07.03.1970
Neðri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

174. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði ríkisstj. fram frv. til I. um breyt. á l. nr. 53 5. júní 1957, um lax- og silungsveiði. Frv. varð ekki útrætt á þinginu, og er það nú lagt fyrir á ný með nokkrum breytingum.

Lax- og silungsveiði er mál, sem mikið hefur verið rætt um að undanförnu. Vitað er, að miklir möguleikar eru til þess að auka veiði í ám og vötnum hér á landi. Á síðustu árum hafa fjárveitingar til veiðimála verið margfaldaðar. Laxeldisstöðin í Kollafirði hefur verið starfrækt í nokkur ár með góðum árangri. Kollafjarðarstöðin er tilraunastöð, sem er kostuð að öllu leyti af fé ríkissjóðs. Með þeim tilraunum, sem fram fara í þessari einu ríkisreknu laxeldisstöð, er til þess ætlazt, að allir, sem fást við lax- og silungseldi, megi njóta góðs af þeirri reynslu, sem fæst við stöðina í Kollafirði. Nú munu vera um 10 eldisstöðvar í landinu, sem reknar eru af einkaaðilum. Hafa margir sýnt lofsverðan áhuga á fiskræktarmálum og lagt fram mikið fjármagn til þess að ná góðum árangri. Ríkið veitir nokkurn styrk til þessara mála, en auðvitað væri æskilegt, að styrkveitingar gætu verið í ríkari mæli en verið hefur og með hærri upphæðum, þar sem stofn- og rekstrarkostnaður stöðvanna er óhjákvæmilega mjög mikill.

Með aukinni fiskrækt og vaxandi þekkingu á fiskræktarmálum er grundvöllur lagður að því, sem koma skal. Markmiðið er að fylla árnar og stöðuvötnin af nytjafiski. Nauðsynlegt er að fá fullnaðaryfirlit yfir allar ár á landinu og stöðuvötn í byggðum og á afréttarlöndum. Með því má gera áætlun um það, hvað hver veiðistaður getur tekið til sín og gefið af sér, eftir að ræktunin er komin á það stig, að hvert veiðivatn hafi þá fiskigengd, sem það þolir og getur fóðrað. Á s.l. sumri var hafinn undirbúningur að rannsóknum og lýsingum á veiðiám og veiðivötnum landsins. Verður haldið áfram með þá rannsókn, sem hafin er, þar til yfirlit er fengið yfir landið allt. Fullnaðarskýrsla með lýsingum og rannsóknum á öllu vatnasvæði landsins ætti að liggja fyrir á næstu árum.

Skoðanir manna eru nokkuð skiptar í afstöðunni til veiðimála almennt. Ágreiningur er þó enginn um ýmis veigamikil atriði. Íslendingar eru sammála um, að banna eigi laxveiði í sjó. Hefur ríkisstj. komið á framfæri á alþjóðaráðstefnu ákveðinni afstöðu Íslands í því máli. Þá má einnig gera ráð fyrir því, að menn séu sammála um nauðsyn þess að efla fiskræktina sem mest. Þegar menn tala um þessi mál með nokkurri óþolinmæði og gefa jafnvel í skyn, að lítið hafi áunnizt í þessum málum, þá verður ekki hjá því komizt að minna á, að stórvægileg breyting hefur orðið á til hins betra á 8–10 árum. Fjármagn til þessara mála hefur verið stóraukið, og ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að notfæra sér aukna þekkingu sérfræðinga í fiskræktarmálum. Nokkrir ungir Íslendingar eru við nám í fiskrækt og vonandi mun þjóðin láta þá fá verkefni og njóta þannig góðs af þekkingu þeirra. Veiðimálastofnunin fær á komandi vori vel menntaðan Íslending til starfa í fiskrækt. Er það vissulega fagnaðarefni, því að verkefnin eru mörg. Undirstaða, sem byggð er á rannsóknum og reynslu, verður að vera fyrir hendi, um leið og framkvæmdir eru gerðar. Segja má, að svo miklar rannsóknir liggi fyrir á flestum sviðum, að það þurfi ekki að hindra framkvæmdahraða í þessum málum að neinu marki.

Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er að mestu með sama hætti og það frv., sem lagt var fram á síðasta þingi. Þó hafa verið gerðar nokkrar breyt. á frv., sem að athuguðu máli virðast fara betur en í fyrra frv. var. Eins og kunnugt er, var fyrra frv. samið af stjórnskipaðri níu manna n. Var hún í veigamiklum atriðum sammála, en klofnaði þó þannig, að minni hl. lagði fram sérstakt frv., og er það mjög líkt því frv., sem nú liggur fyrir hv. Ed. Við endurskoðun I. um lax- og silungsveiði verður að hafa það fyrst og fremst í huga, með hverjum hætti fiskræktin verði bezt efld. Verður þá efst í huga friðun og vernd fiskstofnanna.

Í 14. gr. I. um lax- og silungsveiði er kveðið svo á, að ekki megi veiða nær ósasvæði fram undan árósum en 500 metra. Þetta ákvæði er ekki nægilegt, og reynslan hefur sýnt, að veiðítæki, sem eru lögð til þorsk- og ýsuveiða svo nærri árósum, hafa oft fengið lax og laxinn þannig veiðzt. Til þess að koma í veg fyrir þetta er sett inn ákvæði í frv., þar sem bannað er að veiða nær árósum en 1000–2000 m eftir vatnsmagni árinnar. Með því að taka þetta ákvæði upp í lög er stigið stórt spor til verndar stofninum og því marki náð, sem ætlazt var til upphaflega, þegar þetta ákvæði var sett inn í lögin. Þegar lögin voru til endurskoðunar 1954–1955, lagði n. til, að 1000 m markið væri sett, en Alþ. féllst ekki á það. og hefur síðan verið miðað við 500 m.

Þá er ákvæði sett inn í lögin í 11. gr. frv. um að takmarka veiðitæki og það efni, sem nota má í net og veiðitæki. Það er kunnugt, að tækninni fleygir mjög mikið fram, og netin verða alltaf veiðnari og veiðnari með nýjum gerviefnum. Er sett inn heimild til þess að mega takmarka veiðni veiðitækjanna, ef ástæða þykir til.

Með breyt. á I. 1957 var friðunartími vegna netaveiði lengdur úr 60 stundum á viku í 84 stundir á viku. Með þessu ákvæði var friðunartíminn lengdur mjög mikið. og voru veiðiréttareigendur, sem stunda netaveiði, mjög óánægðir með þetta ákvæði, en það hefur staðið í lögum síðan 1957. Í frv., sem lagt var fram í fyrra, var gert ráð fyrir að lengja enn meira friðunartíma vegna neta, þ.e. úr 84 stundum í 96 stundir. Að athuguðu máli þykir ekki ástæða til þess, sérstaklega vegna þess að veiðiskýrslur sýna, að veiði í ám, þar sem netaveiði fer fram eftir þeim reglum, sem nú gilda, hefur sízt minnkað, heldur frekar aukizt. Hins vegar þótti rétt að setja inn í þetta frv. auknar heimildir til friðunar, ef þess skyldi gerast þörf. Þannig er gert ráð fyrir því, að veiðimálanefnd og veiðimálastjóri geti lagt til og ákvarðað eftir samkomulagi við ráðh., að friðunartíminn verði lengdur úr 84 stundum á viku í 108 stundir. Þetta ákvæði hefur aldrei áður verið í lögum og er vitanlega trygging gegn því, að gengið verði um of á fiskstofninn. Það verður að ætlast til þess, að sérfræðingar og ráðunautar í fiskræktarmálum gefi ríkisstj. eða þeim ráðh., sem fer með þessi mál, ábendingu um, ef þörf er á að auka friðun í einhverju tilteknu veiðivatni, en þá er heimildin fyrir hendi. Það er önnur heimild í 32. gr. þessa frv., sem gert er ráð fyrir, að verði lögfest, og hún er sú, að hverju veiðifélagi er heimilt að ákveða aukna friðun í fiskihverfinu, ef útlit er fyrir, að um of sé gengið á fiskstofninn. Í öðru tilfellinu er það veiðifélagið, sem á að hafa frumkvæðið um aukna friðun, ef þess gerist þörf, en í hinu tilfellinu er það veiðimálastjóri og veiðimálanefnd, sem geta haft frumkvæðið um að auka friðunina.

