16.12.1968
Neðri deild: 30. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

89. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar að benda hv. sjútvn. á, sem fær þetta frv. til meðferðar hér að lokinni þessari umræðu, að í Il. kafla frv. um útflutningsgjald af sjávarafurðum hefur verið gerð nokkur breyting á tegundum á milli flokka, en það er ein framleiðsla, sem hefur verið færð úr 1. flokki, magnflokknum, í 3. flokkinn, en það er fryst rækja. Ég vildi beina því til nefndarinnar, að hún verði við þeirri ósk að flytja frysta rækju aftur í 1. flokkinn, í a-flokkinn, þar sem hún hefur verið. Ég sé ekki ástæðu til að taka þessar afurðir út úr og færa á milli flokka. Hins vegar auðvitað verður að hækka útflutningsgjaldið frá því, sem nú er, eins og gert er ráð fyrir í sambandi við magnflokka.

Þá er hér í 16. gr., e-liður, með leyfi hæstv. forseta: „Afgangur gengishagnaðarsjóðs rennur til Fiskveiðasjóðs til veitingar stofnlána til bolfiskvinnslu, eftir reglum, sem sjútvmrn. setur.“

Mér þætti vænt um, ef hæstv. ráðh. gæti gefið upplýsingar um það, hvort sem það væri nú við þessa umræðu eða 2. umr. málsins — það skiptir ekki neinu höfuðmáli — hvernig þær reglur hafi verið í sambandi við úthlutunina á lánum til frystihúsanna samkv. lögum frá 1967 um ráðstafanir vegna sjávarútvegsins, hvernig þær reglur hafi verið og hvort það sé ætlun hans, að það verði farið þá eftir svipuðum reglum nú eða hvort hann er með aðrar hugmyndir um úthlutun á þessum peningum til bolfiskvinnslunnar? Það er kannske erfitt að svara því núna hér við þessa umræðu, en ég vildi mjög mælast til þess við hæstv. ráðh., að hann svaraði þessari fsp. við 2. umr. frv. hér í hv. þd.

Hv. 4. þm. Austf. gaf nú tilefni til þess að svara mörgu, en ég ætla ekki að lengja umræðuna hér um málið, því að ég tel, að það þurfi að fara til nefndar, en mér fannst, að hv. þm. færi svona heldur á kostum í sinni ræðu og það er auðvitað ánægjulegt til þess að vita, hve mikla umhyggju hann ber fyrir sjómönnum og sannarlega eiga þm. að gera það, en þá þurfa þeir líka að bera sams konar umhyggju fyrir þessari stétt, þegar þeir eru í stjórnaraðstöðu og ég efast ekkert um það, að þessi hv. þm. hefur gert það. En það hefur verið með nokkuð öðrum hætti. Hann hefur orðið að grípa til svipaðra ráðstafana og hér er ætlazt til að gerðar séu.

Hv. 10. landsk. þm. hefur svarað þessu að verulegu leyti. Ég vil aðeins minna á það, að á árunum 1952–1956 var um 15% munur á fiskverði að viðbættum gjaldeyrisfríðindum til útgerðarmanna og á skiptaverði til sjómanna. Hið raunverulega verð til útgerðarmanna var þá kr. 1.20 á 1. flokks fisk, en til sjómanna var það 1.05 kr. 1957 var fiskverð til útvegsmanna kr. 1.15 auk verðbóta til þeirra, sem námu þá 471/2 eyri á kr. Er þannig samtals greitt til útvegsmanna 1.62 kr., en skiptaverðið til sjómanna var á sama tíma 1.38 kr. Munurinn var þá 21%. Árið 1958 var þessi munur 20%. Á árinu 1959 var hann 24% og á árinu 1960 varð breyting á hlutaskiptum og fullt fiskverð var greitt til beggja og það var því ekki um að ræða neinn verðmun á því ári. Á árinu 1961 breytast kjarasamningar sjómanna og ég hygg, að síðan hafi sjómenn haft í raun og veru hærri hlutdeild úr brúttóafla heldur en áður og það hefur verið fram á þennan dag.

Hitt er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það hefur auðvitað engin stétt misst jafnmikið af sínum tekjum og sjómenn hafa misst, vegna þess að afli hefur minnkað verulega nú á síðustu tveimur árum og þá alveg sérstaklega hjá síldveiðisjómönnum. En það breytir ekki þeirri staðreynd, að ástandið var orðið þannig hjá útgerðinni og fiskvinnslunni í landinu, að það varð að gera róttækar ráðstafanir til þess, að útflutningsatvinnuvegirnir stöðvuðust ekki með öllu. Með þessum ráðstöfunum, sem þegar hafa verið gerðar með gengisbreytingunni og þessum hliðarráðstöfunum, sem hér liggja nú fyrir til umræðu, þá er reiknað með því, að útgerðin geti gengið áfallalaust miðað við það, að meðalafli sé. Auðvitað verður hvorki hægt að skapa útgerð eða öðrum atvinnugreinum neinn grundvöll, ef engar eru tekjurnar og afli bregzt að verulegu eða öllu leyti. Ég er anzi hræddur um það, að ef sjómenn hefðu nú fengið að njóta þessara áhrifa gengisbreytingarinnar að öllu leyti, að aðrar stéttir í þjóðfélaginu hefðu engan veginn sætt sig við það og þá auðvitað hefði þessi gengisbreyting og þessar ráðstafanir á skömmum tíma að engu orðið.

