15.04.1969
Neðri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

32. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þessi aths. hv. 3. þm. Sunnl. var alveg óþörf. Ég hef aldrei haldið því fram, að sveitarfélögum væri skylt að leggja á aðstöðugjöld, aldrei dottið í hug að halda því fram, af því að það er ekki. Það er rétt, sem hann segir, þetta er heimild, heimildarákvæði. En heimildarákvæðunum hefur verið beitt þannig víða um land, að það leiðir af sér óverjandi ranglæti milli manna og fyrirtækja í þjóðfélaginu, alveg óverjandi ranglæti, og þess vegna þarf Alþ. að taka í taumana og setja hömlur á þetta, og það er það, sem stefnt er að með þessu frv. og að það sé ekki hægt að nota þessi ákvæði eins og gert hefur verið, það sé ekki heimilt að mismuna mönnum svona herfilega eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Ranglætið er það sama, hver sem fyrir því stendur, og það er það, sem þarf að lækna. Og þetta er ekkert flókið mál, alls ekkert flókið mál. Hv. þm. segir, að þarna verði um að ræða aðeins tilfærslu milli þegna í viðkomandi sveitarfélögum. Ég get bent á það, og hann tók undir það reyndar í sinni ræðu núna, að sveitarfélögin eiga rétt á því, ef gjöldin hjá þeim fara fram úr vissu marki og meira en eðlileg tekjuöflun getur mætt, þá eiga þau rétt á því að fá framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga og mundu vitanlega gera það. Hann segir, að það sé sjálfsagt að leita álits Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta. Það var það, sem ég fór fram á 11. marz, að yrði gert, að hér lægi fyrir skriflegt álit frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, en hann hefur gert grein fyrir því, að það verði ekki gert í þessu máli.