14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í D-deild Alþingistíðinda. (4019)

286. mál, sala á tækjum ríkisstofnana

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Til skamms tíma hafa ekki gilt neinar fastar reglur um sölu ríkiseigna, hvorki fasteigna ríkisins né lausafjármuna að því undanskildu, að eins og hv. þm. er kunnugt, hafa oft verið veittar sérstakar heimildir til sölu ríkiseigna, enda má ekki selja fasteignir ríkisins án lagaheimildar og hefur þá oftast nær verið ákveðið í þeim heimildum, að þær skyldu seldar samkv. mati.

Í annan stað eru til lög um sölu fasteigna, þar sem eru lög um jarðasölur til ábúenda á ríkisjörðum. Um það gilda alveg sérstakar reglur, en að öðru leyti höfðu ekki varðandi fasteignir ríkisins gilt neinar ákveðnar reglur. Stefnu varðandi fasteignir ríkisins var ráðizt í að móta og birtist sú stefna í frv. því, sem lagt var af hálfu ríkisstj. fyrir Alþ. árið 1967 og hafði verið undirbúið af fjmrn. og þessi lög, sem eru l. nr. 27 1968, setja ákveðnar reglur um sölu embættisbústaða og íbúðarhúsnæðis í eigu ríkisins, sem má telja, að nái þá til alls íbúðarhúsnæðis, sem ríkið selur eftir setningu þessara laga. Þar er tekið fram og ég tel það marka stefnu rn. varðandi þessi mál yfirleitt, að auglýsa skuli opinberlega allt slíkt húsnæði til sölu með tilgreindu lágmarksverði, en eignin síðan seld þeim, sem bezt verð býður og hagkvæmust greiðslukjör. Í framkvæmd mun Innkaupastofnun ríkisins annast sölu húsnæðis samkv. þessum lagaákvæðum og hefur þegar selt nokkrar eignir á grundvelli þessara laga. Sama reglan hefur verið mörkuð allt frá árinu 1963 varðandi bifreiðar ríkisins, sem seldar hafa verið í samræmi við þær reglur, sem settar hafa verið um endurnýjun ríkisbifreiða og hefur Innkaupastofnun ríkisins annazt sölu þessara bifreiða og þá leitað tilboða í þær.

Að öðru leyti hafa ekki verið settar fastar reglur um sölu véla og tækja eða annarra eigna ríkisins, en hins vegar er unnið af hagsýslustofnuninni að sérstökum „standard“-reglum, sem ætlazt er til, að fylgt verði í sambandi við sölu einnig þessara lausafjármuna og má gera ráð fyrir því, þó að því verkí sé ekki lokið, að þar verði í meginefni stuðzt við þá reglu l. um íbúðarhúsnæði, að það verði ákveðið, að leita skuli tilboða í slíkar eignir og þær síðan seldar af einhverjum ákveðnum aðila, sem ég tel eðlilegt, að verði Innkaupastofnun ríkisins. Þó að það sé ekki beinlínis hennar hlutverk, þá hefur hún annazt slíka fyrirgreiðslu fyrir ríkið. Hinu er ekki að leyna, að það er auðvitað engin vissa fyrir því varðandi sölu véla og kannske ekki eigna yfirleitt, að útboð sé endilega alltaf öruggasta leiðin til þess að tryggja hagstæðast verð fyrir umræddar eignir, en ég tel hins vegar svo mikils um vert, að ekki geti leikið neinn vafi á því, að hér sé réttum leikreglum fylgt og eignir ekki seldar með neinum óeðlilegum hætti, — að það sé tvímælalaust rétt, að einnig varðandi þá lausafjármuni, sem hv. þm. spyr um til viðbótar bifreiðunum, sem ég tel, að séu orðnar fastar og ákveðnar reglur um, verði þessar reglur einnig látnar gilda um vélar. Eins og kom fram í svari mínu hafa slíkar formlegar reglur ekki verið settar, en að þeim er nú unnið og ég vonast til, að þær verði til innan mjög skamms.