25.11.1968
Neðri deild: 18. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2568)

56. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að gerð verði sú breyting á skattal., að launamönnum verði heimilað að draga 15% af launatekjum sínum, áður en skattur er á þær lagður.

Launamenn eru margir hér á landi. Það er fjölmennur hópur og stækkandi, og það er mislit hjörð. Þar er allt frá smádrengjum, sem nefndir eru sendisveinar, og upp í sendiherra og fjöldinn þar á milli í ótal þrepum launastigans.

Ég hef reynt að gera mér nokkra grein fyrir því, hver áhrif þetta frv. mundi hafa á skattgreiðslur manna, ef það yrði samþ.

Verkamaður hér í Reykjavík í verkamannafélaginu Dagsbrún, sem vinnur 8 stundir á dag alla virka daga ársins, mun nú hafa samkv. lægsta taxta Dagsbrúnar um það bil 120 þús. kr. í tekjur yfir árið. Ef hann er kvæntur, þótt barnlaus sé, borgar hann engan tekjuskatt. Hann mundi því ekki hafa neitt upp úr þessu.

Kennarar eru fjölmennir hér á landi. Barnakennarar eru flestir í 16. launaflokki. Menn í þeim flokki eftir 5 ára þjónustu fá útborgað nú í desember að frádregnu lífeyrissjóðsgjaldi rúmlega 14300 kr. á mánuði, sem gerir um 172 þús. kr. yfir árið. Kvæntur kennari borgar af þessum launum um 2500 kr. í tekjuskatt. Hafi hann eitt barn á framfæri, verður tekjuskattur hans rúmlega 600 kr., en enginn, séu börnin fleiri. Ekki hefur hann mikið upp úr því, þó að þetta frv. verði samþ. Má raunar segja, að það sé ekki neitt.

En þá er að litast um ofar í launastiganum. Ég sá tekjuskattsgreiðslur 5 manna í skattskrá Reykjavíkur fyrir árið 1968 og reiknaði út skattskyldar tekjur þeirra eftir skattinum. Af skattskránni verður ekki séð, hvað mikið af tekjunum er launatekjur. En við útreikning minn gerði ég ráð fyrir, að allar skattskyldar tekjur þessara fimmmenninga væru launatekjur og kæmu því undir frádráttarregluna samkv. frv. Nú skal að vísu viðurkennt, að margir launamenn hafa einhverjar tekjur samkv. skattaframtali til viðbótar launatekjunum. T. d. er þeim, sem búa í eigin húsum, reiknað nokkuð til tekna fyrir afnot af húsnæðinu. En á móti kemur ýmiss konar frádráttur, áður en skattur er á lagður, svo sem fyrning og viðhald húseignar, vaxtagreiðslur hjá þeim, sem eitthvað skulda, tryggingargjöld og greiddur eignarskattur og eignarútsvar. Ég hygg því, að með reikningsaðferð minni sé hagnaður þessara manna af skattalagabreytingu samkv. frv. frekar of lágt metinn en of hátt. Og hvað kemur þá út úr dæmum mínum? Fyrst skal frægan telja einn ráðh., sem ég nafngreini þó ekki. Ég fékk það út, að ef ákvæði frv. hefði verið komið í lög við skattálagningu á þessu ári, hefði ráðh. fengið 19800 kr. afslátt frá tekjuskatti sínum. Næst er það bankastjóri. Sá hefði fengið afslátt af tekjuskatti, sem mér reiknast til, að nemi 24800 kr. um það bil. Og sá þriðji, sem ég athugaði, er starfsmaður við eina ríkisstofnun. Sá hefði líka fengið 24800 kr. afslátt af skattinum, eins og bankastjórinn. Svo tók ég tvo forstjóra heildsölufyrirtækja. Þeir menn, sem áður voru nefndir heildsalar, eru nú undantekningarlítið komnir í hóp launamanna. Svo að segja öll heildsölufyrirtæki eru rekin af félögum, aðallega hlutafélögum. Forstjórar þeirra, sem oft eru hluthafar í félögunum, eru launamenn í þjónustu fyrirtækjanna. Ég reikna út hlunnindi tveggja slíkra samkv. frv. Annar mundi græða rúmlega 19 þús. á frv., en hinn um 17 þús. En með þessu er sagan ekki nema hálfsögð og þó líklega tæplega það. Samkv. frv. eiga þeir líka að fá afslátt á tekjuútsvörunum, og ég geri ráð fyrir, að hann yrði í flestum tilfellum meiri en á tekjuskattinum. Það mundu því verða milljónatugir, sem hátekjumenn fengju í afslátt af opinberum gjöldum, ef frv. væri samþykkt.

Við athugun á þessu frv. er þannig ljóst, að með því er ekki stefnt að því að létta þeim róðurinn, sem erfiðastan hafa barninginn, heldur er stefnt að því að veita þeim, sem betur mega. Vilji menn hlaupa undir baggana hjá þeim, sem hafa erfiðasta aðstöðu, er það ekki ráðið að lækka tekjuskattinn, því að það snertir þá ekki. Betra væri fyrir þá, að söluskatturinn væri lækkaður, sem hvílir þungt á almenningi, og aðstöðugjöldin, sem leggjast ósanngjarnlega á fólk víða um land. Það er einnig þörf á því að létta skatta á atvinnufyrirtækjum. Það er nú þannig, að þó að hæstv. ríkisstj. hafi síðasta áratuginn alltaf talið sig vera að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll, þá er ástand atvinnufyrirtækjanna þannig yfirleitt, að hagur þeirra er harla bágborinn. En það verður ekki greitt fyrir þeim fyrst og fremst með því að lækka tekjuskattinn, því að hann er ekki tilfinnanlegur á félögum. Flest eru þessi atvinnufyrirtæki rekin af félögum. En það eru aðrir skattar, sem þyrfti að létta af þeim. Það eru ýmsir sérskattar, sem hrúgað hefur verið á atvinnureksturinn á undanförnum árum. Þannig er það ýmislegt á skattamálasviðinu, sem þarf að lagfæra, en ég tel það ekki mest aðkallandi verkefni, eins og nú er ástatt, að lækka skatta á hátekjumönnum, eins og stefnt er að með þessu frv.