þó verði settur á stofn íslenzkur her. Það má segja, að þessi stefna sé ekki ný, því að næstum því strax, eftir að varnarsamningurinn var gerður 1951, komu þær hugmyndir eða till. fram hér á Alþ., að Íslendingar tækju gæzlu slíkra stöðva að sér að meira eða minna leyti. Ég held t. d., að á þingunum 1953 og ´54 hafi verið fluttar nokkrar till. um það, að Íslendingar tækju sjálfir að sér gæzlu radarstöðvanna og flutningsmenn þeirra hafa verið úr öllum flokkum, eins og Sigurður Bjarnason, Magnús Jónsson, Jón Kjartansson sýslumaður, Gísli Guðmundsson, Páll Þorsteinsson, Hannibal Valdimarsson, Gylfi Þ. Gíslason og jafnvel fleiri. Þá flutti Alþfl., að ég held, á þingunum 1953, 1954 og 1955 þáltill. þess efnis, að þegar skyldi hafinn undirbúningur þess, að Íslendingar tækju í sínar hendur rekstur, viðhald og gæzlu þeirra mannvirkja, sem byggð hefðu verið eða óbyggð væru á grundvelli varnarsamningsins, og að Alþ. gæti ákveðið brottflutning herliðsins með þriggja mánaða fyrirvara, þegar Íslendingar væru reiðubúnir til að taka fyrrgreind störf í eigin hendur, og náist ekki samkomulag á þessum grundvelli, verði varnarsamningnum sagt upp. Það var einmitt þessi till. Alþfl., sem flutt var á þinginu 1955, sem varð til þess, að gerð var hin kunna ályktun Alþ. frá 28. marz 1956, en þá var orðið samkomulag á milli Alþfl. og Framsfl. um nýja till. í málinu, sem var þó raunar ekki annað en framhald af áðurnefndri tillögu Alþfl. Sú tillaga var samþ. af þinginu með tilstyrk þeirra manna, sem nú mynda Alþb. En í þeirri till. sagði m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af breyttum viðhorfum síðan varnarsamningurinn frá 1951 var gerður og með tilliti til yfirlýsingar um, að eigi skuli vera her á Íslandi á friðartímum, verði hafin endurskoðun á þeirri skipan, sem þá var tekin upp, með það fyrir augum, að Íslendingar annist sjálfir gæzlu og viðhald varnarmannvirkja, þó ekki hernaðarstörf, og að herinn hverfi úr landi. Náist ekki samkomulag um þessa breytingu, verði málinu fylgt eftir með uppsögn samkvæmt 7. gr. samningsins.“

Sjálfstæðismenn studdu ekki þessa till., en tóku það þó fram, að hvað meginstefnu snerti, væru þeir henni ekki ósammála, eins og mér finnst rétt að gera grein fyrir hér á eftir. Sjálfstæðismenn lögðu til, að þessari till. yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, sem hófst á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Svo sem fram kemur í sjálfum varnarsamningnum, hefur það ætíð verið tilætlun Alþ. og ríkisstj., að erlent varnarlið dveldi ekki lengur hér á landi en nauðsynlegt væri vegna öryggis landsins og þar með friðsamra nágranna þess að endanlegu mati íslenzkra stjórnvalda. Alþ. áréttar þennan vilja sinn og lýsir yfir því, að það telur rétt, að hafinn sé nauðsynlegur undirbúningur þess. Áður en ákvörðun um brottflutning hersins er tekin, þarf hins vegar að athuga rækilega hvort tveggja, ástand og horfur í alþjóðamálum og hvernig fyrir skuli koma margháttuðum úrlausnarefnum, sem hér skapast af þessum sökum.“

Síðan fylgir alllangur spurningalisti, sem nær bæði til þess, að það sé kannað betur, hvernig viðhorfið er í alþjóðamálum og með hvaða hætti því verði fyrir komið, ef Íslendingar tækju sjálfir að sér gæzlu varnarstöðvanna, hverjir greiddu það o. s. frv. Í þeim umræðum, sem fram fóru um till., gerði Jóhann Hafstein nánari grein fyrir þessari stefnu Sjálfstfl. og sagði m. a. með leyfi hæstv. forseta:

„Ég legg áherzlu á, að mér vitanlega er ekki nú fremur en fyrr nokkur ágreiningur um meginstefnu í þessu máli milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, en við sjálfstæðismenn teljum, að með þeirri málsmeðferð, sem viðhafa á samkvæmt till. þeirra framsóknarmanna og Alþfl.-manna á þskj. 623, sé farið mjög óhyggilega að.“

Jóhann segir enn fremur, að í dagskrártill. sjálfstæðismanna felist í fyrsta lagi það, að Alþ. ályktar, að erlent varnarlið dveljist ekki lengur hér á landi en nauðsynlegt er vegna öryggis landsins, og lýsir yfir því, að það telur rétt, að hafinn sé nauðsynlegur undirbúningur þess, að svo megi verða.

