26.03.1969
Sameinað þing: 37. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (3321)

136. mál, stórvirkjanir og hagnýting raforku

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Við umr. þessa máls fyrir hálfum mánuði síðan flutti hæstv. orkumálarh. allýtarlega ræðu og vék þar að ýmsum atriðum, sem höfðu komið fram í framsöguræðu minni. Ég sé, að hæstv. ráðh. er ekki viðstaddur nú, en ég tel samt rétt að víkja nokkrum orðum að því, sem kom fram í ræðu hans og þó einkum að því, sem vék að rannsóknum á orkuvirkjunum, en eins og fram kemur í þessari till., er það aðalefni hennar, að Alþ. kjósi 7 manna n., sem hefur það verkefni að kynna sér möguleika til að hraða stórvirkjunum vatns– og hitaorku, stofnun orkufreks iðnaðar og aukinni notkun raforku til hitunar o.fl. N. skal skila skýrslu til Alþ. svo tímanlega, að hægt verði að ræða hana á næsta þingi.

Í framsöguræðu minni vék ég að því, að allmikill seinagangur hefði verið á rannsóknum á orkuvirkjunum hin síðari ár eða síðan lauk undirbúningi að Búrfellsvirkjun. Ráðh. vildi ekki kannast við þetta í þeirri svarræðu, sem hann flutti hér og nefndi m.a. nokkrar tölur, sem áttu að vera sönnun af hans hálfu um það, að nægilegur hraði væri á þessum rannsóknum. Ráðh. nefndi m.a. þá tölu, að þrefalt hærri upphæð hefði farið til orkurannsókna á árunum 1960–1968 en á árunum 1955–1959. Ég hef ekki haft aðstöðu til að sannprófa þessar tölur hæstv. ráðh., enda skiptir það engu meginmáli, þegar nánar er að gætt, vegna þess að þetta hnekkir ekki að neinu leyti því, sem ég hafði haldið fram. Ástæðan til þess, að fjárveiting er þetta miklu hærri síðari árin, stafar af því, að þá er unnið sérstaklega að undirbúningi rannsókna í sambandi við Búrfellsvirkjun og kostað miklu fé til þess og þess vegna verður meðaltalið fyrir öll árin jafnhátt og raun ber merki um. Eftir að lokið var rannsóknum í sambandi við Búrfellsvirkjun, dró hins vegar mjög úr öllum athugunum eða rannsóknum á orkuvirkjunum og þess vegna hefur svo farið síðustu árin, 1967 –68, tvö undanfarin ár, að framlög til orkurannsókna hafa orðið mun minni en á tímabilinu þar á undan, sem stafar af því, eins og fram hefur komið hjá forráðamönnum Orkustofnunarinnar, að fjárveitingin hefur verið nokkuð hin sama þessi ár og áður var, en hins vegar hefur verðgildi peninga farið mjög minnkandi á þessum tíma. Þess vegna hefur raunverulega dregið úr orkurannsóknunum, þó að framlagið sé sama í krónutölu. Ég tel, að þetta nægi til að sýna, að þær tölur, sem ráðh. nefndi, hnekkja ekki neitt þeirri fullyrðingu, sem ég viðhafði í minni ræðu, að dregið hefði úr orkurannsóknum og fjárveitingu til orkurannsókna hin síðari ár, en mér finnst rétt í tilefni af því, sem ráðh. sagði, að rifja upp, hvernig ástatt var í þessum málum, þegar ég ásamt meðflm. lagði þessa till. fram á hæstv. Alþ.

Þá var í fyrsta lagi þannig ástatt, að það lágu fyrir upplýsingar um það frá sérfræðingum Orkustofnunarinnar, að á s.l. sumri hefðu allar útirannsóknir fallið niður á Þjórsársvæðinu, en útirannsóknirnar eru að sjálfsögðu undirstaða allra annarra rannsókna. Þetta stafaði af því, hve naum fjárveitingin var til orkurannsókna á árinu 1968.

Í öðru lagi lá það fyrir, að þegar gengið var frá fjárl. á fyrri hl. þessa þings, þá lágu fyrir till. eða óskir frá Orkustofnuninni um ákveðna fjárveitingu til orkurannsókna, en þær till. fengust ekki teknar inn á fjárl. Þess vegna blasti ekki annað við en orkurannsóknir mundu enn dragast saman á þessu ári, vegna þess að sú fjárveiting, sem var fyrir í fjárl., var ekki hærri en sú, sem hafði verið fyrir árið áður.

Í þriðja lagi lá það svo fyrir, að einn færasti blaðamaður Morgunblaðsins, Elín Pálmadóttir, hafði birt í Morgunblaðinu 23. jan. s.l. viðtal við forstöðumenn Orkustofnunarinnar, þar sem fram kom, að þeir töldu málið vera þannig komið í þessum efnum, að rannsóknir í sambandi við Þjórsársvæðið væru komnar í algjört tímahrak, vegna þess hve mikið hefði dregið úr þeim á undanförnum árum og allar horfur yrðu á, að svo yrði til frambúðar, nema því aðeins, að aukin fjárveiting fengist til þessara rannsókna, sem ekki lá neitt fyrir um þá.

