16.04.1969
Sameinað þing: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Alþingi mun eiga hús í Kaupmannahöfn, það er húsið, sem Jón Sigurðsson forseti bjó í, meðan hann átti heima þar í borg. Nú ganga ófagrar sögur af þessu húsi. Sagt er, að ekkert af fólki sé þar heimilisfast, en þó sé húsið opið og lausingjalýður gangi þar um stofur bæði um daga og nætur, en þessu fylgi svall og sóðaskapur. Ég vil því beina þeirri fsp. til hæstv. forseta Alþingis, hvort,þeir hafi kynnt sér þetta, hvort þær sögur séu sannar, sem af þessu ganga. Og ef þeir hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að þarna sé rétt frá skýrt, hvort þeir hafi þá ekki nú þegar gert eitthvað eða ætli ekki að gera nú hið fyrsta ráðstafanir, sem að gagni megi koma til að ráða bót á þessu ófremdarástandi.