30.04.1969
Sameinað þing: 45. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (3066)

151. mál, rannsóknir á loðnugöngum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál sérstaklega, vegna þess að ég hygg, að við séum allir nokkurn veginn sammála um það. Það, sem gaf mér tilefni til þess að segja nokkur orð, var atriði, sem kom fram í ræðu hv. seinasta ræðumanns.

Það er ákaflega áberandi og ákaflega hvimleitt, hvað ráðh. eru oft fjarverandi, þegar mál eru til meðferðar, sem snerta þau rn., sem þeir eiga að sjá um. Ég get vel skilið, að það sé kannske nokkrum erfiðleikum bundið fyrir ráðh. að vera hér alltaf viðstadda, en mér finnst, að þeir eigi að kappkosta að vera viðstaddir, þegar fram fara umr. um þau mál, sem snerta sérstaklega rn. þeirra. Til þess eiga ráðh. sæti hér á Alþ. Það er gert ráð fyrir, að ráðh. ættu setu hér á Alþ., þótt þeir væru ekki þm. Það er ætlazt til, að þeir séu viðstaddir til þess að gefa upplýsingar, þegar um málefni er að ræða, sem snertir sérstaklega þau rn., sem þeir hafa með höndum. Það er ákaflega algengt hér á Alþ., bæði í Sþ. og deildum, að ráðh. séu ekki viðstaddir undir slíkum kringumstæðum. Mér finnst rétt að láta það koma fram, að sá ráðh., sem mér virðist sitja langsamlegast bezt fundi, er hæstv. forsrh., en sá galli er hins vegar á því, að þannig er frá verkahring hans gengið, að það heyra eiginlega engin rn. undir hann, þannig að seta hans kemur ekki að gagni að þessu leyti. En ég vildi í tilefni af þessu beina því bæði til hæstv. forseta og líka hæstv. forsrh., að þeir hlutist til um, að ráðh. ræktu betur skyldu sína í þessum efnum, heldur en þeir hafa gert að undanförnu.