19.02.1969
Sameinað þing: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í D-deild Alþingistíðinda. (3822)

133. mál, efnahagssamvinna Norðurlanda

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa farið nokkuð á víð og dreif og væri freistandi að minnast á ýmis atriði, sem þar hafa komið fram og ekki sízt á sumt af því, sem hæstv. forsrh. minntist á sjálfur, en ég mun sleppa að gera það að þessu sinni, enda gefst tækifæri til að gera það síðar.

Það, sem ég vildi gera hér að umtalsefni fyrst og fremst, er sú stefna, sem mér virðist vaka fyrir ríkisstj. í viðskipta— og markaðsmálum. Hæstv. forsrh. varaði alveg réttilega við því, að menn ættu ekki að lifa í gömlum heimi. Það rifjaðist upp fyrir mér í sambandi við það, að fyrir nokkrum kvöldum var ég að grúska í gömlu Skírnishefti og þar var grein eftir Árna Pálsson um Háskóla Íslands, sem þá var nýlega tekinn til starfa. Árni komst m.a. í þessari grein að þeirri niðurstöðu, að það hefði verið mjög óheppilegt menningarlega séð fyrir Íslendinga að hafa ekki á miðöldunum haft samband við annan erlendan bæ ,en Kaupmannahöfn, því að á þeim tíma og allt fram á 19. öld hefði Kaupmannahöfn verið kotbær í menningarlegum efnum, þó að það hefði breytzt þá.

Ég er síður en svo að tala á móti norrænu samstarfi, því að ég álít, að það sé mikilsvert og hollt fyrir okkur að taka sem víðtækastan þátt í því, eftir því sem mögulegt er. En mér finnst, að þess kenni allt of mikið hjá ríkisstj. í sambandi við stefnu hennar í viðskipta– og markaðsmálum, að hún lifi í gömlum heimi, að hún sjái ekki mikið út yfir Norðurlönd og Vestur-Evrópu. Og það kom mjög skýrt fram í því, sem viðskrh. sagði áðan, að í viðskipta– og markaðsmálum væri það nr. 1 hjá ríkisstj. að komast inn í EFTA og nr. 2 að tengjast hinni efnahagslegu samvinnu Norðurlanda, ef úr henni yrði. Stærri mörk, en þetta, virðist ríkisstj. ekki setja sér í viðskipta– og markaðsmálum, samkvæmt því sem viðskrh. sagði hér áðan.

Ég er síður en svo að mæla á móti því, að við reynum að leita eftir sem beztum viðskiptasamböndum og samvinnu við löndin í Vestur-Evrópu og Norðurlöndin alveg sérstaklega. En ég álit, að ef við gerum ekki meira en þetta, ef við hugsum fyrst og fremst um þennan gamla heim í sambandi við viðskiptamálin og markaðsmálin, séum við farnir að hallast að ekki aðeins vafasamri; heldur hættulegri einangrunarstefnu. Ég álít, að eins og nú er komið, verðum við að stefna að því að sækjast eftir markaði eða mörkuðum sem allra víðast og beina sókn okkar í þeim efnum að miklu stærra svæði en Vestur—Evrópu og þá sérstaklega stærri svæðum en EFTA—löndin eru og Norðurlöndin, þó að við stefnum líka að því að eiga góða samvinnu við þessar þjóðir. Á EFTA—svæðinu búa ekki nema 90 millj. manna og það er ekki nema tiltölulega litill hluti alls mannkynsins. Utan EFTA—svæðisins eru víða miklu stærri markaðssvæði en þar eru. Þar er ekki aðeins að nefna löndin, sem eru í Efnahagsbandalagi Evrópu, sem er helmingi fólks fleira heldur en EFTA—svæðið. Þar má nefna Bandaríkin, Austur—Evrópu og ekki sízt þróunarlöndin. Ég álít, að í viðskipta— og markaðsmálum okkar verðum við að fylgja sem allra víðsýnastri stefnu og vinna okkur markaði hvarvetna, þar sem við teljum það vera mögulegt og alveg sérstaklega eigum við að sækjast eftir að komast inn á hina stóru markaði eins og t.d. í Bandaríkjunum, Austur-Evrópu og þróunarlöndunum.

Það hefur verið bent á það fyrir nokkru í blöðum, að bara með því að gera tiltölulega litlar breytingar á fiskverkunaraðferðum okkar, muni vera hægt að auka markaðinn í Bandaríkjunum svo nemur mörgum hundruðum millj. kr. á ári. Ég sé það í norskum blöðum, að Norðmenn eru að ræða um að byggja upp fiskframleiðslu sína þannig í framtíðinni, að þeir geti haft veruleg viðskipti og vaxandi við þróunarlöndin. Og þeir eru í mörgum Afríkulöndum að leita eftir möguleikum á að auka söluna á hertum fiski þangað. Ég sá nýlega í blöðum, að þeir höfðu sent fulltrúa til Alsír og Marokkó og fleiri landa til þess að reyna að ryðja þessari vöru þar braut.

Það hafa nokkrum sinnum verið bornar fram till. hér á þinginu og meira að segja samþykktar um að skora á ríkisstj. að vinna að sem víðtækastri markaðsleit. Ríkisstj. hefur ekkert gert til að framfylgja þeim till. enn þá eða þeirri ályktun Alþ. Hún virðist ekki sjá annað eða eygja aðra möguleika í þessum efnum, en að binda viðskipti okkar sem mest við EFTA–svæðið, sem hefur þó ekki nema 90 millj. íbúa og aðeins brot af mannkyninu. Ég er ekki, eins og ég sagði áðan, að mæla á móti því, að við reynum að auka viðskipti okkar við þessi lönd, en ég tel, að ef við gerum ekki meira en það, séum við komnir inn á mjög vafasama og hættulega einangrunarleið í þessum efnum og við séum kannske að missa af strætisvagninum í sambandi við marga aðra og stærri markaði, sem eru vanræktir, á meðan allt það, sem ríkisstj. hugsar og gerir í þessum efnum, er eingöngu miðað við EFTA—svæðið.

Ég vil þess vegna vara alveg sérstaklega við því, að í viðskipta— og markaðsmálunum lifum við áfram í gömlum heimi. Við eigum þvert á móti að gera okkur grein fyrir því, að við lifum í nýjum og stórum heimi, að okkar markaðsmöguleikar liggja miklu víðar, en á Norðurlöndum og í EFTA- löndunum. Þá er að finna í Bandaríkjunum, þá er að finna í Austur-Evrópu og þá er að finna í þróunarlöndunum ekkert síður, en á EFTA- svæðinu og jafnvel miklu heldur. Það mætti miklu frekar segja mér, að okkar markaðs möguleikar séu að mestu fullnýttir í EFTA—löndunum, en hins vegar séu miklu meiri möguleikar til að auka útflutning á íslenzkum vörum til annarra markaðssvæða. Og a.m.k. megum við ekki einblína svo á EFTA—svæðið, eins og ríkisstj. hefur gert, að við gleymum öllum öðrum mörkuðum, þar sem möguleikarnir geta verið og eru vafalaust oft og tíðum miklu meiri.

Ég kom í ræðustólinn fyrst og fremst til þess að vara við þeim hugsunarhætti ríkisstj. að lifa í gömlum heimi í sambandi við viðskiptamálin, vara við þeirri einangrunarstefnu, sem mér virðist hún vera komin inn á í þessum efnum og hvetja til þess, að við fylgjum víðsýnni stefnu í markaðs— og viðskiptamálunum, leitum okkur markaða sem allra víðast og vinnum að því að tryggja afkomu okkar á þann veg.