07.03.1970
Neðri deild: 56. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

174. mál, lax- og silungsveiði

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. um lax- og silungsveiði var lagt hér fyrir í þessari hv. d. á síðasta þingi, þá gagnrýndi ég nokkur atriði og taldi þurfa að gera á frv. talsverðar breytingar. Hæstv. landbrh. lýsti því yfir í fyrra, að frv. væri þá ekki ætlað að verða að lögum á því þingi, en lagt aðeins fram til þess að tími gæfist til athugunar á málinu og kynningar fyrir þm. og aðra, sem höfðu áhuga á veiðimálum og hagsmuna ættu þar að gæta. Þetta var að mínum dómi mjög hyggilegt og vel ráðið. Nú hafa ýmsir aðilar fengið tóm til þessarar athugunar og getað komið aths. sínum á framfæri við hæstv. ráðh. Eins og kemur nú fram í frv. og af ræðu hæstv. ráðh., þá hefur þetta borið verulegan árangur, því að nú kemur frv. talsvert breytt til bóta frá því, sem það var í sinni upphaflegu mynd. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir þessu og þakka hæstv. landbrh. þau hyggilegu vinnubrögð, sem mér virðist, að hann hafi haft í þessu máli.

Breytingar á lax- og silungsveiðilögum hafa alltaf, eins og hæstv. ráðh. tók áðan fram í sinni ræðu, verið í flokki hinna viðkvæmustu mála, sem Alþ. hefur fengið til meðferðar. Þar fléttast venjulega saman tilfinninga- og hagsmunamál, bæði raunverulegir hagsmunir og einnig ímyndaðir hagsmunir. Veiðiréttur í ám og vötnum hefur frá landnámstíð verið hin beztu hlunnindi og sannkölluð kóróna á hverri jörð að eiga slík hlunnindi að einhverju marki. Sumar jarðir eru líka þannig frá náttúrunnar hendi, að ef ekki fylgdu veiðihlunnindi, þá væru þær varla byggilegar sem bújarðir. Því er engin furða þó þeim, sem þar búa, sé sárt um allt, sem skerðir veiðihlunnindi, þar sem þau veita skilyrði til lífsbjargar á jörðinni, sem annars væru þar með öðrum hætti og kannske ekki fyrir hendi. En þetta þarf ekki til. Það þykir öllum vænt um veiðiréttindi sín, jafnvel þótt þau gefi ekki nema lítinn ávinning.

Eignarréttarhugtakið, eins og við Íslendingar höfum skilgreint það í sambandi við jarðeignir, hefur jafnan verið mjög viðkvæmt og engar deilur hér á landi verið jafnheitar eins og í sambandi við ágreining um landamerki og hlunnindi, hvort sem þau eru fólgin í veiði, reka, skógarhöggi, beit eða slægju eða þá einhverju öðru, sem snertir jarðeignir. Þess vegna er, eins og ég sagði hér áðan, lagasetning um slík mál mjög vandasöm og þar er ekki flas til fagnaðar. Það er skynsamlegt að fara sér hóflega í slíkar breytingar, eins og nú á sér stað í sambandi við þetta mál. Þess ber einnig að geta, að á síðari tímum hefur vaxið skilningur allra ábyrgra manna á því, að það þarf að vernda fiskstofnana í ám og vötnum fyrir ofveiði og jafnvel eyðileggingu og reyna að auka og efla þessi hlunnindi. Það hefur sannazt með aðstoð vísindanna, að þetta er hægt að gera. En einnig um þessi mikilsverðu vísindi er vandasamt að fjalla við setningu löggjafar, sem snertir svo marga aðila og eigendur eins og hér eru að veiðiréttinum.

Hæstv. ráðh. gat þess í sinni ræðu, að hér á landi væru yfir 500 veiðijarðir. Auðvitað eru eigendur þessara mörgu jarða með mismunandi sjónarmið og breytilega afstöðu á hinum ýmsu jörðum hér á landi. Ég vil láta það koma hérna fram við þessa umr., að mitt höfuðsjónarmið í sambandi við löggjöfina um lax- og silungsveiðina er það í fyrsta lagi, að veiðin fylgi jörðunum áfram, eins og hún hefur gert frá fornu fari, og verði aldrei frá þeim tekin, og að eigendur og ábúendur jarðanna hafi þar allan umráðarétt, eins og verið hefur, vitanlega innan þeirra takmarka, sem þurfa að vera þessum hlunnindum til verndar frá náttúrufræðilegu og þjóðhagslegu sjónarmiði, — í öðru lagi, að beitt verði af hálfu ríkisins öllum tiltækilegum ráðum, vísindalegum og með fjárhagslegum stuðningi, til þess að gera ár og vötn landsins að góðum veiðiám og vötnum, svo að sem flestar jarðir geti orðið þessara hlunninda aðnjótandi og sem allra flestir menn geti fengið að njóta þess yndis að standa við þessi vötn og þessar ár sér til heilsubótar í sumardýrðinni og njóta náttúru landsins. Ég er viss um, að það er mikið verk óunnið, bæði með klaki og uppeldi fiskseiða til að sleppa í ár og vötn og með því að gera fossa fiskgenga. Mun þannig mega stórfjölga veiðijörðum og auka mjög þann arð, sem þjóðarbúið hefur og getur haft af vatnafiski.

