17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

115. mál, verðlagsmál

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. viðskmrh. nefndi í ræðu sinni frv., sem nýlega hefur verið lagt fram í hv. Ed. um Atvinnumálastofnun, fjárfestingu og gjaldeyrisnotkun. 1. flm. þess er form. Framsfl., hv. 3. þm. Norðurl. v. Hæstv. ráðh. hefur skilið þetta þannig, að þar ætti að endurvekja gamla Fjárhagsráðið, m.a. með verðlagseftirliti og öðru slíku. Ég var nú að líta yfir þetta frv., ég sé ekki neitt þar um verðlagshöft eða nokkuð slíkt. Ég get ekki fundið það. Ég veit ekki, hvar hæstv. ráðh. hefur fundið ákvæði um það í frv.

En svo er nú sjálfsagt að svara hans fsp. viðkomandi minni framkomu í þessu máli. Ég skal segja honum það, að ég bar þessa brtt., sem ég hef lagt hér fram, ekkert undir minn flokk, mér fannst ekki taka því, því mér fannst ekki skipta svo miklu máli, hvort l. giltu í einn ársfjórðung eða eitt ár, en með því að láta þau gilda aðeins í einn ársfjórðung, eins og ég legg til, þá er það tryggt, að þessi l. verði tekin til skoðunar núna á framhaldsþinginu, og mér finnst full þörf á því. Nei, ég bar þetta ekkert undir flokkinn. Hitt hefur mér aldrei hugkvæmzt, að bera það undir minn flokk, hvaða skoðanir ég ætti að hafa á einstökum málum og óska eftir atkvgr. um það. En eins og þarna kemur fram, þá er þetta mín skoðun á verðlagsmálunum, sem ég var að lýsa. Ég veit, að það eru mismunandi skoðanir okkar framsóknarmanna á þessum málum, við leyfum okkur nefnilega stundum að hafa mismunandi skoðanir á einstökum málum. Það þekkist kannske ekki í flokki hæstv. ráðh.

Mér hefur heldur ekki hugkvæmzt fram að þessu að bera það undir hæstv. viðskmrh., dr. Gylfa, eða Goethe, hvaða skoðanir ég ætti að hafa á einstökum málum, mér hefur bara ekki dottið það í hug. Og ég veit ekki, hvernig mér gengur að ná til þeirra beggja, þó ég vildi nú taka upp þann sið að fá leiðbeiningar hjá þeim um það, hvaða skoðanir ég eigi að hafa á einstökum málum. Ég veit það ekki.

Ja, ég sé ekki, að ég þurfi að svara þessu meira. Þetta nál. er mitt fyrirtæki. Ég veit ekkert um það, ég hef ekkert kannað það, hvernig mínir flokksbræður í þ. líta á þessar brtt. mínar, eða hvernig þeir munu greiða atkv. um þær. Og eins og ég segi, ég veit, að það eru eitthvað skiptar skoðanir um verðlagseftirlit í mínum flokki, sumir telja það gera eitthvert gagn, og aðrir telja, að það sé vafasamt, að það geri nokkurt gagn, og ég er þeim megin.