31.10.1968
Neðri deild: 8. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (2338)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Á þskj. 32 flyt ég ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. lagafrv. um breytingar á l. um tekjustofna sveitarfélaga. Aðalefni frv. er að fá breytt ákvæðum l. um aðstöðugjöld.

Á undanförnum árum hafa allir kaupstaðir hér á landi, flestir kauptúnahr. og mörg önnur sveitarfélög lagt á svonefnd aðstöðugjöld samkv. heimild í l. En sá galli hefur fylgt þessu, að gjöldin leggjast ákaflega misjafnlega þungt á gjaldendur eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Veldur þetta óþolandi ranglæti, og er brýn þörf lagfæringar á því. Ég vil leyfa mér að nefna hér dæmi um ójöfnuðinn í þessum efnum. Húsmóðir í Reykjavík fer í matvöruverzlun og kaupir þar vörur fyrir 1000 kr. Hún verður nú að borga 5 kr. í toll, sem nefnist aðstöðugjald, af þessum vörum í borgarsjóð Reykjavíkur. Þetta verða margir 5 krónu seðlar yfir árið, því að nú fæst ekki mikið af vörum fyrir 1000 kr. En víða á landinu þarf fólk að borga 10–15 kr. gjald til sveitarfélags vegna jafnmikilla viðskipta, og þess eru dæmi, að tekið sé 20 kr. aðstöðugjald af 1000 kr. matvörukaupum eða fjórum sinnum hærri upphæð en í Reykjavík.

Annað dæmi vil ég nefna. Tilbúinn áburður er ein af helztu nauðsynjavörum bændanna. Lögin heimila að taka allt að 2% af verði áburðarins í aðstöðugjald, og þess eru dæmi, að svo hátt gjald hafi verið tekið af þessari nauðsynjavöru. Á einstöku stöðum sleppa sveitarstjórnirnar því að leggja aðstöðugjald á áburðinn. En annars er álagt gjald frá 0.25% og allt upp í 2%. Þar sem gjaldið er 1/4%, þarf meðalbóndi nú að borga á annað hundrað kr. aðstöðugjald af áburðinum, sem hann kaupir, miðað við eins árs notkun af þeirri vöru, en víða annars staðar 500 kr., 700–800 kr., og allt upp í 1000 kr. af ársnotkuninni af áburðinum. Þetta verður hann að borga til þess verzlunarstaðar, þar sem áburðinum er skipað upp og hann látinn á flutningavagna.

Allir ættu að geta orðið sammála um það, að það misrétti, sem ég hef hér nefnt dæmi um, þarf að leiðrétta. Verði sá ójöfnuður, sem hér hefur verið í frammi hafður, látinn haldast, er stórhætta á því, að það verði til þess að flæma menn frá búsetu og atvinnurekstri á vissum stöðum á landinu.

Á undanförnum árum hafa verið þau ákvæði í l. um tekjustofna sveitarfélaga, að illa stæð sveitarfélög, sem þurfa að fá aukaframlög úr jöfnunarsjóði, geti því aðeins fengið slík framlög, að þau hafi hækkað útsvörin um 20%, þ. e. a. s. bætt 20% álagi á útsvörin, sem heimiluð eru í l. Þetta hefur mælzt mjög illa fyrir, og fólk, sem hefur búið í þessum illa stæðu sveitarfélögum, hefur kvartað undan því, sem von er, að þurfa að taka á sig slíkt aukaálag á útsvörin, og það hafa verið gerðar kröfur um, að þetta verði afnumið eða álagið a. m. k. lækkað verulega. Nú gerðist það á síðasta þingi, að það voru sett ný lagaákvæði um þetta, og nú þarf sveitarfélag, sem biður um aukaframlag úr jöfnunarsjóði, ekki að leggja nema tiltölulega lágt viðbótargjald á útsvörin. Þannig hefur fengizt leiðrétting í því atriði. En enn er eftir að gera leiðréttingu að því er varðar aðstöðugjöldin, en þar hefur munurinn verið miklu stórkostlegri en nokkurn tíma að því er útsvörin snertir. En að því er stefnt með þessu frv. að fá þar á leiðréttingu.

Sumir segja, að aðstöðugjöldin séu almenningi óviðkomandi, því að þau leggist aðallega á atvinnurekstur, eins og t. d. á verzlanir. En þetta er mikill misskilningur. Aðstöðugjöld, sem lögð eru á vörur, hækka vöruverðið alveg á sama hátt og aðflutningsgjöld eða tollar, sem ríkið leggur á vörurnar til tekjuöflunar fyrir ríkissjóðinn. En tollarnir til ríkissjóðs eru jafnháir um allt land. Þeir eru ekki hærri á einum stað en öðrum. Á sama hátt er eðlilegt, að þessi vörutollur til sveitarfélaganna, aðstöðugjöldin, sé jafnhár um allt land. Í frv. okkar er þó ekki lagt til að gera aðstöðugjöldin alls staðar þau sömu. En með því að leggja bann við því, að aðstöðugjöld á nauðsynjavörum séu hærri en þau eru nú í Reykjavík, er stigið stórt skref til að draga úr þeim stórkostlega ójöfnuði, sem núgildandi reglur valda. Og þetta er meginefni í okkar frv.

