14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Á síðasta fundi hér í Nd. vakti hæstv. forseti athygli okkar þm. á því, að okkur bæri að rækja skyldustörf okkar, og sérstaklega beindi hann því til þingnefnda, að nú væri eftir stuttur tími af störfum Alþ. og því væri brýnt, að þær skiluðu álitum um þau mál, sem til þeirra hefði verið vísað. Ég vil leyfa mér að taka mjög undir þessi orð hæstv. forseta, og í því sambandi langar mig að minna á, að ég flutti hér seint í nóvembermánuði frv. til laga um greiðslufrest á skuldum vegna heimila. Það er 83. mál. Þessu máli var vísað til hv. fjhn. 3. des., þannig að n. hefur nú haft það til meðferðar í nær hálfan fimmta mánuð. Ég held, að sá tími hljóti að vera nægilegur, og í því sambandi vil ég einnig minna á það, að hér er um mjög veigamikið mál að ræða. Hvað sem menn vilja segja um efni þessa frv., þá er vandamálið það brýnt, að það hlýtur að vera augljóst fyrir alla. Ég vil því leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, að hann hlutist til um það, að fjhn. skili áliti um þetta mál.