Með því að þær reglur, sem nú gilda um friðun, sýnast hafa staðizt og veiði í ám og vötnum, þar sem netaveiði hefur verið stunduð, hefur farið vaxandi, en ekki minnkandi, eftir að friðunin var aukin 1957, þykir ekki ástæða til að setja nú bein lagaákvæði um það, að friðunin skuli aukin, heldur látið við það sitja að auka heimildir til friðunar, ef þess skyldi gerast þörf. Þannig eru það, eins og ég áðan sagði, í tveimur gr. frv. annars vegar veiðifélögin og hins vegar veiðimálastjóri og veiðimálanefnd, sem eiga að hafa frumkvæðið um aukna friðun, ef þess gerist þörf. Það er áreiðanlega gott bæði með laxveiðilög og ýmis önnur lög að hafa rúmar heimildir, sem skapa ekki of þröngt svið til framkvæmda. Sérstaklega þegar verið er að byggja upp atvinnuveg, eins og ætlazt er til að gert verði í okkar fiskræktarmálum, er nauðsynlegt að sérþekking fái að ráða og reynsla þeirra manna, sem stundað hafa þessa iðju allan sinn aldur og þekkja betur en jafnvel sérfræðingarnir til um það, hvað hollast er og dugar bezt.

Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að fjölga í veiðimálanefnd úr þremur í fimm. Er það út af fyrir sig eðlileg ráðstöfun, til þess að fleiri sjónarmið komist að í n., og breikkar þann grundvöll, sem hún starfar eftir. Ég hygg, að það megi fara betur á því, að fulltrúar í veiðimálanefnd verði fimm frekar en að þeir séu aðeins þrír. Þeir, sem eiga sæti í veiðimálanefnd, eru þannig skipaðir: Ráðh. skipar einn mann í n. án tilnefningar, einn er skipaður samkvæmt tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga. Það verður að ætlast til, að þegar nm. eru orðnir fimm og n. þannig skipuð eins og þarna er lagt til, að hin eðlilegu sjónarmið komist að í n., og þar munu eiga sæti sérfróðir menn auk veiðimálastjóra, sem vitanlega starfar með n. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því, að fiskræktarfélög í þeirri merkingu, sem þau hafa verið, verði lögð niður, en í þess stað verði mynduð veiðifélög og þessi veiðifélög hafi heimild til þess að auka friðun, eins og ég áðan minntist á.

Þá er mikilvægt ákvæði í frv. Það er um stofnun fiskræktarsjóðs. Það ákvæði var einnig í frv. í fyrra. Gert er ráð fyrir stofnun fiskræktarsjóðs, sem hafi það hlutverk að efla fiskrækt og fiskeldi í landinu með beinum styrkjum og lánum. Með fiskræktaraðgerðum eins og t.d. með fiskeldi og með því að sleppa seiðum má auka veiði í ám og vötnum til mikilla muna frá því, sem nú er. Nútímafiskrækt byggist að verulegu leyti á fiskeldi, þar sem aliseiðum af mismunandi stærðum er sleppt í veiðivötn, en fisk má enn fremur ala upp til neyzlu, og má gera fiskeldið þannig að sérstakri fæðuframleiðslugrein, eins og t.d. á sér stað um silungseldið í Danmörku. Alifiskur er alinn upp í sérstökum eldisstöðvum, sem kostnaðarsamt er að reisa og reka. Geta slíkar eldisstöðvar reist starfsemi sína á mismunandi eldisaðferðum, og fer gerð og kostnaður við byggingu þeirra eftir því.

Hér á landi starfa nú, eins og kunnugt er, 11 fiskeldisstöðvar, og eru flestar þeirra litlar og í eigu einstaklinga. Bendir árangur af starfi þeirra til þess, að fiskeldi eigi mikla framtíð fyrir sér hér á landi, en vitaskuld þarf að leysa ýmsa byrjunarerfiðleika, áður en fiskeldi kemst á öruggan grundvöll. Fiskeldisstöðin í Kollafirði hefur átt þar nokkurt frumkvæði og gert ýmsar tilraunir, sem allir landsmenn munu síðar njóta góðs af, eins og áður var að vikið.