Eins og ég hér hef rakið, voru allir þessir 3 flokkar og raunar Alþb. líka, því að það kom með till. ekki ólíka þessari, sammála um þá meginstefnu á þinginu vorið 1956, að hafinn yrði undirbúningur að brottför hersins á þann hátt, að Íslendingar sjálfir tækju í sínar hendur gæzlu varnarstöðvanna, en hins vegar var ósamkomulag um aðferðir milli Framsfl. og Alþfl. annars vegar og Sjálfstfl. hins vegar. Það, sem mér finnst rétt að undirstrika, er einmitt þetta, að um sjálfa meginstefnuna var ekki ágreiningur, en hins vegar var ágreiningur um vinnuaðferðir.

Afdrif þessarar till., sem Alþ. samþ. í marz 1956, voru, eins og hæstv. utanrrh. minntist á, að henni var frestað og málið hefur legið að mestu leyti niðri síðan.

Nú er það rétt, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, að það er ekki æskilegt, að Íslendingar þurfi að búa við hersetu til langframa og þessi mál þurfi stöðugt að vera til endurskoðunar með tilliti til þeirra breyt., sem verða kunna. Við erum búin að búa við erlenda hersetu um nær 30 ára skeið, og ef svo heldur áfram lengi enn, fer þetta að komast upp í vana, ef svo mætti segja, og þess vegna er eðlilegt, ef menn meina eitthvað með þeim yfirlýsingum, sem þeir hafa verið með í þessum efnum, að við notum fyrsta tækifæri til þess að losa okkur við hersetuna. Og þá getur verið eðlilegt, meðan varnarsamstarf helzt, að það sé gert með þeim hætti sem flokkarnir urðu sammála um 1956, að Íslendingar taki sjálfir að sér gæzlu varnarmannvirkjanna innan þess ramma þó, að ekki verði settur upp innlendur her. Við þetta bætist, að síðan 1951, er herverndarsamningurinn var gerður, hefur orðið mjög mikil breyt. á hernaðartækni og hernaðaraðstöðu í heiminum, sem að margra dómi, — þó að ekki séu allir sammála um það, — hefur þau áhrif, að hernaðarleg þýðing Íslands er ekki hin sama og áður var. Og áreiðanlega geta allir verið sammála um það, að hún er allt önnur en hún áður var, þó að menn kannske deili um það, hvort hún hefur aukizt eða minnkað.

Ég mundi hins vegar halda fram af minni leikmannsþekkingu, sem ég skal játa, að nær ekki langt, að þær varnir, sem eru hér núna, þjóni miklu síður og komi að miklu minna gagni vörnum landsins sjálfs en þær gerðu á þeim tíma, þegar varnarsamningurinn var gerður, eða fyrst eftir að varnarsamningurinn var gerður. Þá gat verið rökstudd ástæða til að ætla, að með þeim herstyrk, sem var t. d. á Keflavíkurflugvelli, væri hægt að verja hann árás flugvéla, en um aðrar árásir var þá tæpast að ræða. Nú er þetta gerbreytt, síðan flugskeyti og kjarnorkusprengjur komu til sögunnar. Nú er hægt að eyðileggja völlinn á þann hátt, að einhvers staðar sé stutt á hnapp í órafjarlægð. Ég held líka, að þar sem reikna má með því, ef til styrjaldar kemur milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, — því að ekki er um styrjöld annarra aðila að ræða á þessu svæði, — að fyrst og fremst verði beitt flugskeytum og kjarnorkuvopnum og í þeim grimma leik hafi Ísland miklu minni þýðingu en það hafði t. d. í síðari heimsstyrjöldinni, þegar hernaðartæknin var allt önnur. En þetta er að sjálfsögðu allt matsatriði, sem menn kunna að deila um, og þess vegna sleppi ég að ræða það nánar hér.

Það, sem ég vildi leggja áherzlu á í sambandi við þetta mál, er það í framhaldi af því sem utanrrh. sagði, að það sé orðið fullkomlega tímabært — og það mun verða till. framsóknarmanna, — að á vegum utanríkismálan. fari fram ítarleg athugun á öllum þáttum varnarmálanna og það verði m. a. sérstaklega athugað, með hvaða hætti verði bezt við komið þeirri tilhögun, að Ísland taki að sér gæzlu ratsjárstöðva og annarra hernaðarmannvirkja, þannig að hinn erlendi her geti horfið héðan brott í áföngum. Þegar niðurstaða er fengin um þetta, og ef samkomulag næst um þetta milli flokkanna eða þingmeirihluta, þá verði hafizt handa um að koma þessu í framkvæmd. Það, sem ég vildi svo segja í framhaldi af þessu, er það, að mér finnst ekki skipta meginmáli, hvort hinn erlendi her fer héðan einu árinu fyrr eða seinna, heldur hitt, að það séu sett viss markmið í þessum efnum, sem hægt sé að fara eftir, og við sjáum hilla undir það, að Ísland verði ekki lengur hersetið land. En að sjálfsögðu ber að taka tillit til þess í þessu sambandi, hvernig ástatt er í alþjóðamálum. En þó að mörgum hafi þótt horfa nokkuð uggvænlega um stund, treysti ég á það, að þróunin verði þó frekar hagstæð í þessum efnum en það gagnstæða, og þess vegna sé orðið meira en tímabært, að við athugum þessi mál til hlítar og gerum okkur fulla grein fyrir því, hvernig því væri bezt fyrir komið, að Íslendingar önnuðust sjálfir gæzlu radarstöðvanna og hernaðarmannvirkjanna, eins og ég hef áður lýst.

