04.12.1968
Sameinað þing: 17. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í D-deild Alþingistíðinda. (3702)

80. mál, Vestfjarðaáætlun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þessi fsp. er í allmörgum liðum og einnig tel ég rétt að gefa örlitið almennt yfirlit yfir Vestfjarðaáætlun, hvað að henni hefur verið unnið og hvernig hún er til komin, enda þótt ljóst væri af ræðu hv. fyrirspyrjanda, að honum var þetta í rauninni allt saman mæta vel ljóst.

Vestfjarðaáætlun er upphaflega þannig til komin, að það var gerð ályktun á Alþ. 1963, þar sem Framkvæmdabanka Íslands var falið að vinna að framkvæmdaáætlun fyrir Vestfirði, sem átti að miðast við að stöðva brottflutning fólks úr þeim landshluta. Hér var þá engin reynsla af gerð slíkra áætlana og því sneri Framkvæmdabankinn sér í samráði við Efnahagsstofnun og Seðlabanka Íslands til byggingarsjóðsins norska, „Distrikternes utbygningsfond“, með beiðni um aðstoð við lausn þessa verkefnis. Hinn norski sjóður varð góðfúslega við þessum tilmælum, en gat ekki vegna anna heima fyrir og takmarkaðs starfsliðs sent menn hingað til lands nema til stuttrar dvalar. Þrír sérfræðingar frá sjóðnum komu hingað tvívegis á árinu 1964 og sömuleiðis sérfræðingar í samgöngumálum, er áður höfðu starfað hér á landi, frá annarri norskri stofnun, „Transportökonomisk Institut“. Allur kostnaður við ferðir og dvöl hinna norsku sérfræðinga var greiddur af Efnahags– og framfarastofnuninni í París.

Það kom í ljós þegar í upphafi þeirra athugana, sem fram fóru á Vestfjörðum, að orsaka fólksfækkunar í þessum landshluta var fyrst og fremst að leita í einhæfni atvinnulífsins og skorti á margs konar þjónustu og almennum lífsþægindum, sem álitin eru nauðsynleg í nútímaþjóðfélagi. Hins vegar reyndust tekjur manna á Vestfjörðum sízt lægri, en í öðrum landshlutum. Það var skoðun hinna norsku sérfræðinga og íslenzkra samstarfsmanna þeirra, að frumskilyrði til að draga úr einhæfni atvinnulífsins og skorti á þjónustu væru endurbættar samgöngur, annars vegar umbætur á samgöngum innan Vestfjarða og á fyrst og fremst við tvo aðalkjarna byggðarinnar, Ísafjörð og Patreksfjörð og hins vegar samgangna milli Vestfjarða og annarra landshluta. Það var því ákveðið að hraða gerð samgönguáætlunarinnar sem mest og láta hana sitja í fyrirrúmi. Slík áætlun var gerð til fjögurra ára, og var hún ásamt grg. um hana tilbúin snemma á árinu 1965. Erlends lánsfjár var aflað til framkvæmda þessarar áætlunar fyrir milligöngu viðreisnarsjóðs Evrópu í „Strasbourg“. Áætlunin kom til framkvæmda á árinu 1965. Hún hefur verið endurskoðuð árlega og viðbótarlánsfjár aflað til hennar erlendis.

Að öðru leyti gengu hinir norsku sérfræðingar frá heildartill. sínum í maí 1965 og lá skýrsla þeirra fyrir í íslenzkri þýðingu síðar á því sama ári. En eins og hv. þm. sagði, var hér fyrst og fremst um rammaáætlun að ræða og nákvæm útfærsla var eingöngu hvað snerti samgöngumálahlið áætlunarinnar. Það ár, sem nú er senn lokið, er fjórða ár samgangnaáætlunar Vestfjarða og hefði samkvæmt upphaflegu áætluninni átt að vera lokaár hennar. Enda þótt framkvæmdum hafi yfirleitt miðað vel áfram, hafa verkin þó, eins og oft vill verða, reynzt erfiðari og dýrari en upphaflega hafði verið búizt við. Varð þetta til þess, að ákveðið var að framkvæma áætlunina á 5 árum í stað fjögurra og eins og ég áðan vék að, reyndist hér um nokkru meiri kostnað að ræða en gert hafði verið ráð fyrir, sem ekki var óeðlilegt, eins og þróunin hefur verið. Hefur nú fengizt vilyrði fyrir því hjá viðreisnarsjóðnum, að bætt verði við lánið sem svarar 500 þús. dollurum til þess að ljúka þessum framkvæmdum.

