19.03.1969
Sameinað þing: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Nú eru liðnir fullir tveir mánuðir síðan ríkisstj. gerði sérstakt samkomulag við Alþýðusamband Íslands um ákveðnar ráðstafanir í atvinnumálum. Eins og kunnugt er var því heitið með þessu samkomulagi, að lagðar yrðu fram 300 millj. kr. til þess að reyna að bæta úr því erfiðleikaástandi, sem þá var upp komið víða um land í atvinnumálum, og þó að forystumönnum verkalýðssamtakanna í landinu þætti, að þessi loforð kæmu heldur seint vegna þess alvarlega ástands, sem þá var upp kornið, gerðu menn sér þó vonir um það, að þetta samkomulag gæti leitt til talsverðra umbóta í þessum efnum og það tiltölulega fljótlega. En nú eru sem sagt liðnir tveir mánuðir síðan þetta samkomulag var gert og allmargar nefndir voru settar á fót, líklega í öllum kjördæmum landsins, og allstór hópur manna kom hingað til Reykjavíkur til þess að taka þátt í undirbúningi þess, að hægt væri að hefjast handa til úrbóta í þessum efnum. Og einnig var sett á fót sérstök atvinnumálanefnd ríkisins, fjölmenn nefnd, og þar var formaður sjálfur hæstv. forsrh. Það er ekki af því að segja, það er öllum hv. alþm. kunnugt, að víða um landið hefur verið hið alvarlegasta ástand í atvinnumálum allan þennan tíma eða í allan vetur, og þó að nokkuð hafi dregið úr atvinnuleysinu þar á landinu, þar sem vetrarvertíð segir mest til sín eða á vetrarvertíðarsvæðinu, þá fer því auðvitað fjarri, að hér hafi nokkrar breytingar orðið til hins betra á þeim stöðum á landinu, þar sem vetrarvertíðin gerir lítið sem ekkert gagn. Þeir eru því orðnir æði margir, sem eru orðnir langleitir eftir því að heyra eitthvað um það, hvað sé að gerast í þessum efnum. Mér er ekki kunnugt um það, að enn þá hafi verið veitt neitt af þessu fjármagni til úrbóta í atvinnumálum, ekki a. m. k. til þeirra staða, þar sem ég þekki bezt til og þar sem þó er hið alvarlegasta ástand í þessum efnum, og mér sýnist því, að margt bendi til þess, að með þeim vinnubrögðum, sem ég hef getað fengið upplýsingar um, geti hér orðið enn mjög alvarlegur dráttur á úthlutun þessa fjármagns og á því, að þetta geti komið að gagni. Nú liggur það einnig fyrir, að atvinnumálanefndirnar í kjördæmunum hafa fyrir alllöngu síðan skilað sínu áliti á þeim umsóknum, sem þá hafa legið fyrir, en síðan þegar atvinnumálanefndirnar í kjördæmunum eru búnar að skila sínu áliti, þá er tekið upp á því að senda þessar umsóknir og umsagnir atvinnumálanefndanna úr kjördæmunum út í alls konar stofnanir hér í Reykjavík, sem enn senda þetta sín á milli. Ég tel, að hér sé alveg óeðlilegur seinagangur á og það sé ástæða til þess að fara fram á það, að afgreiðslu á þessum málum verði hraðað.

Ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. um það, hvenær megi búast við því, að úthlutun á þessu fé geti farið fram, þannig að að einhverju ráði teljist. Hvort það megi ekki búast við því, að nú mjög fljótlega eða næstu daga verði þessu fjármagni úthlutað, a. m. k. til þeirra staða þar sem ástandið er alvarlegast í þessum efnum og þar sem alveg er augljóst, að vetrarvertíðartíminn getur ekki breytt neinu teljandi um ástandið í atvinnumálum.

Ég vildi einnig spyrja hæstv. forsrh. um það, hvort það hafi ekki verið gerðar ráðstafanir til þess að afla þessa fjár, sem heitið var með þessu samkomulagi, hvort það liggi ekki alveg fyrir, að það sé búið að afla fjárins. Þá vildi ég einnig leyfa mér að spyrja hann um það, hvort það geti verið rétt, sem hér hefur flogið fyrir og er talað hér um á milli þm., að nokkur hluti þessa fjár muni ekki verða handbær á þessu yfirstandandi ári. En það væri vitanlega að draga verulega úr þeim loforðum, sem gefin voru í þessum efnum, ef svo væri.

Ég hef ekki séð ástæðu til þess að leggja þessar fsp. fyrir í skriflegu formi. Þær eru þess eðlis, að þær kalla á svar fljótlega, því að það bíða hér margir eftir að fá svör varðandi þessi mál og ég efast ekkert um það, að hæstv. forsrh., sem er formaður í þeirri yfirnefnd, sem hér á hlut að máli, á gott með að svara þessu án þess að hafa mikinn viðbúnað. Það efast ég ekkert um, að hann getur. Ég vil einnig benda á í þessum efnum, að ég hef rekið mig á, að vegna þess, hvernig unnið hefur verið að þessum málum, hefur beinlínis gengið verr en áður að fá fjármagn til atvinnulegra framkvæmda eftir þeim leiðum, sem áður voru í gildi, og er því borið við, að nú sé allt í þessari allsherjar athugun. Hinn mikli lánasjóður, sem Atvinnuleysistryggingasjóðurinn er, hefur hreinlega gefið það út, að hann sé nú lokaður fyrir öllum lánbeiðnum og svari þar engum vegna þess, að þetta sé allt komið í þessa 300 millj. kr. athugun. Og svipaða sögu er að segja um Atvinnujöfnunarsjóð, en þessir sjóðir hafa báðir veitt talsvert af lánum á undanförnum árum, sem hafa getað ýtt undir atvinnulegar framkvæmdir.

Ég vil vænta þess, að hæstv. forsrh. sjái sér fært að svara hér þessum fsp. mínum, alveg sérstaklega til þess að þeir fjölmörgu menn, sem búa við mesta örðugleika varðandi atvinnuleysi víðs vegar um landið nú, geti heyrt það hér í fréttum frá Alþ. og eftir frásögn hæstv. forsrh. sjálfs, við hverju þeir megi búast í þessum efnum nú einmitt á næstunni. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært að verða við þessum óskum mínum.