25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

226. mál, framfærslulög

Flm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv. er ofur einfalt að efni. Með því er lagt til, að sveitarfélögum utan Reykjavíkur verði veitt sú heimild, sem Reykjavíkurborg fékk með l. frá 1967, að fella framfærslumál undir félagsmálaráð, sem stofnað var á vegum borgarinnar til að samræma meðferð félagsmála, sem þegar var séð, að var orðið aðkallandi. Efni frv. er, að slík heimild verði sem sé veitt öðrum sveitarfélögum, þegar þau hafa komið á stofn hjá sér félagamálaráði, sambærilegu því, sem er í Reykjavík. Þetta frv. er, eins og kemur fram í grg., flutt að ósk Sambands ísl. sveitarfélaga, og er þar greint frá ályktun um meðferð félagsmála, sem samþ. var á s. l. hausti á ráðstefnu sambandsins um félagsmál, þar sem m. a. kemur fram ósk um, að stjórn sambandsins beiti sér fyrir þeirri lagabreyt., sem hér er farið fram á.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.