10.04.1969
Neðri deild: 75. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (911)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Mér þykir nú vænt um það, að hæstv. ráðh. dregur örlítið inn með alla bjartsýnina. Það er nefnilega töluvert annað, hvort 77% bænda þurfa ekki beina kreppuaðstoð eða hvort þeir eru, eins og hann orðaði það áðan, ágætlega settir og eru ekki í neinum greiðsluerfiðleikum. Það er sko tvennt ólíkt. Og það er ástæðulaust að láta það fara ómótmælt út úr hv. þd., að þannig sé ástatt hjá íslenzkum bændum, því að það er auðvitað alveg út í bláinn mælt.

En mér þykir vænt um að heyra það frá hendi ráðh., og ég vil þakka fyrir þær upplýsingar, að það er unnið að því að Áburðarverksmiðjan fái nú lán og geti gefið nægjanlegan greiðslufrest til þess að menn geti komizt yfir áburðinn í vor. Það er gott að heyra það. En ég vil þá líka jafnframt, að bændur megi vænta þess, að endirinn á þeim málum verði ekki með þeim endemum, sem var í fyrra, þegar stórkostlegt gengistap varð á skyndiláni Áburðarverksmiðjunnar. Enn þá er ekki kunnugt um annað en að það tap lendi með einum eða öðrum hætti á landbúnaðinum. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þeim málum lykti betur nú en þá.