28.03.1969
Neðri deild: 72. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Með þessu frv. vill stjórnin fá staðfestingu Alþ. á því samkomulagi, sem hún gerði við vinnuveitendur og verkalýðssamtökin í n. 1. janúarmánuði. Það er liðið töluvert á þriðja mánuð, síðan þetta samkomulag var gert, og má segja, að hæstv. ríkisstj. sé nokkuð seint á ferð með þetta þingmál sitt. Ráðh. í núverandi ríkisstj. hér virðast vera seinlætismenn eins og Sírak. Nú, en þetta er nú þó loks komið. Þarna er gert ráð fyrir lántöku og að verja fénu til atvinnuaukningar, og enn ætlar stjórnin að bæta við erlendu skuldirnar, að því er manni sýnist. Og svo er þarna ákvæði um úthlutunarnefnd í öllum kjördæmum landsins og eina yfirúthlutunarnefnd, sem auðvitað á að vera í höfuðborginni. Ég öfunda ekki ríkisstj. af því að leggja þetta frv. fyrir hv. Ed. og fjhn. þeirrar deildar, þessar till. um skömmtunarkerfi hið nýja. En formaður í fjhn. Ed. mun vera hv. 12. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, prófessor. En hvað sem um það er, við, sem stöndum að áliti minni hl. í fjhn. Nd. á þingskjali 425, viljum mæla með því, að þetta frv. verði samþ. og þannig staðið við það samkomulag, sem stjórnin gerði við vinnuveitendur og verkalýðssamtök, sem áður er um getið. Það er mikil þörf á ráðstöfunum nú þegar og hefði þurft að vera búið að gera þær fyrir löngu til að ráða bót á atvinnuleysinu, sem enn er mikið víðs vegar um landið, þó að vertíðin sé nú í fullum gangi. Og svo er eitt atriði, sem við vekjum athygli á í okkar nál., og það er atvinnuþörf námsfólksins úr framhaldsskólunum yfir sumarmánuðina. Við bendum í okkar nál. á sérstaka nauðsyn þess, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að skólafólk geti fengið viðunandi atvinnu yfir sumarmánuðina, þar sem margt af því mun ekki geta haldið áfram námi að öðrum kosti. Og ég vil leggja sérstaka áherzlu á þetta, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að skólafólkið geti fengið viðunandi atvinnu yfir sumarið.

Ég hef veitt því athygli, að í einni gr. frv. er dálítið óvenjulegt orðalag. Í 5. gr., 1. málsgr., þar stendur m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Féð skal vera í umsjá Atvinnujöfnunarsjóðs, er annast fyrirgreiðslu þess.“

Ég held, að það sé dálítið óvenjulegt að tala um fyrirgreiðslu fjármuna, og ég vildi skjóta því til hv. formanns fjhn., sem er frsm. meiri hl., hvort hann vildi ekki íhuga það að bera fram brtt. til leiðréttingar á þessum stíl, þannig að það kæmi annað orð í staðinn fyrir fyrirgreiðslu, svo að þetta væri fært til betra samræmis við venjulegt íslenzkt mál. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um frv.