05.12.1968
Efri deild: 22. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

68. mál, ráðstafanir vegna flutninga sjósaltaðrar síldar af fjarlægum miðum

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Á s.l. vetri var skipuð nefnd til að gera till. um hagnýtingu síldar af fjarlægum miðum sumarið 1968, og bar hún fram till. um flutninga á síld, sem söltuð yrði um borð í skipum, og um greiðslu kostnaðar við þá flutninga. Samtök sjómanna, útvegsmanna og síldarsaltenda lýstu sig samþykk þessum till., og með því að brýna nauðsyn þótti til bera að gera ráðstafanir í þessu efni, voru sett brbl. um málið hinn 10. maí s.l.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er fram borið til staðfestingar á þessum brbl., og hefur það legið fyrir sjútvn. til athugunar og nefndin orðið einhuga um að leggja til, að það verði samþ. óbreytt. Leyfi ég mér því að fara fram á, að frvgr. verði samþ. eins og þær liggja fyrir hv. Ed. og að frv. verði vísað til 3. umr.