23.10.1968
Sameinað þing: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í D-deild Alþingistíðinda. (3544)

17. mál, íbúðarhúsabyggingar í Breiðholtshverfi

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. varpaði fram tveimur spurningum, sem ég tel rétt að reyna að gera nokkur skil, eftir því sem kostur er.

Í fyrsta lagi spurði hann: Er búið að ráðstafa íbúðum í þessum fyrsta áfanga? Því er til að svara, að búið er að ráðstafa öllum íbúðunum, nema hluta Reykjavíkurborgar, en hún hyggst leigja þessar íbúðir sínar eftir því sem ég kemst næst.

Þá sagði þm., að sig undraði nokkuð hið lága framlag sem íbúðarkaupendur hefðu lagt þarna fram, eða hve lítill hluti þeirra væri í heildarkostnaðinum.

Sannleikurinn er sá, að þegar umrætt júní samkomulag var gert og endurnýjað ári síðar, var því lofað að, að því skyldi stefnt, að veitt yrðu allt að 80% lán og íbúðarkaupendunum gæfist kostur á að borga sinn hluta, þ.e. 20%, á þremur árum, þannig að þeim yrði úthlutað það vel fyrirfram, að menn yrðu a.m.k. búnir að borga allt að 10%, áður en þeir flyttu inn í íbúðirnar, þ.e.a.s. helminginn af þeirra stofnframlagi. Við þetta hefur verið reynt að standa. Það er einnig rétt hjá hv. þm., að þetta eru mjög óvenjuleg kjör, óvenjulega góð kjör. Þessi kjör eru fyrst og fremst hugsuð fyrir þá, sem með öðrum hætti ættu þess engan kost að eignast eigið húsnæði og ráðstöfun þeirrar n., sem tilnefnd var af stærstu verkalýðsfélögunum til að útdeila þessum íbúðum, hefur ekki, svo mér sé kunnugt um, verið gagnrýnd opinberlega, þannig að það er nokkuð ljóst, að n. hefur ratað þann rétta veg, sem að baki lagabreytingunum stóð, að láta þá aðila sitja fyrir, sem erfiðastar aðstæður höfðu og með öðrum hætti áttu þess engan kost að komast yfir eigið húsnæði. Það var, eins og ég áðan sagði, eitt af loforðunum.

Þá sagði þm. að lokum, að ljóst væri, að þarna væri um allverulega mismunun að ræða milli lántakenda hjá Byggingarsjóði ríkisins. Þetta er alveg rétt og kemur til af fyrrgreindum sökum. Menn hafa mjög misjafnar ástæður. Þó að alla hlutaðeigandi vanti að sjálfsögðu sárlega húsnæði, þá hafa menn mismunandi ástæður til að standa undir þeim, bæði hvað tekjur og fjölskyldustærð snertir. Það var að því stefnt og er ennþá full meining að færa þessa byggingaráætlun með sömu kjörum út um landsbyggðina. Fyrir því var opnuð heimild í þeim lagabreytingum, sem fóru í kjölfar þessa samkomulags. Hins vegar var talið rétt að gera þessa fyrstu tilraun í þéttbýlinu, þar sem húsnæðisskorturinn var allra sárastur og gæti sem fyrst komið að notum. Nú má segja, að það sé komin sú reynsla, sem óhætt muni að byggja á um útfærslu þessarar byggingaráætlunar víðar um landið. En það er jafnframt alveg ljóst, bæði hvað framhaldsframkvæmdir í Reykjavík og annars staðar úti á landi snertir ásamt almennum lánum, að hér verða að koma til nýir tekjustofnar, ef á að svara þeirri eftirspurn, sem er eftir íbúðarhúsnæði í landinu. Þessu var lofað í yfirlýsingu ríkisstj. við síðustu samningagerð verkalýðsfélaganna að, að skyldi unnið og ég vona, að það, ásamt erfiðleikunum í hinum almennu lánum, verði jafnframt tekið til endurskoðunar og athugunar í sambandi við nýja tekjustofna, en það er ljóst, að á þeim þarf að halda, ef þarna á að svara til.

Hv. 11. þm. Reykv. sagði áðan, ítrekaði það aftur, að slælega hefði verið á haldið í þessum efnum. Ég held, að við loforðin um 750 lán og loforðin um lánakjörin til Breiðholtsframkvæmdanna hafi verið fyllilega staðið og það svo vel, að það hefur verið farið hátt á þriðja hundrað lán yfir hina lofuðu tölu a.m.k. eitt árið frá því að samkomulagið var gert og ég hygg, að ríkisstj. geti kinnroðalaust talið sig hafa staðið við það samkomulag.

Um tekjuöflunina var hins vegar öllum ljóst, að það þyrfti meira, þegar launaskatturinn var ákveðinn og hækkunin á skyldusparnaðinum, en það þótti ekki fært þá, þrátt fyrir það góðæri, sem þá ríkti, að leggja á atvinnuvegina eða atvinnurekendur meiri gjöld og verkalýðssamtökin voru heldur ekki undir það búin að taka á sig gjöld, eins og fram kom í þessum umræðum. Ég tel rétt að upplýsa það nú, að það kom mjög fram í þessum umræðum að hafa launaskattinn ekki 1%, heldur 2% og þá var einnig um það rætt, að launþegar tækju á sig eitthvert hlutfall af þessum 2%. Hefði það verið gert, er alveg augljóst, að engin biðröð væri nú í hinum almennu lánum. En þegar fast er deilt á ríkisstj. fyrir það, að biðraðir hafi aukizt í hinum almennu lánum, kemst ég ekki hjá að minna á, að ég hafði hér um 8 ára bil nokkur afskipti af útdeilingu lána í húsnæðismálastjórn og þá komst biðtíminn upp í 5—6 ár. Ég heyrði þá ekki frá þessum hv. þm., að nokkur þörf væri á auknu fjármagni, þó að þeir stjórnuðu þessum málum.