Þegar hv. 4. þm. Austf. var í ríkisstj., gerði hann marga góða hluti fyrir sjávarútveginn. Við eigum ekki neitt að gleyma því. En hann tók þá á sig slíka ábyrgð, að hann varð auðvitað að gera þar upp á milli, sem hann taldi þá réttast og sannast og ég er alveg sannfærður um það, að hvað sem hann segir, er hann alveg sama sinnis í dag í hjarta sínu — og ef hann hefði verið lítill drengur, þá hugsa ég, að sagt hefði verið við hann eftir ræðuna, að það væri svartur blettur á tungunni á honum. En það má víst ekki segja við fullorðna menn og sízt af öllu hv. þm. og fyrrv. ráðh.

Við vitum það, að þau miklu áföll, sem þjóðin hefur orðið fyrir í útflutningsverzlun sinni, að útflutningsverðmætið hefur fallið úr yfir 6 milljörðum og það er núna á 3. milljarð minna að verðmæti, þetta hlýtur að koma út yfir alla þjóðina og þá auðvitað sjómenn sem aðra. Við verðum fyrst og fremst að gera nú harðar ráðstafanir til þess að halda uppi atvinnu í landinu, halda gangandi útflutningsatvinnuvegunum og ég hygg, að það sé miklu meira virði bæði fyrir sjómenn og verkamenn og alla launþega í þessu landi að halda uppi atvinnu, þó að lífskjörin versni, því að ekkert er verra við að glíma heldur en atvinnuleysi. Og það er víst nógu erfitt að sjá til þess, að vinna verði fyrir alla og ég hygg, að flestir sjómenn hugsi á þann veg, að þeir verði fyrst og fremst að hafa vinnu og það sé hætta að starfrækja atvinnufyrirtækin og það er það, sem mest veltur nú á, hvað sem stjórnmálaskoðunum manna líður.

Ég vil aðeins víkja að einu atriði í ræðu hv. þm. og það var það, sem hann sagði um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Hann sagði, að útflutningsgjöldin rynnu til vafasamrar starfsemi, og hann lýsti því síðar yfir í ræðu sinni, að hann vildi algerlega hverfa frá og fella niður útflutningsgjaldið. Ég vil líka í þessu sambandi minna hv. þm. á það, að þegar hann réði þessum málum, voru vátryggingaiðgjöld fiskiskipa greidd á svipaðan hátt og nú og þá komu einnig framlög í Fiskveiðasjóð og Hlutatryggingarsjóð og aðrar greiðslur sambærilegar við greiðslur af útflutningsgjaldi eins og það er nú. Og ég hygg, að það sé enginn ágreiningur um það innan útvegsins, að útflutningsgjaldið eigi að taka með þessum hætti og standa undir þeim greiðslum, sem það gerir ráð fyrir, en eins og hv. þm. vita, er nú gert ráð fyrir því, að 80% af því fari til greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa og 12.7% til Fiskveiðasjóðs og í aðra starfsemi fari svo um 7.3%. Hitt er alveg rétt, sem hv. þm. benti á, að það þarf að lagfæra þessi mál og greiðslu vátryggingariðgjaldanna og það er ekki hægt sífellt að stefna að því í þessum málum, að iðgjaldaprósentan hækki vegna þess, hvað tjónareynslan er bágborin á íslenzkum fiskiskipum, heldur verður auðvitað að fara í ríkari mæli að taka tjónafrádrátt upp og hverfa frá þessum sífelldu hækkunum, sem verið hafa á undanförnum árum á vátryggingariðgjöldum. Þar er ég honum alveg sammála, en ég mundi telja það þungt áfall fyrir útveginn, ef það ætti að hverfa algerlega frá þessari stefnu og trúi því ekki, að þessi hv. þm. meini það, því að hann sagði, að það ætti að leysa þetta eftir öðrum leiðum, en hann kom ekki með neina skýringu á því, eftir hvaða leiðum ætti að leysa það. Vátryggingar eru samhjálp og það er eðlilegt, að úr sameiginlegum sjóði útvegsins sé greitt til vátrygginganna að vissu marki. Það er ekki samhjálp að öllu leyti. Það er auðvitað alger samhjálp hvað snertir algjört tjón, en það á að vera takmörkuð samhjálp hvað snertir hlutatjónin og þar vil ég segja, að skoðanir okkar fara að verulegu leyti saman.

Eins og ég tók fram í upphafi, ætla ég ekki að ræða neitt ítarlega þetta frv. hér við þessa umræðu, en vil aðeins árétta það, sem ég sagði í byrjun, að ég vonast til, að hv. sjútvn. taki þessa ábendingu mína til athugunar og afgreiðslu.