Í viðbót við þetta kom til, að af tæknilegum ástæðum þurfti að gera ýmsar breytingar frá því, sem upphaflega hafði verið gert ráð fyrir, m.a. er ekki gert ráð fyrir að gera göng undir Breiðadalsheiði, en í þess stað að hækka og breikka og breyta veginum, sem yfir heiðina liggur. Einnig hefur verið ákveðið, að malbikun Ísafjarðarflugvallar verði ekki framkvæmd að svo stöddu.

Auk erfiðleika við sjálf verkin hefur það einnig tafið framkvæmd Vestfjarðaáætlunarinnar, að ekki hefur reynzt unnt að afla eins mikils fjár innanlands og upphaflega var gert ráð fyrir. Erlenda lánsfjáröflunin mun hins vegar verða að sama skapi meiri, eins og ég gat um. Heildarútgjöld vegna Vestfjarðaáætlunar eru nú áætluð 202 millj. kr. á 5 árum. Það er miðað við verðlag fyrir gengisbreytingu. Upphaflega áætlunin var 172 millj. á 4 árum. Af þessari upphæð er gert ráð fyrir, að 80 millj. kr. verði aflað innanlands, en 122 millj. kr. með erlendu lánsfé.

Framkvæmdum er lokið eða að heita má lokið við hafnargerðirnar á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Súðavík. Framkvæmdir við Bolungarvíkurhöfn eru komnar allvel áleiðis, en í ár hafði verið gert ráð fyrir að vinna í Ísafjarðarhöfn. Það kom hins vegar til breyting á því, vegna þess að óumflýjanlegt reyndist að vinna við Bolungarvíkurhöfn sökum sandburðar inn í höfnina, sem gerði ófært að fresta því verki, þannig að þessum tveimur verkum var víxlað til, þannig að Bolungarvíkurhöfn kemur á undan, en Ísafjarðarhöfn verður að sjálfsögðu næsta verkefni.

Um vegaframkvæmdirnar er það að segja, að Bíldudalsvegi og flugvallarvegum við Patreksfjörð og Ísafjörð er að fullu lokið. Vestfjarðavegur sunnan Þingmannaheiðar og um Breiðadalsheiði er langt kominn og Súgandafjarðarvegur og Bolungarvíkurvegur komnir vel áleiðis. Á næsta ári er ráðgert að ljúka þessum vegum og enn fremur að leggja Vestfjarðaveg um Gemlufallsheiði.

Framkvæmdum við flugvellina á Patreksfirði og Ísafirði var að mestu lokið á fyrstu árum áætlunarinnar, en flugskýli við Ísafjarðarflugvöll er enn í byggingu. Þá hafa einnig verið sett upp flugöryggistæki á Breiðadalsheiði.

Það má því segja, að samgöngulið þessarar Vestfjarðaáætlunar sé mjög langt komið og hafi gengið svo sem efni stóðu til og sjá megi fyrir endann á þessum þýðingarmiklu framkvæmdum á Vestfjörðum, sem að dómi hinna norsku sérfræðinga voru grundvallaratriði til eflingar byggða í þessum fjórðungi. Þá var það annað höfuðatriðið, sem hinir norsku sérfræðingar lögðu áherzlu á, til þess að um gæti verið að ræða raunhæfan árangur af byggðaáætlunum yfirleitt, og það var, að stofnaður yrði sérstakur framkvæmdasjóður með sérstakri stjórn. Í þeirra till. var að sjálfsögðu, eins og hv. þm. vék að fyrst og fremst miðað við Vestfirði, en niðurstaðan varð sú, eins og hv. þm. er kunnugt, og hlaut í rauninni að verða sú, að stofnaður yrði sjóður, sem hefði þetta verkefni með höndum varðandi landsbyggðina almennt, en þessu var hrundið í framkvæmd með stofnun Atvinnujöfnunarsjóðs, þannig að því máli hefur verið komið í höfn, sem að sjálfsögðu varðar bæði Vestfirði og aðrar byggðir landsins. Sá sjóður var stofnaður á árinu 1966.

Ég tel, að það, sem ég hef sagt, geti verið svar við 1. spurningu, þar sem talað er um, hvaða þáttum Vestfjarðaáætlunar sé að fullu lokið.

„Hefur verið gerð áætlun um samgöngumál Vestfjarða, þar með taldar samgöngur á sjó?“ Þannig hljóðar 3. fsp.

