02.12.1968
Neðri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

85. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég dreg það á engan hátt í efa, að fyrir flm. þessa máls vaki gott eitt og að þeir vilji með þeirri tillögu, er þeir hér flytja, stefna í þá átt annars vegar að gera skattheimtuna ódýrari, eins og hv. flm. vék að, og hins vegar að stuðla að því, að betri athugun verði gerð á skattframtölum.

Ég vék að því í fjárlagaræðu minni í haust, að þetta tvennt hefði verið að undanförnu mjög til athugunar. Reynsla væri nú töluverð fengin af skattrannsóknardeildinni og sú reynsla hlyti auðvitað að leiða til þess, að það þyrfti að endurmeta ýmis vinnubrögð og aðferðir með það í huga að gera þetta eftirlit virkara og jafnframt að koma því þó þannig fyrir, að það yrði ekki um óhæfilegan fjárhagsbagga að ræða. Ég vék þar að því, að það hefðu varðandi skattaálagninguna verið tekin upp ýmis ný vinnubrögð á s. l. ári, sem leiddu til þess, að skattaálagningin varð til mun fyrr en áður hafði verið, og stafaði það fyrst og fremst af því, að það var ekki nema að takmörkuðu leyti fylgt þeim vinnubrögðum að fara í gegnum öll framtöl, heldur var þessari vinnu dreift á árið, og það hefur síðar á árinu verið farið í endurskoðun á framtölunum. Þetta leiddi til þess, að auðið var að framkvæma álagninguna með skjótari hætti, og ég álít að stefna beri í þá átt, að það geti jafnvel orðið gert með enn þá fljótvirkari hætti, og um það hafa verið áttar mjög ýtarlegar viðræður við skattstjórana. Það hafa verið haldnir með þeim fundir til þess að ræða um þessi mál og hvernig þessu yrði komið fyrir með þeim hætti, að það í senn yrði fljótvirkt og ódýrt, en þó um leið sem virkast.

Þegar skattrannsóknardeildin hóf starf, þá minnist ég þess, að það komu fram tillögur hér á Alþingi um það, að það væru eðlileg vinnubrögð að taka vissa prósentu framtala og miða starfsemi deildarinnar við athugun á þeim framtölum. Það var þá í upphafi talið óheppilegt að fastbinda þetta, vegna þess að starf skattrannsóknardeildarinnar væri ómótað og það kynni að þurfa að haga starfseminni með öðrum hætti en með úrtökum einum saman, enda kom það á daginn, að það var nauðsynlegt. Það þótti hentugt og raunar óumflýjanlegt að taka vissa starfshópa til þess að gera heildarathuganir á þeim út frá þeirri vitneskju, sem síðar var fyrir hendi úr öðrum áttum varðandi heildartekjur í þeirri grein, bæði á viðskiptum og á annan hátt. Þetta hafa menn smám saman verið að fikra sig áfram með, og niðurstaðan hefur orðið sú, að nú væri orðið tímabært, jafnhliða því sem þessum almennu athugunum væri haldið áfram, að velja með úrtaki vissan hóp skattgreiðenda á hverju ári til þess að framkvæma rækilega skattrannsókn hjá, og að þessum úrtökum hefur verið unnið að undanförnu. Það er töluvert flókið mál að átta sig á því, hvernig þessu verður bezt fyrir komið, og skal ég ekki út í það fara. En þeir menn, sem að þessu starfa og hafa sérstaka reynslu fengið í þessum efnum, hafa unnið að þessu að undanförnu, og ég gat þess einnig í þessari sömu ræðu, sem ég vitnaði til, að þess mætti vænta, að nú alveg á næstunni yrði komið á einnig þessum úrtaksaðferðum. Nú skilst mér, að það sé ekki beinlínis þetta, sem vakir fyrir hv. flm., heldur að hætt verði að framkvæma athugun á öllum framtölum hjá skattstofum, en menn taki árlega 10% framtalanna og hin séu svo látin eiga sig.

