04.03.1969
Efri deild: 54. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (2851)

126. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég get nú varla annað en sagt hér nokkur orð. Hér bryddaði á þessari gömlu skoðun, sem mönnum er svo mikið í mun að tjá, að menn treysta ekki þekkingu vísindamanna okkar, en sem nauðsynlegt er að treysta hér á Íslandi. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir á tveimur stöðum í framsögu, að hv. frsm. fyrir frv. sagði á þá leið: Hvernig getur farið, þegar eyðilegging eftir vísindalegu eftirliti heldur svona áfram? Ég held, að þetta hljóti að vera aðeins skökk hugsun. Auðvitað er eyðileggingin ekki eftir vísindalegu eftirliti. Það, sem hann á við, er, að vísindamenn okkar hafa ekki verið nógu árvakrir, nógu kappsmiklir að hefta þetta. Hann sagði hér seinast í ræðu sinni: lítið hald í vísindalegu eftirliti.

Ég er ekki á sömu skoðun og hv. ræðumaður og hv. Alþ. mun, þegar til kastanna kemur, taka ákvarðanir í sambandi við landhelgismálið. Það má alvarlega gá að sér, ef sú skoðun er svo rótgróin enn þá hér í sölum Alþ., að við treystum ekki okkar vísindamönnum við þá aðstöðu, sem við erum að skapa þeim og með það mikla fjármagn, sem við erum að láta í hendur þessara manna. Ég get ekki tekið undir svona skoðun, engan veginn. Hitt er augljóst mál, að það á við um rannsóknir á hafsvæðinu og nýtingu okkar fisks þar og allar þær miklu breytingar, sem þar eiga sér stað, að það tekur sinn tíma að afla þekkingarinnar. Og það geta liðið fjölda mörg ár, þangað til við erum orðnir það vitrir, að við vitum algerlega, hvað er réttast. En ég vil taka undir þá skoðun, að það er rétt að fara varlega, bæði varðandi aukningu á togveiði og aukningu á dragnót. En ég vil aðeins undirstrika það, að þótt það hafi komið fram hér, að dragnótin hafi sýnt minni afla 1968 og færri bátar nú í Faxaflóa en 1966, þá er það ekki einhlít viðmiðun um minna fiskimagn. Það hefur oft verið deilt hér í sölum Alþ. um skiptakjör, og það fer ekki á milli mála, að skiptakjör á dragnótinni eru útveginum mjög áhagstæð. Það þekkir hv. ræðumaður mjög vel. Það er einn þátturinn í minnkandi afla. Ég vil líka upplýsa það, að staðreynd er, að aðeins 10–15% af veiðisvæði Faxaflóa er hæft til dragnóta. Hitt er friðað af náttúrunnar völdum, um 85–90%. Þetta segir manni hver einasti fiskimaður, sem hér þekkir vel til og vil ég í því sambandi, að hv. þm. kynni sér jólablað Víkings, þar sem ágætur skipstjóri skrifar þar mjög góða grein um veiðar í Faxaflóa með botnvörpu. Við skulum ekki láta neinar öfgar hlaupa með okkur í gönur, þó að Faxaflói hafi í öllu okkar mikla baráttumáli fyrir aukinni friðun landhelginnar átt sérstakan þátt.