Fiskræktarsjóður þarf vitanlega á tekjum að halda til þess að geta innt það hlutverk af hendi, sem honum er ætlað, og er gert ráð fyrir því, að tekjur sjóðsins verði í fyrsta lagi fjárveiting úr ríkissjóði. Í frv. er ekki ákveðið, hversu fjárveitingin skuli vera há. En það ber vitanlega brýna nauðsyn til þess að taka í fjárl. fjárveitingu, til þess að sjóðurinn verði megnugur að veita lán og styrki til þessarar mikilvægu starfsemi, sem honum er ætlað að styðja. Ég held, að það sé því ekki eðlilegt að taka upp í þetta frv. ákveðna upphæð, þar sem það verður alltaf að vera undir vilja ríkisstj. og meiri hl. Alþ. komið, hversu mikið fjármagn er hægt að láta í hvert skipti til starfseminnar. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að gjald af brúttóveiðitekjum verði 2.5% og innheimtist af veiðifélögum. Þá er gert ráð fyrir því, að tekjuafgangur eldisstöðva ríkisins fari í fiskræktarsjóð eftir ákvörðun ráðh., en reikna má með, að það líði nokkur tími, þangað til fiskeldisstöðvar færu að gefa af sér hagnað. Þá er gert ráð fyrir, að 2 0/00 af brúttótekjum vatnsaflsstöðva í landinu, sem selja orku til almennings, gangi í fiskræktarsjóð. Er það þegar nokkur upphæð árlega, sem það nemur. Þá gætu aðrar tekjur komið til.

Með stjórn fiskræktarsjóðs fara veiðimálanefnd og veiðimálastjóri. Ákvarðanir um styrki og lán úr sjóðnum skulu háðar samþykki ráðh. Ráðh. er rétt að setja fiskræktarsjóði starfsreglur. Greini veiðimálanefnd og veiðimálastjóra á um framkvæmd, sker ráðh. úr. Það er enginn vafi á því, að stofnun fiskræktarsjóðs er mikilvægt og heillaríkt spor í þágu veiðimálanna og því betri verður árangurinn, eftir því sem tekjur sjóðsins verða meiri og framlög ríkisins hærri.

Þá er ákvæði tekið upp í þetta frv., sem varðar fisksjúkdóma. Fisksjúkdómar herja mjög á víða erlendis og eru vaxandi vandamál. Þykir því eðlilegt, að í lög um lax- og silungsveiði hér á landi verði tekið upp ákvæði, sem gæti orðið til þess að girða fyrir þessa sjúkdóma hér. Kveðið er á um það í 11. gr. frv.

Þá er nýmæli í þessu frv., og það er það, að skylt er að stofna veiðifélag um veiði alls staðar á landinu, og þykir það nauðsynlegt til þess að tryggja skipulega framkvæmd veiðimálanna. Atkvæðisréttur í veiðifélagi skal vera bundinn við lögbýli, sem metið er til verðs eftir gildandi fasteignamati. Þetta ákvæði tekur gildi við gildistöku laganna. Ákvæðið er sett til þess að koma í veg fyrir það, að atkv. í veiðifélögum verði fjölgað með því að skipta jörðunum á marga ábúendur, en á þessu þykir hafa borið, og þykir eðlilegt og sjálfsagt að koma í veg fyrir, að þetta geti orðið í framtíðinni, því að það liggur í hlutarins eðli, að veiðilandið eða möguleikarnir til veiði fyrir landi einnar jarðar vaxa ekki við það, þótt búendum verði fjölgað á jörðinni.

Þá er ákvæði um arðskrá, sem gera skal 5 árum, eftir að lög þessi taka gildi, og síðan á 8 ára fresti.

Þá er mjög hert á löggæzlu í þessu frv. og viðurlög við lögbrotum aukin. M.a. er gert ráð fyrir því að semja við Landhelgisgæzluna um að annast eftirlit úr lofti með því, hvort veiðivélar og veiði eru löglega viðhöfð.

Markmið laganna er að efla fiskeldi og ná skipulegri framkvæmd veiðimálanna almennt í landinu. Markmiðið er að tryggja réttláta framkvæmd, þar sem hlutur veiðiréttareigenda er réttilega metinn og að því stuðlað, að stangaveiðimenn, bæði innlendir og erlendir, geti notið góðs af aukinni veiði í ám og stöðuvötnum landsins.