Ég ætla þá að gera grein fyrir þeim helztu breytingum á aðstöðugjaldinu, sem frv. felur í sér. Lagt er til, að álagning á verzlun með kaffi, sykur og kornvörur til manneldis í heildsölu verði takmörkuð við ½% og einnig á matvöruverzlun í smásölu. Þetta er sama gjald og nú er í Reykjavík. En nú er heimilt að leggja á þessar nauðsynjavörur í smásölu allt að því 2% í aðstöðugjald. Á sama hátt leggjum við til, að takmörkuð sé álagning á veiðarfæri önnur en sportveiðitæki, fóðurvörur og tilbúinn áburð. Þá leggjum við til, að heimild til álagningar á fiskiðnað verði lækkuð úr 1% í ½%, en það er það, sem nú er tekið hér í Reykjavík, og við leggjum til, að kjötiðnaður verði settur undir sama ákvæði. Þá leggjum við til, að álagning á iðnað, sem er ótalinn annars staðar, álagningarheimild réttara sagt, verði færð úr 1½% í 1%, en það er það, sem nú er lagt á iðnrekstur hér í Reykjavík. Við látum 2% hámark haldast eins og það er í l. núna, og verður því, þótt okkar frv. verði samþ., eftir sem áður heimilt að leggja þá prósentu á lítt þarfan og óþarfan söluvarning og einnig á starfsemi af því tagi.

Ég vil nefna það, að í 1. gr. frv. er lagt til, að kostnaður vegna óhappa eða náttúruhamfara skuli undanþeginn aðstöðugjaldi. Og í 3. gr., síðustu gr. frv., er lagt til, að hafi gjalddagar á sveitargjöldum verið ákveðnir samkv. 47. gr., skuli auglýsa það hlutaðeigendum fyrir janúarlok álagningarárið.

Ég held, að skatta- og tollakerfi okkar sé miklu flóknara og þar af leiðandi dýrara í framkvæmd en það ætti að vera. Á vörurnar eru lagðir tollar, í öðru lagi söluskattar og í þriðja lagi aðstöðugjöld. Og um beinu skattana er svipað að segja. Ríkið leggur á tekjuskatt og eignarskatt fyrir sig og sveitarfélögin tekjuútsvör og eignarútsvör á sömu gjaldstofna. Væri ekki réttara að sameina þessi gjöld, en skipta þeim svo eftir ákveðnum reglum milli ríkisins og sveitarfélaganna? Ég tel, að þetta ætti að athuga. En sú breyting verður tæplega gerð á næstu dögum, hvað sem síðar verður, og því er óhjákvæmilegt að gera nú lagfæringar á álagningu aðstöðugjaldanna til að afnema mesta misréttið. Og að því er stefnt með okkar frv.

Til er sjóður, sem nefnist jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Þegar þannig er ástatt í einhverju sveitarfélagi, að það fær ekki tekjuþörfum sínum fullnægt með álagningu gjalda eftir almennum reglum, á jöfnunarsjóðurinn að koma til. Geri hann það ekki, kafnar hann undir nafni. En það getur vel verið þörf á því, ef þetta frv. verður samþ., að gera breytingar á l. um jöfnunarsjóðinn, og þá er hægt að gera það. Það er heimild enn í l. til að leggja nokkurt aukaálag á útsvörin, og því teljum við flm. rétt, að það sé einnig heimilað að leggja tilsvarandi aukaálag á aðstöðugjöldin, og þess vegna höfum við sett inn í frv. ákvæði um það, að sé notuð heimild til að hækka álögð útsvör frá því, sem þau eru ákveðin í 32. gr. l., þá sé heimilt að bæta jafnháum hundraðshluta við álögð aðstöðugjöld.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að fara um þetta mál fleiri orðum. Á síðasta þingi var flutt frv. af mér og öðrum þm., sem var í meginatriðum eins og þetta, sem hér liggur fyrir, svo að mönnum er málið nokkuð kunnugt. Ég legg til. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn., og ég vil skora á hv. n. að afgreiða frv. frá sér hið allra fyrsta. Frv. um þetta efni, sem lá fyrir síðasta þingi, var næstum því allan þingtímann hjá þeirri n., svo að hún er málinu vel kunnug, og ætti þess vegna ekki að taka langan tíma fyrir hana að afgreiða þetta mál, og ég vil vænta þess, að hún geri það.