Ef ég man rétt, var það fyrst 1937, að Sveinn Björnsson heitinn lagði fram till. um það, að gert yrði sérstakt átak í að friða Faxaflóa, auðvitað til þess að bægja útlendingum burtu. Þjóðin öll tók á sig miklar kvaðir til þess að bægja útlendingum burtu út úr sinni landhelgi. En til hvers? Í fyrsta lagi til þess að við nytum árangursins af okkar eigin landhelgi fyrir okkur sjálfa. Það er auðvitað höfuðtilgangurinn. Og við þurftum að beita vissum rökum. Við þurftum að hafa vissan áróður uppi. Við þurftum að fórna sjálfir til þess að sækja fram. Það var eðlilegt og bráðnauðsynlegt á þeim árum. En Faxaflói hefur verið það svæði, sem var mjög sterkt að benda á, til þess að taka upp vísindalegar rannsóknir á. Við munum ekki vantreysta okkar vísindamönnum í því efni. Það geri ég a. m. k. ekki. Hitt er augljóst mál, að við mikla erfiðleika er að etja við rannsóknir á fiskigöngum. Þá geta komið fram mismunandi skoðanir á mismunandi tíma, byggðar á þeirri þekkingu, sem fyrir liggur. Það er ekkert athugavert við það hjá vísindamanni í sambandi við rannsókn á fiskigöngu við Ísland, þó að hann verði að endurskoða sína niðurstöðu og sína þekkingu, að fenginni aukinni reynslu.

Hér í grg. er farið mjög sterkum orðum um drápið í Faxaflóa. Sé svo, að aðeins 8 bátar skili á land um 700 tonnum af fiski, þá er það nú ekki ægileg goðgá að leyfa þessum 8 bátum að drepa um 1000 tonn af fiski. Ég sé það ekki, á þessu takmarkaða svæði. Hitt er svo annað mál, að ef á að banna botnvörpuna algerlega á öllum tímum árs við Faxaflóa, þá er það sérsjónarmið. Ég vil hér ekki blanda saman botnvörpunni og dragnótinni, þó að hvor tveggja sé botnskafa í eðli sínu. Það kemur vonandi í þessum mánuði frv. eða a. m. k. till. til hv. Alþ. um hugsanlega aukningu á togveiðum við Ísland, og þá kemur Faxaflói inn í þá mynd eins og önnur svæði fiskveiðilögsögunnar. Hver niðurstaða í því máli verður, veit auðvitað enginn á þessu stigi, en hitt er augljóst mál, að á vissum árstíma er um allt land áhugi fyrir því, að um einhverja aukningu í togveiðum sé að ræða. Það var deilt á okkur hér, sem stóðum að því að samþykkja frv. til bráðabirgðalausna. Ræðumaður deildi á okkur fyrir það að hleypa mönnum jafnvel inn fyrir þriggja mílna landhelgina. Þeir taka á sig sök, sem eiga. Ég stóð að því frv. hér og margir fleiri hv. þm. Ég sé ekkert athugavert við það að drepa góðan fisk nær, landi en 3 mílur, ef það er okkur til hagsældar og ákveðinn tíma árs. Það, sem skiptir máli, og það er megintilgangur þessa frv., er að drepa ekki of mikið af ungviði. Þó er okkar fiskveiðum svo háttað um allt land, að við komumst ekki hjá því að drepa eitthvað af því. Vandamálið er hversu mikið við megum taka af því. Megum við taka 5000 tonn eða megum við taka 50 þús. tonn? Það er hin stóra spurning, og það er enginn í dag svo vitur, að hann geti svarað þessu algerlega. En hitt megum við hafa í huga, að við tökum aðeins 18 fiska af hverjum 100, sem teknir eru ókynþroska við Ísland hér á ákveðnu hafsvæði samkv. þeim skýrslum, sem fyrir liggja. Þá spyr maður: Höfum við efni á því að hætta að taka 18 fiska og taka aðeins 10, en leyfa útlendingum að taka hina? Meðan ekki liggur fyrir sú algera staðreynd, að við getum haft meiri árangur í friðunarátt, tel ég, að við þurfum að fara mjög gætilega og ekki vera með neinar öfgar á neinn hátt. Ég vil undirstrika það sem mína persónulegu skoðun, að við eigum að efla fiskifriðun við Ísland og treysta okkar fiskifræðingum í hvívetna. Svo segir hérna í grg.:

