17.05.1969
Sameinað þing: 53. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2137 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

Framkvæmda og fjáröflunaráætlun 1969

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þessi skýrsla mun nú vafalaust þykja hv. þm. nokkuð síðbúin, en það hefur verið venja á hverju Alþ. að flytja af hálfu fjmrh. yfirlitsskýrslu sem þessa, sem hér er að finna í þeirri bók, sem hv. þm. nú finna á borðum sínum. Þegar frv. um fjáröflun til ríkisframkvæmda var lagt hér fram á hinu háa Alþ., spurðust ýmsir þm. fyrir um það, hvort ekki væri ætlunin, að slík skýrsla yrði flutt. Ég gat þá um það, að það væri mikið vafamál af ýmsum ástæðum. Bæði hefðu þessi mál mikið verið rædd í vetur og í haust í sambandi við viðræður stjórnmálaflokkanna, hvað varðar efnahagsmálin almennt, og auk þess væri sá annar annmarki, að stjórn framkvæmdasjóðs ríkisins hefði ekki gengið frá ákvörðun sinni um skiptingu lánsfjár og fjáröflun til stofnsjóðanna. Nú hefur þetta síðustu daga gerzt, og það þótti því sjálfsagt, að þessi skýrsla yrði útbúin og lögð fram á Alþ. Það hefur verið venja, að fjmrh. hafi flutt þessa skýrslu og hún hefur sjaldnast leitt til nokkurra umr., enda er hún fyrst og fremst upplýsingar annars vegar um þróunina á liðnu ári og hins vegar um áætlaðar framkvæmdir bæði opinberra aðila og einkaaðila á yfirstandandi ári. En ég minnist þess, að á síðasta þingi kom fram aths. um það, að eðlilegra væri, að hv. þm. fengju þessa skýrslu fjölritaða, þar sem hún væri fyrst og fremst upplýsingar um þessi mál, sem gætu orðið mönnum til leiðbeiningar og athugunar síðar. Ég hef því talið rétt að þessu leyti að haga þessu með þessum hætti nú og vonast til þess, að þm. telji það þó fremur til bóta, að skýrsla þessi skuli hafa verið gerð en ekki.

Skýrslan skiptist í ýmsa kafla. Þar er fjallað fyrst og fremst um þróun efnahagsmála 1968, viðhorfin á árinu 1969, gerð grein fyrir framkvæmda- og fjáröflunaráætlun 1969 bæði fyrir sjóðina, stofnsjóðina, sem framkvæmdasjóður Íslands hefur gert, og fyrir ríkisframkvæmdirnar, sem hér hafa verið til umr. í sambandi við frv. um það mál. Á það því ekki að þurfa að leiða til neinna sérstakra umr., því að það er ekki annað um það sagt í þessari skýrslu en draga saman þær upplýsingar, sem eru í því frv. til viðbótar þeim ríkisframlögum, sem á öðrum sviðum eru veitt til framkvæmda. Og síðan er gert yfirlit um fjármunamyndunina annars vegar 1968 og áætlaða fjármunamyndun 1969 eftir tegundum framkvæmda. Að lokum eru svo til nánari upplýsinga ýmsar töflur og skýrslur, sem ættu að verða hv. þm. aðgengilegar, og vil ég sérstaklega vekja athygli á sértöflu nr. 6, þar sem sundurliðað er, hvernig framkvæmdasjóður Íslands hugsar sér að ráðstafa stofnfé til stofnsjóða atvinnuveganna, en það hefur ekki áður legið fyrir hinu háa Alþ.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til, eins og málum er háttað, að hafa um þetta fleiri orð, en legg þessa skýrslu hér fram til leiðbeiningar og upplýsinga fyrir hv. þm.