10.12.1968
Efri deild: 24. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

99. mál, breyting á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um Iðnlánasjóð er komið frá Nd., og fékk þar skjótan framgang og ágreiningslausan, en það er í sjálfu sér heldur ekki flókið í sniðum. En meginefni þess er að nema úr lögum tímamörk, sem verið hafa gegn því, að Iðnlánasjóður eða stjórn Iðnlánasjóðs geti breytt lausaskuldum iðnaðarins í föst lán með vaxtabréfum Iðnlánasjóðs, en tímamörkin hafa verið þau, að til lausaskuldanna þurfi að vera stofnað fyrir árslok 1963. Þessi tímamörk eru felld niður. En tilefnið til þess, að frv. er flutt og með þessari efnisbreytingu á lögunum, er það, að stjórn Iðnlánasjóðs hefur skrifað iðnmrh. og gert grein fyrir því, að sá fyrsti lánaflokkur, sem þeim var heimilað að gefa út, að upphæð 60 milljónir og 50 þús. kr., er að mestu leyti uppgenginn. En hins vegar segir í bréfi stjórnar Iðnlánasjóðs frá 16. nóv. s.l., að mörg iðnfyrirtæki óski nú eftir, að Iðnlánasjóður breyti ýmsum lausaskuldum þeirra í föst lán til lengri tíma og fari því fram á heimild til að gefa út nýjan flokk vaxtabréfa að fjárhæð 40 milljónir króna. Um útgáfu þessara vaxtabréfa mundu gilda reglur samkv. reglugerðinni frá 10. maí 1965, en þar voru sett allítarleg ákvæði um þessi vaxtabréf Iðnlánasjóðs í samráði við Seðlabankann og reyndar viðskiptabankana líka. Ég held, að það sé óhætt að slá því föstu, að það hafi verið töluvert gagn að þessu og hagræði fyrir iðnaðinn, þessum breytingum á lausaskuldum í föst lán til lengri tíma, sem fram hafa farið, og einnig geri ég ráð fyrir því, að það gæti komið sér vel fyrir iðnaðinn núna að fá þessa nýju heimild, 40 millj. kr. Að vísu er það svo, að með þessu móti er ekki nýtt fjármagn, sem kemur á vettvang til hagræðis fyrir iðnaðinn, en engu að síður getur það verið nokkuð mikils virði í skiptum ýmissa iðnfyrirtækja við peningastofnanirnar og banka að eiga þess kost að lengja lán sín, og sérstaklega ef þau eiga þess kost nokkuð almennt í peningastofnununum að skipta á vaxtabréfum Iðnlánasjóðsins og lausum skuldum, sem stofnað hefur verið til, en óumsamdar eru, og mundi það þá greiða fyrir, eðli málsins samkv., venjulegum viðskiptum viðkomandi fyrirtækja við þá banka, sem hlut eiga að máli.

Ég vil leyfa mér að mega vænta þess, að málið fái hér skjótan framgang, eins og í hv. Nd., og teldi mjög æskilegt, ef hægt væri að hraða því sem verða má, og vildi mega beina þeim tilmælum til þeirrar n., sem fær málið til meðferðar, og leyfi mér að svo mæltu, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umræðu að lokinni þessari umr. og hv. iðnn.