Það kann vel að vera, að að lokum telji menn æskilegt að taka framtöl með einhverjum þeim hætti, að úrtök verði einnig tekin á skattstofunum til hins almenna eftirlits. Hér er um tvíþætt eftirlit að ræða: annars vegar almennt skattaeftirlit, sem miðast að framtölum yfirleitt, og hins vegar skattrannsóknaeftirlit. Ég mundi hins vegar telja, að það þyrfti vel að íhugast, — og er ekki fyrir fram að slá því föstu, að þetta sé fráleit hugsun, — en að það þurfi vel að íhugast, hvort það sé ekki varasamt að binda starfshætti skattstofanna og skattkerfisins með þessum hætti, þannig að því sé slegið fyrir fram föstu í allra vitund, að svona eigi að vinna að þessum málum og ekki á annan hátt. Þetta tel ég að þurfi vel að íhuga. Ég er, eins og ég segi, ekki að slá því föstu, að það geti ekki í framtíðinni orðið hyggilegt að vinna með þessum hætti, en ég held, að það sé a. m. k. ekki enn þá hægt að hverfa frá þeim aðferðum, sem hafðar hafa verið um að reyna að hafa sem víðtækast eftirlit í gegnum launamiða og með öðrum hætti á framtölum. Ég efast ekkert um, að það mætti vel hugsa sér, að með þessum hætti mætti koma við sparnaði, og ég tel sjálfsagt, að þetta sé íhugað, en á þessu stigi a. m. k. er ég ekki reiðubúinn til að ljá samþykki mitt við þessari fastmótuðu hugmynd, að þessu skuli slegið föstu í lögunum, að svona skuli að unnið. Og ég er ekki búinn að sannfærast um það, án þá nánari athugunar, að með þessum hætti sé komið á nokkru virkara eftirliti en með þeim hætti, sem nú er hafður, til viðbótar þeim vinnubrögðum, sem tekin hafa verið upp hjá skattrannsóknardeildinni og áformað er að efla og endurbæta með þeim hætti, sem ég hef hér gert grein fyrir, og jafnframt er nú unnið að því að skipuleggja nánara samstarf milli skattstofanna og skattrannsóknardeildarinnar, til þess að unnið verði með skipulagðari hætti að þessum þýðingarmiklu verkefnum.

Ég tek alveg undir það með hv. 1. flm., að hér er um verkefni að ræða, sem brýn nauðsyn er að sinna, og það er gersamlega óviðunandi, að tekjur skattborgaranna komi ekki allar fram til skatts. Ég hef margsinnis lagt á það áherzlu og þarf ekki að endurtaka það, um það getur enginn ágreiningur verið og sjálfsagt að leita allra tiltækra ráða til þess. Ég skal ekki heldur fremur en hv. frsm. fara út í að ræða skattkerfið almennt. Það er rétt, sem hann sagði, að það er ekki tímabært að taka það til rækilegrar endurskoðunar í lagaformi a, m. k., fyrr en fyrir liggur niðurstaða staðgreiðslukerfisnefndarinnar, sem ætla má að geti orðið nú fljótlega upp úr áramótunum. Ég gat jafnframt um það í minni fjárlagaræðu, að það hefði verið gerð núna heildarathugun á skattkerfinu á breiðari grundvelli, einmitt með hliðsjón af því, sem hann einnig vék að, skiptingu skatta á milli ríkis og sveitarfélaga, og hefði verði fengin tæknileg aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og sérfræðingum hans til þess að kanna skattkerfi okkar hlutlausum augum, þannig að við gætum haft það mat til hliðsjónar. Ég vonast til þess, að einnig snemma á næsta ári liggi fyrir grg. um þetta efni þannig að þá ætti að vera hægt að meta það, hvernig við stöndum varðandi okkar skattamál yfirleitt. Það er engum efa bundið, að í þessum efnum þarf ýmsu að breyta, og það er hárrétt hjá hv. flm., að það þarf að íhuga, hvort hægt er að koma við hreinni tekjuskiptingu en nú er varðandi skattheimtuhlutdeild sveitarfélaga og ríkisins, að þau séu ekki að nota sömu tekjustofnana. Og jafnframt geri ég ráð fyrir, að ef að því yrði horfið t. d. að afnema að verulegu leyti beina skatta til ríkissjóðs, þá kæmi það til álíta, hvort sveitarfélögin ættu þá að taka að sér í ríkari mæli einhver önnur verkefni heldur en þau nú hafa. Allt er þetta mjög margþætt, eins og menn vita, og þarf auðvitað nánari athugunar við. En ég tel, að þetta séu allt atriði, sem nauðsynlegt sé að gefa gaum fyrr en seinna, en að við þurfum fyrst að sjá framan í tillögurnar frá staðgreiðslukerfisnefndinni, sem óhjákvæmilega hljóta að leiða af sér ýmsar breytingar á okkar skattkerfi, áður en horfið er að því ráði að hefja frekari breytingar á skattkerfinu.