Enginn vafi er á því, að það er nauðsynlegt, að skilningur aukist nokkuð á milli þeirra aðila, sem stundum tala eins og þeir séu andstæðingar, þ.e. veiðiréttareigenda og stangaveiðimanna. En það er svo langt frá því, að þessir aðilar geti verið andstæðingar, vegna þess að hagsmunir þeirra fara saman. Þeim ber að vinna sameiginlega að sama markinu, þ.e. að auka veiðina, fylla allar ár og stöðuvötn af fiski, og eftir því sem fiskmagnið er meira, því meiri verða möguleikar fyrir stangaveiðimenn að fá veiðipláss og góðan árangur af sínu starfi og betri skemmtan, og með aukinni fiskrækt nýtur þjóðarheildin og þjóðarbúið meiri tekna og vaxandi arðs af því, sem til fiskimálanna hefur verið varið.

Ég tel rétt að taka saman í fáum orðum það, sem telja má þessu frv. sérstaklega til gildis. Þar ber að nefna 7. gr. frv., þar sem heimild er aukin til friðunar, með því að veiðimálastjóri og veiðimálanefnd geta, ef útlit er fyrir ofveiði eða þverrandi fiskstofn, aukið vikulegan friðunartíma fyrir netaveiði úr 84 stundum á viku í 108 stundir. Þessi heimild hefur ekki verið áður í lögum, en getur haft mjög mikla þýðingu og er trygging fyrir því, að ekki verði gengið of nærri fiskstofninum. Einnig hefur veiðifélag heimild til, samkvæmt 32. gr. frv., að ákveða aukna friðun í fiskihverfinu, ef ástæða þykir til.

Í till. mþn., sem vann að endurskoðun laxveiðilaganna 1957, var lagt til að friðunarsvæði við árósa yrði 1000 m. Í meðförum Alþ. var svæðið fært niður í 500 m. Reynslan hefur sýnt, að 500 m friðunarsvæði er allt of lítið, einkum við ósa stórfljóta. Er því lagt til, að friðunarsvæði við stærri ár verði 2000 m, en 1000 m við minni ár. Mörkin milli stórra og lítilla straumvatna eru sett við 25 m3 á sekúndu miðað við meðalrennsli. Til viðmiðunar má nefna, að Laxá í Aðaldal er talin rúmlega 40 m3 á sekúndu. Mælingar á vatnsföllum hér á landi eru svo langt á veg komnar, að vandalítið má telja að skera úr um vatnsmagn í vatnsföllum landsins.

Þá er lagt til, að friðun megi gilda aðra daga ofar í straumvatni en neðar til jöfnunar á fiskigengd. Er þetta talið mikilvægt fyrir veiðistaði lengra inni í landi. Einnig er gert ráð fyrir, að króknet og lagnet skuli ekki aðeins tekin upp í vatni á vikulegum friðunartíma, heldur flutt á land.

Sú nýjung er í frv. að heimila veiðifélagi að veiða lax til flutnings á hrygningarsvæði á stað í sama fiskihverfi. Kostnað, sem af því leiðir, má greiða úr fiskræktarsjóði. Þá er gert ráð fyrir að banna flutning hrogna úr landi úr vatnafiskum, sem veiddir eru til vísindalegra rannsókna, nema að fengnu leyfi ráðh. og meðmæli veiðimálastjóra liggi fyrir.

Með frv. er gert ráð fyrir, að fiskræktarfélög verði lögð niður, en í þeirra stað verði stofnuð veiðifélög, og skal skylt að mynda veiðifélög um veiði. Atkvæðisréttur skal bundinn við lögbýli, sem metið er til verðs í fasteignamati við gildistöku laganna. Er þetta ákvæði sett til þess að koma í veg fyrir, að atkv. í félögum verði fjölgað með skiptingu jarða.

Þá er gert ráð fyrir að heimila, að ráðinn verði sérfræðingur í fisksjúkdómum að tilraunastöðinni að Keldum. Einnig er lagt til, að fjölgað verði í veiðimálanefnd og hún verði skipuð fimm mönnum í stað þriggja í gildandi lögum.

