02.12.1968
Neðri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í C-deild Alþingistíðinda. (2603)

85. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 105 hef ég ásamt hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 2. þm. Sunnl. leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt.

Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að með útdrætti verði tekin 10% af skattframtölum og þau rannsökuð sérstaklega og allt, sem af því leiðir eða fram kemur í sambandi við þessi framtöl, sem þannig er með farið, verði rannsakað eins gaumgæfilega og nauðsyn ber til og framkvæmanlegt er.

Það hefði verið ástæða til að flytja frv. eða þáltill. um að taka skattamálin til sérstakrar meðferðar, því að öllum er ljóst, að nauðsyn ber til, að svo sé gert. En ástæðan til þess, að það er ekki gert hér að þessu sinni, er fyrst og fremst sú, að á vegum ríkisins starfar milliþn., sem er að vinna að því, hvort framkvæmanlegt sé að taka upp staðgreiðslukerfi skatta. Það er gert ráð fyrir því, að þegar þessi nefnd hefur lokið störfum, verði að taka útsvars- og skattamálin til sérstakrar meðferðar, ef að þessu ráði verður horfið. Af þeirri ástæðu vildum við flm. ekki að þessu sinni gera till. um víðtækari breyt. en hér er lagt til. En þessi breyting, sem hér er lagt til, getur komið til framkvæmda nú þegar, ef hv. Alþingi samþ. breytinguna, og það er nauðsynlegt, að hún komi til framkvæmda, Öllum er kunnugt um það, að skriffinnskan í okkar skattaálagningu og skattakerfi er geysilega mikil, og hún hefur farið að minni hyggju út í algerar öfgar, þar sem skattstofurnar eyða tíma í það að láta skrifa bréf til gjaldþegna eða skattframteljenda, sem hvorki koma til með að greiða skatt né útsvar, en um það eru mýmörg dæmi.

Með þessum breyt., sem hér er lagt til, er hægt að gera hið venjulega eftirlit einfaldara og minna, en taka aftur þetta mjög föstum tökum. Og ég er sannfærður um það og við flm., að það mundi verða til þess að hafa geysilega mikil áhrif í þá átt að bæta skattframtölin í landinu.

Ég hef uppi ýmsar hugmyndir um það, að nauðsyn beri til að breyta skattaálagningu eða meðferð skattframtala frá því, sem nú er. M. a. fyndist mér eðlilegt, að sveitar- og bæjarfélögin hefðu að öllu leyti tekjuskattinn, en ríkið sleppti honum. Jafnframt því mundi þá falla niður það framlag, sem jöfnunarsjóður sveitarfélaga fær nú af aðflutningsgjöldum og söluskatti, því að þá mundi verða ákvæði í lögum um, að hluti af tekjuskattinum gengi til jöfnunarsjóðs. Sömuleiðis gæti þá komið til nýrrar athugunar meðferð á eignarsköttum og fasteignasköttum. Ég held, að okkur sé hin mesta nauðsyn að gera okkar skattamál í framkvæmdinni einfaldari en þau eru. Þau eru mjög flókin, og það eru á sama stofninum tekjustofnar til þessa og hins, eins og t. d. það, að ákvæði er í l. um það, að hluti af eignarskattinum skuli ganga til byggingarsjóðs ríkisins. Þegar skattamálin í heild verða endurskoðuð, vildi ég, að þetta sjónarmið kæmi fram og það yrði skoðað. Ég held líka, að það sé orðið algerlega úrelt sjónarmið, að atvinnufyrirtæki eða stofnanir, sem ríkið á og rekur, séu undanþegin útsvari og skatti, eins og nú er. Meðal þeirra stofnana, sem ég vildi í því tilfelli nefna, eru bankar og sparisjóðir, sem ekki er nein ástæða til að greiði ekki eðlileg gjöld í sameignarsjóði eins og aðrar stofnanir. Þetta nefni ég aðeins sem hugleiðingar í sambandi við þessi mál, þegar þau verða tekin til athugunar, og ég gæti þá jafnframt hugsað mér það, að athugun á framtölum færi fram hjá bæjar- og sveitarfélögunum, að öðru leyti en því, er til úrskurðar kæmi, sem félli undir skattstjóra, og framkvæmd á því atriði, sem hér er lagt til með þessu frv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að gera frekari grein fyrir þessum þætti, sem liggur ljós fyrir. Ég vil þó taka það fram, að við flm. erum til samkomulags að breyta hlutfallinu, gera það eitthvað minna eða meira, ef það mætti verða til þess að tryggja framgang málsins hér á hv. Alþingi. Ég legg svo til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. fjhn.