Mér finnst rétt að láta það koma fram, að í þessari afstöðu felst engin óvild til Bandaríkjanna, og ég held, að það sé réttlátur dómur í þessum efnum, að sambúð Íslendinga og hins ameríska herliðs hafi verið með þeim hætti, að ekki hafi verið hægt að vænta þess, að hún tækist öllu betur. Það fylgja því alltaf margvísleg vandamál, þegar erlendur her dvelur í einhverju landi, en ég hygg, að það hafi tekizt hér með þeim hætti, að við getum þolað samanburð við það, sem jafnbezt hefur verið í þessum efnum. Hver sem afstaða okkar til Bandaríkjanna kann annars að vera, finnst mér, að það sé eðlilegt og réttlátt, að þetta sé viðurkennt. Ég hef líka fulla trú á því að þegar að því kæmi að ræða um það við Bandaríkin, að t. d. Íslendingar tækju að sér sjálfir gæzlu ratsjárstöðvanna og hernaðarmannvirkjanna, meðan það verður talið nauðsynlegt, að þá muni þau líta á það með fullum skilningi. Það rifjast upp fyrir mér í þessu sambandi ummæli, sem fyrrv. utanrrh. Dulles lét falla 1956, þegar kunnugt var um ályktun Alþ, þá, en honum fórust orð eitthvað á þá leið, að 4–5 þús. manns á Íslandi svaraði til þess, að það væri 4–5 millj. manna erlendur her í Bandaríkjunum, og Bandaríkjamönnum mundi þykja þröngt fyrir dyrum, ef þeir þyrftu að hafa svo fjölmennan erlendan her í sínu landi. Þess vegna held ég, að þannig eigi að vera hægt að halda á þessu máli, að við ættum að geta náð góðu samkomulagi um það við Bandaríkin og það þyrfti ekki að varpa neinum skugga á sambúð þessara þjóða eða gera hana stirðari í framtíðinni.

En jafnframt og ég læt þessi orð falla um Bandaríkjamenn og viðurkenni það, sem þeir hafa gert vel við okkur, þá finnst mér rétt að láta það koma fram, að þó að svo sé, megum við ekki fylgja þeim í einu og öllu, því að þeir fremja sín mistök eins og aðrir. Það, sem ég hef alveg sérstaklega í huga í þessu sambandi, er afstaða þeirra til aðildar Kína að Sameinuðu þjóðunum. Eins og hæstv. ráðh. sagði réttilega, er það óeðlilegt, að sú ríkisstj., sem ræður yfir fjölmennustu þjóð veraldar, skuli ekki eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum. Við vitum, að það, sem veldur þessu, er fyrst og fremst það, að Bandaríkin standa þarna á móti og halda fram rétti stjórnar, sem er löngu búin að missa öll yfirráð í Kína. Ef haldið væri á þessum málum með eðlilegum hætti, eins og hefur verið gert í sambandi við önnur ríki, þá hefði stjórnin í Peking fyrir löngu átt að vera búin að taka sæti Kína hjá Sameinuðu þjóðunum og hin stjórnin að víkja, því að tvær stjórnir geta ekki setið á þingi Sameinuðu þjóðanna eða verið í samtökum Sameinuðu þjóðanna fyrir eitt og sama ríki. Þar getur ekkert ríki haft nema eina sendinefnd og eitt atkvæði, og þess vegna er sú kenning, að það geti verið 2 sendinefndir fyrir Kína á þingi Sameinuðu þjóðanna út í hött, nema því aðeins að það sé búið að viðurkenna eitthvert nýtt sérstætt kínverskt ríki, eins og t. d. Formósu, en slíku er alls ekki til að dreifa. Ég álít þess vegna, að það sé kominn tími til þess, að Ísland breyti afstöðu í þessum efnum. Það spor var stigið á síðasta þingi, sem ég álít að hafi verið í rétta átt, að Ísland sat hjá við atkvæðagreiðslu um þá till., sem þar var flutt, um að stjórnin í Peking fengi aðild Kína að Sameinuðu þjóðunum, en næsta skrefið í framhaldi af því á að vera það, að við tökum sömu afstöðu til þessa máls og frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, þ. e. að við greiðum atkv. með aðild Peking-Kína, að stjórnin í Peking fái umboð Kína innan Sameinuðu þjóðanna.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þetta lengra að sinni, en ég vil að lokum endurtaka það, að ég er hæstv. ráðh. þakklátur fyrir það brautryðjendastarf, sem hann hefur unnið með þessari skýrslugerð, og vænti þess, að á því verði áframhald á komandi tíð.