09.05.1969
Neðri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (2749)

208. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég verð að gera þá játningu, að ég er ekki búinn að kynna mér þetta frv. til neinnar hlítar, og ætla því ekki nú á þessari stund að ræða um efni þess. Þetta stafar mikið af því, að þetta mál kom seint fram í þinginu og það hefur dregizt enn lengur, að það væri tekið til 1. umr., svo að ég taldi ekki horfur á, að það væri meiningin að afgreiða þetta frá þessu þingi, og því hef ég látið sitja í fyrirrúmi að athuga önnur mál, sem sjáanlegt var, að áttu að fá fullnaðarafgreiðslu nú á þinginu. Þótt ég ræði ekki um efni málsins mína, þá voru það tvö atriði í ræðu hv. flm., sem ég vildi aðeins minnast á með fáum orðum.

Mér skilst, að hann beri mjög fyrir brjósti atvinnureksturinn, atvinnufyrirtækin og að þau séu ekki skattlögð úr hófi fram. Og hann var í þessu sambandi að minnast á það, sem rétt er, að það hefði verið gerð breyting á skattalögum árið 1962. En ég vil vekja athygli á því, að þá voru engar þýðingarmiklar breytingar gerðar á skattalögum. Það voru nokkrar breytingar, en engar af þeim voru þýðingarmiklar. Hins vegar var fáum árum áður, í tíð vinstri stjórnarinnar, gerð breyting, sem hafði mjög mikla þýðingu einmitt fyrir atvinnureksturinn í landinu. Með lögum 1958 var sú breyting gerð á skattalögum, að hætt var að reikna stighækkandi skatt af tekjum félaga. Ég segi, að þetta hafi haft ákaflega mikla þýðingu fyrir atvinnureksturinn, því að við vitum það, að öll stærri atvinnufyrirtæki hér á landi eru rekin af félögum og reyndar mörg smærri líka. Þetta hafði því mjög mikla þýðingu. Ég vildi aðeins benda á þetta að þarna voru lög, sem höfðu miklu meiri þýðingu en þær breytingar, sem gerðar voru 1962.

Eitt var það, sem hv. 1. þm. Reykn. nefndi í sinni ræðu og ég er honum sammála um. Hann var að tala um gjöldin til sveitarfélaganna, sem legðust á alveg án tillits til þess, hvernig rekstrarafkoma fyrirtækjanna væri. Þarna átti hann við aðstöðugjöldin að sjálfsögðu. Það er rétt, að þetta er mjög óeðlilegur gjaldstofn, eins og honum er fyrir komið. Annað er þó að mínu áliti verra við þessi aðstöðugjöld, og það er það, hvað þau leggjast misjafnt á fyrirtæki og einstaklinga eftir því, hvar þeir eru búsettir á landinu. Nú er það svo, að t. d. verzlunarfyrirtæki víða úti um land þurfa að borga 100 og allt upp í 300% hærri aðstöðugjöld en hliðstæð fyrirtæki í Reykjavík. Og um atvinnureksturinn er það að segja, að t. d. frystihúsin þurfa víða um land að borga 100% hærri aðstöðugjöld en frystihús t. d. í Reykjavík, á Siglufirði og Sauðárkróki og hér í nágrannabæjum Reykjavíkur. Þetta er óhæfa, þetta er óþolandi ranglæti, sem ekki er hægt að láta menn búa við. Á síðustu tveimur þingum, í fyrra og nú, höfum við gert tilraun til þess, fáeinir menn, að fá þessu breytt. Við höfum flutt frv. um, að það væri ekki leyfilegt að leggja á hærri aðstöðugjöld yfirleitt annars staðar en t. d. hér í Reykjavík. En þetta hefur ekki fengizt viðurkennt hér á Alþ., að það bæri að gera þessa breytingu. Og mér til sárra vonbrigða hefur hv. 1. þm. Reykn. verið í hópi þeirra, sem hafa lagzt á móti þessari leiðréttingu. En ég er nú að gera mér vonir um, að hann hverfi frá villu síns vegar og fari að átta sig á því, að það er ekki hægt að hafa svona lög og svona framkvæmd áfram og þess vegna taki hann í spottann, næst þegar þetta mál kemur fyrir hér á þingi, með okkur ýmsum, þ. á m. með nafna sínum hinum vestfirzka, sem hefur miklu betri skilning á þessu en sá af Reykjanesinu.

Það var þetta tvennt, sem ég vildi segja í sambandi við ræðu hv. þm., en ég skal ekki tefja tímann með lengri ræðu um þetta, því að eins og ég sagði er ég ekki við því búinn að ræða efnislega um málið að svo stöddu, og úr því að hæstv. fjmrh. fór ekki út í það, þá ætti mér að fyrirgefast, þó að ég láti það bíða þar til síðar.