13.12.1968
Sameinað þing: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

1. mál, fjárlög 1969

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er stórt mál og fyrirferðarmikið, sem hér er á dagskránni, frv. til fjárl. fyrir árið 1969.

Frv., sem upphaflega var lagt fram í byrjun þingsins, var allstór bók, 214 bls., og nú hefur verið útbýtt brtt. við þetta frv. frá meiri hl. fjvn. Það er líka allstór bók, eða upp á 108 bls. Það er ekki mögulegt fyrir þm. á skömmum tíma að kynna sér þetta allt. En þó dylst engum, sem rennir augum yfir þetta, að víða er pottur brotinn. Það má glöggt sjá, að óstjórn er á heimilinu hjá hæstv. ríkisstj. Stórar fjárhæðir fara í súginn. Ég ætla aðeins að nefna eitt dæmi um óþarfa eyðslu, það er um utanríkisþjónustuna. Mér telst svo til af þessu, sem fyrir liggur, að við höfum 10 sendiráð og fastar sendinefndir í öðrum löndum, og kostnaðurinn við þetta er áætlaður á næsta ári samkv. brtt. meiri hl. fjvn. 51 millj. 304 þús. kr. Þar að auki eru svo við nokkra þessa liði færðar upphæðir, sem nefnast lánahreyfingar út og nema samtals 2 millj. 188 þús. Þannig sýnist mér, að útgjöldin við þessi sendiráð og sendinefndir séu u. þ. b. 531/2 millj. Ég tel, að þarna mætti spara mikið fé. Það væri auðvelt að fækka þessum sendiráðum. Ég held, að það væri hægt að fækka þeim um helming, úr 10 niður í 5. Ég hugsa mér það þannig, að í fyrsta lagi væri aðeins 1 sendiráð á Norðurlöndum. Ég hygg, að það séu allgreiðar samgöngur á milli höfuðborganna í þessum nágrannalöndum okkar, Danmörku, Svíaríki og Noregi, og einn sendiherra, sem væri í einhverri þessari borg, gæti gengið eins og rennihestur þarna á milli, eftir því sem þarfirnar kalla. Þá er nú komið fyrsta sendiráðið, sem við þyrftum að hafa.

Annað tel ég, að við þyrftum að hafa í Moskvu, sem gæti jafnframt því að vera hjá Sovétríkjunum gætt hagsmuna þjóðarinnar hjá öðrum löndum austan tjaldsins. Þá eru komin tvö.

Það þriðja ætti líklega að vera í Vestur-Evrópu, þ.e. á meginlandinu, annaðhvort í París eða Bonn, líklega heldur í Bonn, því að ég held, að við höfum miklu meiri viðskipti við Þjóðverjaland heldur en Frakkland. Þá mætti nú, hygg ég, spara eitthvað fleira á því svæði heldur en eitt sendiráð. Það er t.d. hér í frv. og brtt. gert ráð fyrir fjárveitingum til sendinefndar Íslands hjá NATO og sendiráðs Íslands í Brüssel. Ég held, að sendiherra okkar, sem búsettur væri annaðhvort í París eða Bonn, gæti komið til Brüssel annað slagið og séð, hvað er að gerast þar, þegar þörf teldist á því. Þá eru komin þrjú.

Þá er það nú hennar hátign, blessuð Elísabet, drottning Bretaveldis. Ég tel, að við þurfum að hafa sendiherra hjá henni, og hann ættum við að velja heldur af betri tegundinni, finnst mér. Þá eru komin fjögur.

Og loks er það herra Nixon bóndi í Norður-Ameríku. Við verðum, held ég, að hafa sendimann hjá honum, en sá hinn sami gæti tekið að sér það starf, sem hér er ætlað sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, hún er víst í New York, mér skilst það, þessi sendinefnd. En það er nú ekki langur vegur milli Washington og New York, og sendiherra vor í Washington gæti skotizt þangað annað slagið. Þá eru komin fimm. Já, við verðum að hafa mann hjá Nixon.

Það er með herra Johnson, sem enn er forseti þarna hjá þeim í Bandaríkjunum. Ég hef oft séð myndir af honum, og ég verð að segja eins og er, að mér hefur aldrei geðjast sérlega vel að svipnum á honum, enda var það svo, að hann tók ekki nógu vel á móti okkar forsrh., þegar hann heimsótti hann hér um árið. Og ég er að gera mér vonir um, að herra Nixon verði gestrisnari við Íslendinga, ef einhverjir þeirra skyldu rekast að hans heimili á komandi ári, svo að ég held, að við verðum að hafa sendimann hjá honum. Og þá eru komnir fimm. Þetta er alveg nóg að mínu viti. Það má sem sagt fækka þarna um helming, og þá er hægt að spara þarna stóra fjárhæð.

Ég vil nú nefna þetta aðeins sem dæmi, en ég hef annars ekki haft tíma til að lesa þessar bækur svo í gegn. að ég treysti mér til að fara meira út í þennan frumskóg svona fyrirvaralítið, en óefað er margt þar af svipuðu tagi, sem mætti kippa í lag.

Þá vil ég þessu næst víkja með fáeinum orðum að einni brtt. við frv., sem ég á þátt í að flytja. Hún er ekki um aukin útgjöld úr ríkissjóði, heldur um að auka tekjur hans og ætti þess vegna að vera kærkomin hæstv. fjmrh.

