23.04.1969
Sameinað þing: 43. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í D-deild Alþingistíðinda. (3960)

212. mál, sumaratvinna skólafólks

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir þessari fsp. sinni. Það fer ekkert á milli mála, að fyrir þjóðarheildina er hér um mikið vandamál að ræða og eins og hann komst réttilega að orði, er það sérstætt fyrir okkar land, að tryggja þurfi atvinnu alls þess sívaxandi fjölda ungs fólks, sem út úr skólunum kemur á hverju vori. Þessi fjöldi hefur verið áætlaður n.k. vor um 8.000 vinnufærir unglingar og er langstærsti hópurinn, sem á einu vori hefur losnað af skólabekk. Ég segi, að þetta sé sérstakt vandamál fyrir okkur Íslendinga, því að vart mun finnast hliðstæða þess með öðrum þjóðum, að skólafólk vinni í sumarleyfum sínum í jafnríkum mæli og hér. Af þessu vinnuafli hafa alloft orðið góð not í okkar sveiflukenndu starfsgreinum, sér í lagi þegar aflahrotur eru og þá sérstaklega við veiði og vinnslu síldar og fyrr á árum einnig við landbúnaðarstörf, áður en hin mikla vélvæðing hélt þar innreið sína. Sá skammi tími árs, sem fólk þetta býðst á vinnumarkaðinum annars vegar, og hinar gífurlegu sveiflur í vinnuaflsþörfinni hins vegar, gera atvinnutryggingu þessa unga fólks jafnvel enn þá óöruggari, en þess fólks, sem er reiðubúið til starfa allt árið.

Nú þarf ekki að fjölyrða um það atvinnuástand, sem ríkt hefur hér á landi 11/2—2 s.l. ár. Það ástand eða réttara sagt þeir miklu erfiðleikar, sem þjóðarbúið hefur á þessum tíma orðið fyrir, hafa komið fram í alvarlegu atvinnuleysi í ýmsum starfsgreinum hjá fólki, sem hefur þar allt lífsframfæri sitt af heils árs störfum. Algjör forsenda þess, að skólafólk fái vinnu í sínum sumarleyfum, er því sú, að full atvinna — og þá á ég við a.m.k. dagvinna — sé hjá því fólki, sem byggir alla afkomu sína og sinna á þessum störfum. Yfir því hefur stundum verið kvartað eðlilega af forsvarsmönnum verkalýðsfélaga, að skólafólk hefur verið tekið til vinnu, meðan félagsbundinn starfsmaður er atvinnulaus. Fyrir þessum aðfinnslum sínum hafa forráðamenn verkalýðsfélaganna fært sín rök, sem hér verða þó ekki talin. Ríkisstj. hefur í samstarfi og samráði við fulltrúa verkalýðs og vinnuveitenda, sbr. samkomulag þar um, sem undirritað var 17. jan. s.l., unnið að úrbótum í atvinnumálum almennt, svo sem skýrt hefur verið frá opinberlega. Aflasæl vertíð og stöðvun a.m.k. í bili á verðfalli sjávarafurða erlendis hafa unnið þarna með okkur. Þarna eygist nú raunverulegur árangur í þessu mikilvæga starfi, ef við sjálf hér heima kunnum fótum okkar forráð. Í þessum efnum tala gleggst sílækkandi tölur atvinnuleysingja, eftir að vinnustöðvun sjómanna lauk, þótt skylt sé að viðurkenna þörfina fyrir enn betri árangur í þessum efnum. Takist okkur að halda áfram að fækka atvinnuleysingjum og helzt að útrýma með öllu atvinnuleysi, mun skólafólk njóta þess árangurs eins og reyndar þjóðin öll. Á árangri þessara aðgerða verður að byggja allar frekari aðgerðir til úrbóta, þ.á.m. vinnu möguleika ungs fólks, eins og skólafólkið vel flest er. Sérstök athugun fer nú fram á vegum Reykjavíkurborgar, en hér hefur atvinnuleysingjafjöldinn verið mestur, hvað mikið af þessu unga fólki vill vinna og hvað mikið af því á trygga atvinnu. Þetta eru að sjálfsögðu atriði, sem nauðsynlegt er að fá upplýst, áður en til annarra ráðstafana er gripið.

Mesta hagsmunamál skólafólks í þessum efnum er þó að sjálfsögðu, að útrýming atvinnuleysis á hinum almenna vinnumarkaði takist. Án þess að um það hafi verið spurt, tel ég rétt að skýra frá því, að nú stendur yfir endurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar. Í þeirri n., sem málið hefur til meðferðar, hefur sú hugmynd verið rædd, að skólafólk geti notið atvinnuleysisbóta, sem það nýtur ekki í dag, ef það hefur á síðustu 12 mánuðum unnið tryggingaskyld störf í þrjá mánuði og verið í skóla 6 mánuði. Hver sem endanleg afdrif þessara hugmynda verða, þegar n. leggur niðurstöður sínar fram, sem ég vona að verði fyrir lok yfirstandandi Alþ., þá læt ég þá einlægu ósk og von í ljós, að meira verði um raunhæf og arðbær störf þessa fólks í þágu lands og þjóðar, en bætur vegna verkefnaskorts.

Niðurstöður þessa svars míns eru því þær, að í fyrsta lagi er ríkisstj. fullljós sá vandi, sem hér er fyrir hendi um verkefnasköpun fyrir skólafólk og ungt fólk almennt yfir sumartímann. Í öðru lagi hefur ríkisstj. lagt höfuðáherzlu á úrbætur á hinum almenna vinnumarkaði, þar sem hún telur það forsendu fyrir lausn á atvinnu til handa ungu fólki. Í þriðja lagi mun ríkisstj. fylgjast með niðurstöðum þeirra kannana, sem nú er að unnið um atvinnumöguleika ungs fólks, og leita þeirra ráða, sem tiltæk eru til að fá arðbær störf fyrir sem flest af því unga fólki, sem vilja og getu hefur til starfa.