Ef átt er með þessu við skipaútgerð í sambandi við Vestfirði og staðsetningu skipa þar, þá hefur áætlun um það efni ekki verið gerð sérstaklega, nema að því leyti sem það fellur inn í verkefni Skipaútgerðar ríkisins og endurskipulagningu þeirra mála yfir höfuð.

Varðandi annað atriðið, áætlanagerð um uppbyggingu atvinnulífs á Vestfjörðum, skal tekið fram, að nánari útfærsla á þeim köflum áætlunar norsku sérfræðinganna hefur ekki átt sér stað enn þá. Það var gerð lausleg athugun á þessum viðfangsefnum og fyrst og fremst bent á, eftir hvaða línum þyrfti að vinna að þeim og framkvæmd þeirra með stofnun þeirrar sérstöku áætlunarnefndar, sem hv. þm. vék að og framkvæmdasjóði, sem gæti þá hrundið í framkvæmd slíkum áætlunum. Að öðru leyti hefði litla þýðingu að vinna að þeim, en hins vegar vildi svo til, að á árinu 1966, — en þá hafði samgöngumálaáætlun Vestfjarða fyrir nokkru verið hrundið í framkvæmd, eins og ég gat um, og tryggt fé til hennar, — þá horfði þannig í landinu, að ljóst var talið, að erfiðust atvinnuaðstaða væri á Norðurlandi. Þá var hafizt handa um byggðaáætlun fyrir Norðurland vegna þessara sérstaklega alvarlegu atvinnuhátta þar, sem ég hygg, að hafi enginn ágreiningur verið um. Um það leyti var ekki um atvinnuörðugleika að ræða á Vestfjörðum né heldur á Austfjörðum, þannig að um það var enginn ágreiningur, að þarna væri sá landshluti, sem brýnast væri að sinna atvinnulega séð, eins og sakir stóðu. Þetta var einnig þáttur í samningum við stéttarfélögin á Norðurlandi og Austurlandi, að þessi áætlun yrði gerð. Í þessari áætlun er Strandasýsla tekin með og getur það þá verið svar við þeirri fsp., hvort Vestfjarðaáætlunin nái til Strandasýslu. Hún nær ekki til hennar, heldur er hún tekin með Norðurlandi og kemur innan ramma Norðurlandsáætlunar.

Þetta er fyrsta áætlunin, sem unnið er að hér á landi af innlendum sérfræðingum fyrst og fremst og er fyrsta áætlunin, þar sem gert er ráð fyrir, að atvinnumálin verði sérstaklega tekin til meðferðar. Hefur verið lögð á þau höfuð áherzla í þeirri áætlunargerð. Hún er hins vegar ekki á dagskrá og mun ég ekki frekar víkja að henni.

Ég geri ráð fyrir því, að áhugi hefði verið fyrir, enda hefur því máli verið hreyft af talsmönnum bæði Vestfirðinga og Austfirðinga, m.a. innan atvinnujöfnunarsjóðsstjórnarinnar, en lögum samkv. heyra áætlunargerðir undir stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, — að nauðsynlegt væri að halda áfram að vinna að Vestfjarðaáætlun, atvinnumálaáætlun Vestfjarða og Austfjarðaáætlun. Það er hins vegar þannig ástatt, að starfskraftar til þessara áætlanagerða eru mjög takmarkaðir hér á landi og það er auðvitað mikil nauðsyn, að reynt verði að ljúka einhverri áætlun af þessu tagi, m.a. til þess að gera sér grein fyrir, hvernig áætlunargerð um önnur byggðarlög verði unnin. Það er miklu einfaldara mál og auðveldara, eftir að ein áætlun af þessu tagi hefur verið gerð.

Nú má sjá fyrir endann á gerð Norðurlandsáætlunar og þá tel ég ekkert efamál, að það komi á dagskrá að vinna að áætlunum fyrir aðra landshluta, ekki sízt vegna þess, að nú er svo komið, eins og hv. þm. sagði, að vissulega er við mikil atvinnuvandamál að stríða, bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum. Austfirðingar hafa sjálfir haft vissa forgöngu um áætlunargerð hjá sér á sviði atvinnumála og ráðið til þess starfsmann og rétt er, að á Vestfjörðum er við að stríða atvinnuörðugleika, sem ekki var um að ræða, þegar hafizt var handa um gerð Norðurlandsáætlunar, heldur var miklu fremur við þann vanda að stríða á Vestfjörðum, að þar vantaði fólk. Og í sambandi við umsóknir af Vestfjörðum til Atvinnujöfnunarsjóðs til atvinnuuppbyggingar í sjávarútvegi allt fram til síðasta árs hefur sérstaklega verið að því vikið, að nauðsynlegt væri að tæknivæða meira hraðfrystihús þar og aðrar vinnslustöðvar, vegna þess að þar væri fólksskortur. En vitanlega koma þessi viðfangsefni á dagskrá aftur vegna ríkjandi ástands og hljóta að verða tekin til athugunar strax og Norðurlandsáætlun liggur fyrir.