Ég taldi, þegar þetta lá fyrir, ærna ástæðu til þess að málinu yrði hreyft hér á Alþ. og gerðar ráðstafanir til þess, að lagt yrði aukið kapp á að hraða framkvæmdum í þessum efnum og jafnframt yrði það einnig tekið til athugunar, hvaða möguleikar yrðu á því að koma hér upp orkufrekum iðnaði, sem mundi stuðla að því, að orkuvirkjanir yrðu framkvæmanlegri en ella. Það hefur svo síðan gerzt, eins og vikið var að í umr. á dögunum, að nokkru eftir að þessi till. var flutt hér á Alþ., skipaði ríkisstj. samstarfsn. nokkurra ríkisstofnana, sem vinna að þessum málum, til að samræma þeirra aðgerðir í þessum efnum.

Ég tel, að þetta sé spor í rétta átt og þarna hafi farið að vissu leyti saman þær hugmyndir, sem við flm. reifum í till. og svo það, sem ríkisstj. er að gera. Ég tel það hins vegar galla á þessu, að Alþ. á engan aðila að þessari n., en eins og kom fram í umr., sem fóru fram í gær, í ræðu sem hæstv. iðnrh. flutti, þá er það mikilsvert, að Alþ. fylgist sem bezt með í þessum málum og hafi aðstöðu til þess að láta sinn vilja koma sem bezt í ljós, ekki aðeins með samþykktum hér á þinginu sjálfu, heldur á þann hátt, að fulltrúar þess geti fylgzt með því, sem verið er að vinna að í þessum efnum, það sem verið er að rannsaka og það verður tvímælalaust bezt gert með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í þessari till., að Alþ. skipi sérstaka n., sem vinni að því í samráði við ríkisstj. að hraða framkvæmdum þessara rannsókna, svo sem framast er hægt.

Það hefur einnig gerzt í öðru lagi síðan þessi till. var flutt, sem er sérstök ástæða til að lýsa ánægju yfir, að ákveðið mun vera a.m.k. af hálfu Landsvirkjunarinnar að veita nokkuð ríflegar fé til orkurannsókna á þessu ári, en áður hafði verið ráð fyrir gert, en ég verð samt að segja, að þær fyrirætlanir, sem munu vera ákveðnar í þessum efnum, eru ekki fullnægjandi að mínum dómi, því að þessar rannsóknir eiga fyrst og fremst að ná til Þjórsársvæðisins eða vera í sambandi við hina fyrirhuguðu virkjun, sem á að koma við Sigöldu og svo síðar í sambandi við framhaldsvirkjun Sogsins, en hins vegar mun ekki gert ráð fyrir því að auka neitt rannsóknir á orkuskilyrðum í öðrum landshlutum, eins og t.d. á Norðurlandi og Austurlandi, þar sem líka eru mjög góð virkjunarskilyrði fyrir hendi. Ég tel þess vegna, að það þyrfti að taka þessi mál enn til nýrrar endurskoðunar og koma því fram, að sæmilegar orkurannsóknir geti einnig farið fram í öðrum landshlutum samtímis því, sem unnið er að athugun á orkuskilyrðum á Þjórsársvæðinu.

Ég vænti þess, að sú n., sem fær mál þetta til athugunar, taki það sérstaklega til meðferðar, því að eins og fram kom í þeirri ræðu, sem forstjóri Orkustofnunarinnar flutti í Vísindafélagi Íslands á s.l. hausti, er það orðið mjög aðkallandi, að þessum rannsóknum sé hraðað um landið allt, ekki eingöngu hér sunnanlands, því ef það dregst á langinn að rannsaka orkuskilyrðin eða orkumöguleikana í öðrum landshlutum, gæti framvinda þessara mála orðið sú, að þessir landshlutar yrðu alveg út undan, því að hæglega getur farið þannig, ef tækninni fleygir fram, eins og nú eru horfur á, að kjarnorkan verði komin til sögunnar innan 20–30 ára, þannig að vatnsvirkjanir verði ekki lengur taldar eiga rétt á sér hvað kostnað snertir. Ef þess vegna verður ekki búið að vinna að framkvæmd þeirra mála eða þeirra virkjana fyrir þann tíma, gæti farið svo, að þessar framkvæmdir dagaði alveg uppi. Þetta kom mjög greinilega fram í umr., sem urðu hér í gær í sambandi við frv. um nýtt lán til Landsvirkjunar eða Búrfellsvirkjunar og ég tel ekki ástæðu til þess að endurtaka það, heldur aðeins árétta það, sem fram kom um þetta efni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð öllu fleiri að sinni. Ég hefði gjarnan viljað víkja að fleiri afriðum, sem komu fram í ræðu hæstv. iðnrh., en vegna þess að hann er ekki viðstaddur og ég hef áhuga á því, að málið komist sem fyrst til n., mun ég láta máli mínu lokið, en ég legg til, — ég mun áður hafa gert það, — að till. minni verði vísað til fjvn. að lokinni þessari umr.