Mikilvægt ákvæði í frv. er um stofnun fiskræktarsjóðs. Nauðsyn ber til að afla fjár í sjóðinn, eftir því sem unnt er, m.a. með fjárveitingu á fjárl., en verksvið sjóðsins er að efla fiskrækt og fiskeldi, einnig að gera fiskvegi og margt fleira, sem ýtt gæti undir aukna fiskrækt.

Þá eru viðurlög aukin við hvers konar brotum á veiðilöggjöfinni, eftirlit verður aukið, m.a. með aðstoð Landhelgisgæzlunnar. Dómsmrh. er rétt, að till. landbrh., að skipa sakadómara í Reykjavík til að rannsaka brot gegn lögunum.

Ýmsar minni háttar breyt. eru í frv. til leiðréttingar og nánari skýringar á gildandi lögum. Þykir ekki ástæða til að ræða þær sérstaklega.

Þar sem ég hef nú tvítekið nokkuð af þessum breyt., sem hér er um að ræða og ég tel, að allar verði til stórbóta, er ljóst, að ekki fer á milli mála, hvað hér er um að ræða. Ég er sannfærður um það, að enda þótt ýmsir telji, að þetta frv. mætti vera á ýmsan hátt öðruvísi og ganga lengra, þá eru þeir sömu menn sammála um, að flest eða allt, sem er lagt til breytinga í þessu frv., sé til bóta frá gildandi lögum. Þá er enginn vafi á því, að þetta frv. ætti að fá fylgi hér í hv. Alþ. Ég er svo að sjálfsögðu til viðræðu, bæði við hv. landbn., sem fær þetta frv. til meðferðar, og aðra hv. þm., ef þeir koma með brtt., sem geta verið til bóta við frv. og heppilegt þykir að lögfesta. Laxveiðilögin eru svo margþætt og svo margir eiga hagsmuna að gæta, að það er eðlilegt, að menn líti nokkuð misjöfnum augum á ýmis atriði þessara mála, og það verður erfitt að setja lög að þessu sinni um þessi mál, eins og alltaf áður, þegar laxveiðilög hafa verið til umr. og breytinga hér í hv. Alþingi.

Vitað er, að lax- og silungsveiði getur orðið nýr og aukinn atvinnuvegur í landinu. Það hefur jafnan þótt mikils virði að hafa lax- og silungshlunnindi á jörð sinni. Árið 1942 voru 539 laxveiðijarðir á landinu, og 1700 jarðir nutu góðs af silungsveiði. U.þ.b. tíunda hver jörð hafði laxveiðihlunnindi, og u.þ.b. þriðja hver jörð naut hlunninda af silungsveiði. En það er enginn vafi á því, að nú eru þetta miklu fleiri jarðir, eftir að fiskræktin er komin á það stig, sem nú er. Önnur hver jörð, jafnvel 80% jarða eða fleiri gætu notið góðs af veiði, þegar ræktun veiðivatna og fljóta er komin á það stig, sem hún getur komizt á hér á landi. Það er þess vegna verðugt verkefni, sem nú er unnið að, og ég get tekið undir með þeim, sem segja, að þetta hafi ekki gengið nógu hratt. Það væri æskilegt, að betur miðaði áfram, en þeir sömu menn eiga þó um leið að viðurkenna, að það hefur miðað talsvert í rétta átt.

En friðunin og skynsamleg framkvæmd þessara mála eru vitanlega undirstaða þess, að góður árangur náist. Skilningur á þessum málum, bæði veiðiréttareigenda og stangaveiðimanna og allra, sem nálægt þessum málum koma, þarf að vera enn meiri en nú er, þótt sá skilningur hafi farið mjög vaxandi. Fyrr á árum, þegar þjóðin var vannærð, þá skildu menn, að það þurfti nokkra friðun og það þurfti nokkurt skipulag. Ákvæði í Grágás um samveiði og friðun eru ótvíræð, og hliðstæð ákvæði má finna í Járnsíðu og Jónsbók. En með aukinni veiðitækni er vitanlega þörf á aukinni friðun og auknu skipulagi, eins og gert er ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir. Skipulag og nýting fiskstofnanna og meðferðin eru mjög mikilvæg, og með því að gera það að skyldu að stofna veiðifélög og að einstaklingar geti ekki veitt eftir eigin geðþótta án þess að vera í félagi, er stefnt að því að ná því skipulagslega og þjóðhagslega mikilvæga atriði, sem ekki hefur náðst, á meðan ekki voru allir í veiðifélögum. Takmörkun veiði með l. 1957 var vitanlega mjög mikilvæg, þar sem friðunartíminn var lengdur úr 60 stundum á viku í 84 stundir, og þær margföldu heimildir, sem gert er ráð fyrir að lögfesta með því frv., sem hér liggur fyrir, verða örugg trygging fyrir því, að fiskstofninum verði ekki ofboðið með ofveiði.