Alllengi hefur sá siður legið hér í landi, að hæstv. ráðh., þingforsetar og fáeinir aðrir valdamenn hafa notið sérstakra vildarkjara hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Þeir hafa tekið þar út vörur til eigin nota og komizt af með að borga fyrir þær aðeins lítinn hluta af því verði, sem aðrir viðskiptamenn verzlunarinnar þurfa að borga. Ég hef nokkrum sinnum með tillöguflutningi á Alþ. reynt að koma í veg fyrir þessi óheilbrigðu viðskipti yfirmanna við ríkisverzlunina, en þær tilraunir hafa því miður ekki borið árangur. Þess vegna er nú enn á ný flutt till. um þetta efni á þskj. 170. Hún er um það, að það bætist aths. við liðinn nr. 11 í brtt. meiri hl. fjvn., sem er um Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Og þessi aths. á að orðast þannig samkv. brtt. okkar með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt er að veita nokkrum mönnum, öðrum en sendiherrum og sendifulltrúum erlendra ríkja, afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði á vörum verzlunarinnar. Þó má veita Eimskipafélagi Íslands h/f, Skipaútgerð ríkisins og Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli afslátt á verði á vörum, enda séu þær eingöngu seldar farþegum í utanlandsferðum, en komi ekki til neyzlu innanlands.“

Þessi till. er samhljóða till., sem ég flutti á síðasta þingi, en nú erum við þrír, sem flytjum þessa till. á þskj. 170, auk mín eru það þeir hv. 1. þm. Vestf. og 2. þm. Sunnl.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar flutt þá predikun, að allir landsmenn verði að taka á sig byrðar vegna efnahagserfiðleika, sem þjóðin hafi komizt í. Og stjórnin og hennar flokkar hafa fylgt þessu fram með því að lækka gengi ísl. krónunnar rétt einu sinni. Það veldur mikilli verðhækkun á vörum, m.a. á brýnustu nauðsynjum, sem almenningur þarf að nota. Og hæstv. ráðh. segja, að menn verði að taka þetta á sig möglunarlaust til þess að bjarga þjóðinni. Þeir segja, að menn verði að spara til þess að geta tekið á sig verðhækkanirnar. Þegar svona er komið, finnst mér, að hæstv. ráðh. ættu að sjá sóma sinn í því að hætta að láta almenning borga fyrir sig verulegan hluta af verði þess drykkjar, sem þeir súpa, og þeirra vindla, sem þeir reykja, en það gera þeir og hafa gert að undanförnu með því að taka fé til þessara vörukaupa úr sjóði verzlunar, sem er ríkiseign. Ég sé enga sanngirni í því, að okkur, öðrum landsmönnum, sé ætlað að borga þetta fyrir valdamennina og allra sízt nú, þegar okkur er sagt, að við verðum að draga úr útgjöldum okkar. En þar sem engar fréttir hafa borizt af því, að ráðh. ætli ótilkvaddir að taka upp sæmilega siði í þessu efni, verður Alþ. að taka í taumana.

Þannig er nú komið fyrir Íslendingum eftir 10 ára valdaferil núverandi stjórnarflokka, að aðrar þjóðir eru, samkv. fréttum, sem borizt hafa, að búa sig undir að skjóta saman fé handa þessari nauðstöddu þjóð. Þetta gefur nokkra hugmynd um það álit, sem við njótum nú hjá öðrum þjóðum, og það, þó að Íslendingar fari í stórhópum til fjarlægra landa og beri sig margir þar ríkmannlega og þó að okkar ágætu doktorar í ríkisstj. haldi áfram að flytja ræður. En á sama tíma gerist það, að íslenzkir ráðh., sem hafa allgóðar tekjur miðað við það, sem hér gerist yfirleitt, láta ríkisverzlun og þar með aðra landsmenn, sem flestir hafa til muna lægri tekjur en þeir sjálfir, borga fyrir sig hluta af verði neyzluvöru, sem þeir kaupa. Þetta er hæstv. ráðh. til minnkunar og líka hæstv. Alþ. ef það lætur þetta viðgangast.

Hæstv. ráðh., sjö að tölu, hafa með sér 25 stuðningsmenn hér á löggjafarsamkomunni. Þessir menn fylgja sínum herrum yfirleitt fast, en eru þeim þó ekki alltaf hollir, því að oft fylgja þeir þeim að óheppilegum athöfnum. Mér hefur komið í hug, að í hópi þessara stjórnarfylgismanna kynnu að finnast þrír eða fjórir menn, sem væru svo hollir sínum foringjum, að þeir vildu taka þátt í að forða þeim frá þeirri hneisu að haga viðskiptum sínum við Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins hér eftir með sama hætti og þeir hafa gert að undanförnu. En ef til vill er það of mikil bjartsýni að láta sér koma slíkt í hug. Ég veit það ekki, en þetta kemur í ljós innan skamms við atkvgr. um till. okkar þremenninganna.

Ég vil svo að síðustu vekja athygli hæstv. forseta á ákvæði 44. gr. þingskapanna, sem hljóðar svo: „Enginn þm. má greiða atkv. með fjárveitingu til sjálfs sín.“

Ef það skyldi nú gerast, að einhver af hæstv. ráðh. eða forsetum, sem hafa skammtað sér hin sérstöku viðskiptakjör hjá ríkisverzluninni, skyldi falla fyrir þeirri freistingu að greiða atkv. gegn brtt. á þskj. 170, má ekki telja þeirra atkv. með öðrum mótatkv. samkv. þessu ákvæði þingskapanna. Ég vildi aðeins vekja athygli hæstv. forseta á þessu.