09.04.1969
Sameinað þing: 39. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í D-deild Alþingistíðinda. (3903)

279. mál, framkvæmd á lögum nr. 83/1967

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. 19. dag desembermánaðar 1967 voru samþ. á Alþ. lög um breyt. á lögum um almannatryggingar. Í þessum lögum voru bráðabirgðaákvæði og síðasta mgr. í ákvæði til bráðabirgða hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Athuga skal möguleika á að draga úr kostnaði við rekstur Tryggingastofnunar ríkisins með því að semja við banka eða sparisjóði um, að þær stofnanir annist útborgun á bótum frá almannatryggingunum.“

Það hefur lítið af þessu heyrzt, en mér skildist á auglýsingum, sem ég heyrði ekki alls fyrir löngu í ríkisútvarpinu, að hér sæti allt í sama farinu. Ég heyrði auglýsingar frá tveimur sýslumönnum á Vesturlandi um, að þeir mundu taka sér ferð á hendur eða sendimenn þeirra á ákveðnum dögum út um sín umdæmi, mér skilst á þingstaði hreppanna og borga þar út bætur fyrir almannatryggingarnar. Ég tel þetta ákaflega óheppileg vinnubrögð. Það hlýtur að vera verulegur kostnaður við þessar ferðir út um héruðin og þetta er líka ákaflega óhentugt fyrir þá, sem eiga að taka við þessum bótum. Fólk hefur yfirleitt engin erindi á þingstaði hreppanna, nema þegar haldin eru manntalsþing eða hreppsskilaþing og sækja menn þær samkomur reyndar misjafnlega í seinni tíð og verr en áður var. Þarna þurfa því þeir, sem eiga að fá þessar bætur, að koma eða gera út sendimenn til þess að taka á móti þessu án þess að hafa önnur erindi til þessara staða. Öðru máli gegnir um verzlunarstaðina, þar sem víða eru bankaútibú eða sparisjóðir. Þangað eiga menn tíðar ferðir og það væri þeim stórum hentugra að geta fengið þessar bætur útborgaðar hjá slíkum stofnunum. Ég tel því, að mjög væri til bóta, ef þetta fyrirkomulag væri tekið upp úti um land.

Í Reykjavík er mikið af bönkum og bankaútibúum og mér kemur í hug, að hægt væri að gera samninga við þessar stofnanir um að annast greiðslu á þessu einmitt hér og sennilega í fleiri kaupstöðum og það mundi verða ódýrara, en halda uppi stóru skrifstofubákni, eins og hér mun vera gert í Reykjavík af hálfu Tryggingastofnunarinnar, til að borga út þessar bætur. En um þetta verður ekkert fullyrt, fyrr en á það reynir með samningum við þessar stofnanir, banka og sparisjóði, eins og til var ætlazt með því bráðabirgðaákvæði í lögum, sem ég gat um áðan. Og því hef ég leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 358, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað er að frétta af samningaviðræðum við banka eða sparisjóði, sem ákveðnar voru með bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 83/1967, um, að þær stofnanir annist útborganir á bótum frá almannatryggingunum?“