14.05.1969
Sameinað þing: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í D-deild Alþingistíðinda. (4033)

290. mál, vextir af innheimtum ríkissjóðstekjum

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á tímabilinu frá 1. jan. 1968 til 1. apríl 1969, sem spurt er um í fsp., hafa innheimtumenn ríkissjóðs skilað vöxtum að upphæð 16.261.890.25 kr. Þessir vextir skiptast þannig, að á árinu 1968 var skilað vöxtum að upphæð 15.098.753.12 kr., en á tímabilinu 1/1 til 1/4 1969 námu vextirnir 1.163.137.17 kr. Þess ber þó að geta í sambandi við þessar upplýsingar, að í skilagreinum frá innheimtumönnum ríkissjóðs er vöxtum af innistæðum í bönkum og sparisjóðum og dráttarvöxtum, sem innheimtumenn innheimta, ekki haldið aðskildum. Á hverju ári sannreynir ríkisendurskoðun bæði skiptingu vaxtagreiðslnanna og þær vaxtagreiðslur yfirleitt, sem reiknaðar eru út af bönkum og sparisjóðum og gengur úr skugga um það, að þær séu greiddar allar í ríkissjóð.