20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í D-deild Alþingistíðinda. (3641)

54. mál, sjónvarpsmál

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. hefur gert mjög glögga grein fyrir því, hvað líður byggingu endurvarpsstöðva sjónvarps á þessu ári. Hann gerði grein fyrir því, að á fjórum stöðum á Vestfjörðum yrðu komnar upp endurvarpsstöðvar eftir næstu áramót, þ.e. á Bæjum í Ísafjarðardjúpi, Arnarnesi við Skutulsfjörð, Bolungarvík og Patreksfirði. Hann gat þess jafnframt eða ég tók svo eftir, að á árinu 1969 mundi verða byggð endurvarpsstöð á Blönduósi, sem endurvarpaði til Strandasýslu og þá yrði byggð önnur minni stöð á Hólmavík. Einnig nefndi hann, að síðar, — ég tók ekki eftir hvort hann sagði 1970 eða 1971 — mundu koma stöðvar í Arnarfirði, Tálknafirði og í Súðavík. Ég vil í þessu tilefni lýsa þeirri skoðun minni, að mér finnst, að það hafi tekizt mjög vel til um dreifingu sjónvarps, hvað snertir Vestfirði, jafnvel betur en ég gerði mér vonir um og ég hygg, að svo sé um marga Vestfirðinga, að þeir séu síður en svo vonsviknir um framkvæmdir þessa máls. Aftur á móti langar mig til að spyrja hæstv. ráðh., ef hann hefur tök á að svara því hér að þessu sinni, hvað sé um Dýrafjörð, Önundarfjörð og Súgandafjörð, sem hann nefndi ekki, hvort þeir verði útilokaðir lengi frá því að fá sjónvarp. Það skiptir auðvitað alveg jafnmiklu máli fyrir þessi byggðarlög og hin, sem hann nefndi. Og þá langar mig líka til að fá að vita hjá hæstv. ráðh., hvort það hafi komið fyrir, að einstökum byggðarlögum hafi verið heimilað að byggja sjálf endurvarpsstöð fyrir sig og á sinn kostnað í bili, sem vilja hraða þessu sérstaklega, en væntanlega gegn endurgreiðslu síðar frá sjónvarpinu. Um þetta var ég sérstaklega spurður í símtali nýlega, hvað snertir Súðavík, því að dreifistöðin, sem verið er að byggja á Arnarnesi, nær ekki til Súðavíkur þó að hún sé þar rétt hjá. Ég taldi rétt, þegar oddvitinn talaði um þetta við mig, að hann biði svolítið með að gera sérstakar ráðstafanir í þessu efni, þangað til hann vissi meira um þetta. En hann taldi sig hafa einhverjar upplýsingar um það, að einhver byggðarlög hefðu fengið leyfi til þess að byggja sjálf endurvarpsstöðvar til þess að fullnægja sínum þörfum.

Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði, að á þessu ári mundi sjónvarpstækjum fjölga um 25 þús. eða mér heyrðist hann segja það. Er þetta ekki einhver misskilningur? Er það ekki svo, að þau verði orðin 25 þús.? Ef þetta er svo, að þeim fjölgi á einu ári um 25 þús., þá fer notkun sjónvarpsins langt fram úr þeim áætlunum, sem gerðar voru í upphafi.

Þá nefndi hann líka, að það hefði verið stefna hæstv. ríkisstj. fram að þessu að láta dreifingu sjónvarps ganga á undan lengingu dagskrár. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessari ákvörðun hennar og ég held, að ekkert liggi á að lengja dagskrá sjónvarpsins og vil ég mjög taka undir það, að þessari stefnu verði fylgt fyrst um sinn, því að dagskrá sjónvarpsins er alveg nógu löng að mínum dómi, eins og hún er. Hitt er miklu meira aðkallandi.