Um menntamál á Vestfjörðum hefur ekki verið gerð sérstök áætlun og í rauninni er ekki heldur gert ráð fyrir því, að sérstök áætlun um það verði innifalin í Norðurlandsáætlun af þeirri einföldu ástæðu, að unnið hefur verið að því um nokkurt skeið af hálfu menntamálayfirvalda og menntmrn. og trúnaðarmanna þess í samvinnu við erlenda sérfræðinga um það efni að gera almenna hagræna áætlun um þróun skólamála í öllu landinu. Er því ástæðulaust að vera að gera sérstakar áætlanir um þetta atriði varðandi einstaka landshluta a.m.k. ekki fyrr en séð er fyrir endann á þessari heildaráætlunargerð, hvort hún rúmar ekki þau hagsmunamál þessara landshluta, sem eru á þessu sviði.

Það er þá, held ég, ekki nema eitt atriði, sem ég á ósvarað í þessari fsp., en það er um það, hvort gerð hafi verið sérstök áætlun um raforkumál og hvenær megi búast við, að raforka verði komin til allra sveitabýla á Vestfjörðum?

Það hefur ekki verið gerð sérstök áætlun um raforkumál á Vestfjörðum umfram það, sem felst í almennum áætlunargerðum um rafvæðingu landsins yfirleitt og um dreifingu raforku til strjálbýlisins. Um þetta var á sínum tíma gerð svo kölluð 10 ára framkvæmdaáætlun. Eftir að henni lauk hefur verið unnið eftir áætlunum, sem gerðar hafa verið til styttri tíma og ákvörðun hefur verið tekin um það fyrir nokkru síðan, að stefnt yrði að því svo skjótt sem auðið væri, og í rauninni hefur verið áformað að reyna að ljúka því á árinu 1970, að leggja rafmagn til allra býla á landinu, þar sem meðalfjarlægð milli býla væri innan við 11/2 km. Ég sé ekki ástæðu til þess í þessari fsp., nema tilefni gefist, að fara að gera grein almennt fyrir þessari áætlun, en það er ekki auðið, hvorki í sambandi við Vestfirði né önnur byggðarlög á landinu, að svara því nákvæmlega, hvenær öll býli í þessum landshluta eða öðrum landshlutum hafa verið rafvædd. Jafnhliða því, að dreifiveitur eru lagðar, er gert ráð fyrir því, að allstór fjöldi býla geti ekki fengið raforku frá samveitum, heldur þurfi að fá raforku frá sérstökum dísilstöðvum, annaðhvort fyrir eitt eða fleiri býli.

Framkvæmdum í þessu efni hefur fleygt mjög áfram síðustu árin. Menn hafa að vísu beðið með það í von um að fá raforku frá samveitum, en eftir að ljóst var orðið, að það mundi ekki vera með neinu móti hægt varðandi allmikinn fjölda býla, þá hafa þessir bændur orðið sér í vaxandi mæli úti um dísilstöðvar og hafa lánveitingar úr orkusjóði til þeirra framkvæmda vaxið mjög síðustu 2 árin. Það má því tvímælalaust sjá fram á í náinni framtíð, að hægt sé að vænta þess, að öll byggileg sveitabýli á landinu hafi fengið raforku, annaðhvort frá sérdísilstöðvum eða samveitum. Ákvörðun hefur ekki enn verið tekin um það, hvort lagt verður til býla, sem eru á vegalengdinni 1.5 km og meira, kannske allt upp að 2 km, sem hefur verið rætt um oft og tíðum og verið á dagskrá. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða það hér, en um það hefur ekki verið tekin ákvörðun, enda er eftir að leggja til það margra býla, sem eru með meðalvegalengd upp að l.5 km á býli, að ekki er hægt að gera ráð fyrir, að auðið verði að leggja meira á árinu 1969 og 1970 en til býla, sem þannig er ástatt um.

Ég hef þá, held ég, svarað þessum fsp. í eins stuttu máli og hægt var. Það er auðvitað ótalmargt, sem upp kemur, þegar þessi mál eru rædd, en ég ætla ekki að fara út í þá sálma nema frekara tilefni gefist til.