„Hættan af dragnótaveiðum í jafnþýðingarmikilli uppeldisstöð og Faxaflóinn er felst ekki fyrst og fremst í veiði nytjafiska, heldur hinu gegndarlausa ungviðisdrápi, sem þessum veiðum fylgir.“ Á Faxaflóasvæðinu er hægt að vera með línu og handfæri, og lína og handfæri taka smáfisk. Ég hef það ekki hér við höndina, hvor hefði verið drýgri að drepa, lína og handfæri á móti dragnótinni. En það er grunur minn, hafi línuveiðar eitthvað verið stundaðar hér við Faxaflóa, að þær hafi drepið nokkur hundruð tonn og af þeim hundruðum tonna er alveg gefið, að stór hluti hefur verið ókynþroska fiskur. Ég spyr því aðeins: Erum við að berjast svona heiftarlegri baráttu til að friða þarna 400, 500 eða 600 tonn eða er um eitthvað mun meira magn að ræða? Ef menn hafa ekki áhuga á dragnót vegna einhverra ástæðna, — annaðhvort minnkandi fiskafla eða óhagstæðna skipta — og menn telja sér hag í því að gera út á línu eða handfæri, þá séu menn frjálsir að því. Hinu skal ég vekja athygli á og það snertir raunverulega mitt kjördæmi, að dragnótarsvæðið liggur næst því, raunverulega meðfram Reykjanesinu á stórum kafla, inn með því þannig, að það þarf að athugast mjög gaumgæfilega, hversu nærri landi mætti fara. En ef við hugsum okkur línu dregna frá Garðskaga í Malarrif, þá eru að fróðra manna sögn um 80–90% Faxaflóa friðuð fyrir botnsköfu af völdum náttúrunnar sjálfrar, þ. e. a. s. það er þar svo mikið hraun eða staksteinótt.

Ég vil biðja hv. dm. að athuga það, að okkar vísindamenn eiga við ýmsa erfiðleika að etja í því að gefa okkur sem beztar upplýsingar um áhrif á smáfiskveiði við Ísland. En ég er alveg viss um það, að þeir geta ekki lagt til svo algera friðun, sem hér er farið fram á, jafnvel þó að sterk rök séu fyrir því, að við verndum Faxaflóa áfram. Það eru sterk rök fyrir því, en ég er ekki viss um, að þeir vilji undirskrifa þau algerlega eins og sagt er hér í grg. Hér er meira að segja staðhæft, að um gegndarlaust dráp sé að ræða og þar fram eftir götunum, en það liggur ekki fyrir algerlega, hversu mikil hætta er hér á ferðum. Það eru víða stórir fláar á Íslandi. Það er fyrir Norðurlandi og við getum nefnt Breiðafjörð. Það er talið eðlilegt, að þar séu friðuð stór svæði inni á flóum fyrir smáfisk. Fiskurinn gengur vestur og norður með ströndinni og elzt upp að vissu ársskeiði þar. Það má undirstrika, eins og fram hefur komið, hversu þýðingarmikinn þátt Faxaflói hefur átt í okkar rökum að þeim áfanga, sem við höfum náð í dag í friðuninni, og hann verður aldrei vanmetinn og það ber að þakka. Það var einmitt líka vegna baráttu vísindamanna fyrir nauðsyn þess að hefja hér rannsóknir á ákveðnu og takmörkuðu svæði.

Þessu frv. verður auðvitað vísað til n., en ég vildi aðeins láta mína skoðun koma hér fram vegna þess, að ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því og verð þá leiðréttur með það, að mér fannst hv. frsm. of neikvæður í garð fiskifræðinga — og ég held, að það sé ekki hans hjartans sannfæring. En honum er mikið í mun að fá Faxaflóa algerlega friðaðan, og það er gott og blessað út af fyrir sig. En ég vil ekki láta hjá líða að undirstrika það, að við eigum að bera traust til okkar fiskifræðinga, og ef þeir hafa ekki nægilega góða aðstöðu til rannsókna, þá á það að vera keppikefli Alþingis að veita þeim aukna möguleika á slíkum rannsóknum, þannig að við fáum það bezta út fyrir okkur alla.