12.02.1969
Sameinað þing: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í D-deild Alþingistíðinda. (3797)

274. mál, kæra á hendur forstöðumanni vinnuhælisins á Litla-Hrauni

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal að mestu leyti leiða hjá mér ræðu hv. fyrirspyrjanda, sem að minnstu leyti kom þessari fsp. við, en svara fsp., eins og ætlazt er til í fsp.–tíma. Hvað ráðuneytið hugsar sér að gera í fangelsismálum er ekki á dagskrá hér, en ég get aðeins af þessu gefna tilefni upplýst, að þau mál hafa verið til ítarlegrar athugunar á liðnu hausti innan rn., fjárveitingar til fangelsismálanna voru auknar við 3. umr. fjárl., eins og hv. þm. er kunnugt um, og ég hef undir höndum ítarlega áætlunargerð um aukningu fangelsisrýmis og væntanlegar aðgerðir í þeim efnum.

Ég mun ekki nota fsp.–tímann til þess að víkja að því. Það hefur margsinnis verið yfir því kvartað, að við ráðh. værum of langorðir um þessar fsp. og færum út í önnur mál. Ég mun ræða þau mál innan ríkisstj. og þegar ákvörðun innan hennar hefur verið tekin, sé ég ekkert því til fyrirstöðu í öðru sambandi að gera hv. Alþ. grein fyrir því.

Um fsp. vil ég segja þetta:

Forstöðumaður vinnuhælisins hefur ekki verið kærður. Hins vegar barst dómsmrn. með bréfi, dags. 20. marz 1968, kvörtun yfir framkomu og hegðun forstöðumannsins. Bréf þetta var undirritað af 6 af 17 starfsmönnum vinnuhælisins að Litla-Hrauni og einum fyrrverandi starfsmanni. Meðferð þessa kvörtunarbréfs og niðurstaða rn. er rakin í bréfi, dags. 13. des. 1968, sem sent var stjórnarnefnd vinnuhælisins, forstöðumanni hælisins og Magnúsi Péturssyni gæzlumanni fyrir hönd þeirra, er báru kvörtunina fram. Niðurstaða rn. og þar með ráðh. er sú, að ekki sé ástæða til frekari aðgerða vegna kvörtunarbréfsins frá 20. marz 1968.

Um 2. lið fsp., þar sem spurt er: „Er það álit fangelsisnefndar, sem skipuð var og falið að rannsaka þessi mál, að lausn þeirra sé fengin með því, að Sigurði Kristmundssyni, bryta vinnuhælisins, hafi verið sagt upp starfi án nokkurra viðhlítandi skýringa?“

Um þennan lið fsp. vil ég segja þetta:

Hæpið virðist að spyrja ráðh. um álit tiltekinna aðila með þeim hætti, sem hér er gert. Hv. alþm. gætu sennilega nálgazt slík viðhorf annarra aðila, eins og hér er spurt, með ekki minni varfærni en rn. og má vera, að eitthvað slíkt búi á bak við þennan fsp.–lið hv. þm. Engu að síður hefur fulltrúi dómsmrn. óskað umsagnar fangelsisnefndar um álit hennar samkv. þessum lið fsp. Formaður stjórnarnefndar vinnuhælisins svarar á eftirfarandi hátt í bréfi til dómsmrn. dags. 3. febrúar s. l.:

„Í rannsókn þeirri, er n. á sínum tíma framkvæmdi vegna kærumála á hendur forstjóra vinnuhælisins, kom aldrei til tals ráðning á matsveininum né vinna hans á staðnum sem slík og hefur n. engin afskipti haft af uppsögn hans né fyrri ráðningu.“