Skoðanamunur á milli stangaveiðimanna og veiðiréttareigenda er eðlilegur að vissu marki, en áreiðanlega er það hollt og skynsamlegt að ræða þessi mál af raunsæi og stillingu, og hygg ég þá, að þessir aðilar geti komið sér saman, áður en langur tími líður. Það er nauðsynlegt að hvor aðili viðurkenni rétt hins, og veiðiréttareigendur njóta vitanlega góðs af því að selja veiðileyfin, sem verða mjög eftirsótt og eru þegar orðin mjög eftirsótt.

Íslenzkir stangaveiðimenn bera nokkurn kvíðboga í brjósti út af því, að útlendingar muni koma hingað og yfirbjóða veiðileyfin. Það er rétt, að það hefur nokkuð borið á því, að útlendingar sækist eftir veiðileyfum og borgi vel fyrir. En við því er vitanlega ekkert að gera. Við viljum hafa sem mest upp úr okkar veiðiám og veiðivötnum, en þó með þeim eðlilega hætti, að ekki verði um ofveiði að ræða, og það er enginn vafi á því, að í þessu sambandi, eins og í svo mörgu öðru, mun eftirspurn og framboð ráða nokkru um verð á veiðileyfum. En ég hygg, að íslenzkir stangaveiðimenn þurfi engu að kvíða, og þeir hafa raunar sýnt það, að þeir eru hugkvæmir og duglegir. Þeir hafa tekið sig saman og ýmis stangaveiðifélög tekið á leigu ár og vötn, sem voru fiskilaus, og ræktað þessi vötn upp, þannig að eftir stuttan tíma hefur orðið mikil og góð veiði þar, sem engin veiði var áður. Þetta hefur gerzt fyrir framtak og dugnað þessara manna. Ég hygg, að íslenzkir stangaveiðimenn haldi áfram á þeirri braut, sem þeir hafa markað með þessu, og með þeim hætti tryggi þeir sér rétt og pláss í ám og stöðuvötnum landsins til veiði, og það vona ég að verði. Ég teldi, að það væri mjög illt, ef það mætti ekki takast.

Ég hef tekið fram, hvaða friðunarráðstafanir og öryggisráðstafanir er lagt til að lögfesta með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég vænti þess, að það þyki mikils um vert að fá þær breyt. inn í lögin. Þróun veiðimálanna hefur verið nokkuð ör hjá okkur þrátt fyrir seinaganginn, sem sumir tala um. Aðstaða okkar er á margan hátt mun betri en annarra þjóða. Þær eiga við það að búa, að mengun vatna og sjávarins við strendurnar er slík, að lífinu er hætta búin. Hér á landi er enn, sem betur fer, lítið um það að ræða. Aðrar þjóðir verða að horfa upp á minnkandi veiði í ám og vötnum hjá sér, en við höfum möguleikana til þess að auka þetta umfram það, sem nokkur önnur þjóð hefur möguleika á. Við skulum vona, að algert bann við laxveiði í úthafinu verði í framkvæmd, þótt þjóðirnar séu ekki sammála um það. Það er talið, að íslenzki laxinn hafi enn ekki verið veiddur á úthafinu, en um þetta vitum við vitanlega ekki gjörla. En jafnvel þótt hann hafi ekki verið enn veiddur, þá vitum við ekki, hvenær að því kemur, að stöðvar hans finnist og að útlendingar færu að ausa honum upp í sín stórvirku veiðitæki. Það er þess vegna mikið atriði fyrir framtíð íslenzkra veiðimála, að algert bann við laxveiði á úthafinu komist í framkvæmd.

Herra forseti. Ég tel, að að svo komnu máli sé ekki beinlínis öllu fleiri orðum um þetta frv. að fara, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.