Ég tel, að þetta frv. tryggi þessa meginstefnu allvel a.m.k., og ég held, að það komi ekki í veg fyrir, að þróunin geti orðið í rétta átt. Það er ákaflega mikils virði, að löggjöf, sem sett er, komi ekki í veg fyrir, að þróun geti stefnt í rétta átt á því sviði, sem verið er að fást við með löggjöfinni. En það veltur vitanlega mjög mikið í þessu efni eins og öðrum á því, hvernig framkvæmdin er, hverjir með framkvæmdina hafa að gera og hvernig þeir beita valdi sínu. Ég ætla mér ekki að hafa langa ræðu um þetta mál við þessa umr. Það gefast til þess tækifæri síðar að ræða málið frekar, ef mér þá þætti til þess nokkur ástæða, en eins og ég sagði hér, þá get ég í meginatriðum stutt þetta frv. En mundi þó vilja hafa nokkur ákvæði með öðrum hætti, og með það í huga, að sú hv. n., sem málið fær hér til athugunar, kynni að vilja líta á þau atriði sérstaklega, þá ætla ég með örfáum orðum að víkja að því, sem ég teldi að ætti að vera með öðrum hætti en frv. gerir ráð fyrir.

Ég kem þá fyrst að 19. gr. frv., en með þeirri gr. hefst sérstakur kafli, sem fjallar um veiðifélög. Upphaf greinarinnar hljóðar svo: „Skylt er mönnum að gera með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi, svo fljótt sem kostur er.“ Mér finnst þetta ákvæði orðað á óeðlilegan hátt og geti orðið óheppilegt að hafa orðalagið þannig, að menn séu skyldaðir til þess að stofna þessi félög um fiskihverfið. Ég er síður en svo á móti þessum félagsstofnunum og tel, að það sé nauðsynlegt að hafa slík félög, en ég er hræddur um, að þetta kunni e.t.v. að geta valdið einhverjum vandræðum. Ég veit ekki til þess, að slík lagaskylda um félagsstofnanir sé áður til í neinum lögum. Og ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, — það kann að vera mín sérvizka, — að það sé ekki heppilegt að skylda menn eða þvinga þá með lögum til þess að gera vissa hluti, heldur beri þá frekar að reyna að laða þá að því verkefni, sem löggjafinn vill láta vinna að. Og ég er hræddur um, að árangurinn kunni kannske að verða annar en sá, sem til er ætlazt, þegar þannig er farið að, að það gæti farið svo, að hún yrði í öfugu hlutfalli við tilgang lagabókstafsins. Þetta er það, sem ég óttast. Ég vil því hafa ákvæðið um þessar félagsstofnanir frjálslegra en þarna er og mundi leggja á það áherzlu, að þetta yrði sérstaklega tekið til athugunar.

Í 26. gr. er tekið fram, að það þurfi atkv. 2/3 félagsmanna til þess að setja veiðifélagi samþykkt, þegar það hefur verið stofnað, svo að það hafi sínar reglur til þess að fara eftir. Þetta finnst mér eðlilegt ákvæði um atkvæðafjöldann, en því undarlegra þykir mér hitt, að í 32. gr. er einnig tekið fram um atkvæðafjölda í sambandi við ýmsar ákvarðanir, sem veiðifélög þurfa að taka, sem eru mjög margar og margar slíkar ákvarðanir mjög þýðingarmiklar, eins og bezt kom fram í skýringum hæstv. ráðh. hér áðan í ræðu hans um þessa gr., þar sem veiðifélög hafa með höndum mikilsverð málefni, m.a. um það, hvort á að friða svæði o.s.frv. Sýnist mér, að það sé óeðlilegt, að það þurfi minna atkvæðamagn til þess að gera slíka hluti en í hinu tilfellinu. Ég álít, að í sambandi við þessa löggjöf sé það mjög mikilsvert atriði að búa svo um hnútana, að vel tryggður sé réttur minni hl., því að eins og ég hef áður tekið fram og eins og hæstv. ráðh. einnig tók fram, þá eru þessi mál svo viðkvæm og vandasöm, að við verðum að reyna að búa svo um hnútana að réttur minni hl. sé sæmilega tryggður með lögum.

Þá vil ég að síðustu víkja fáeinum orðum að 48. gr. Í henni eru ákvæði um veiðimálanefnd og skipun hennar. Þar er gert ráð fyrir fimm mönnum, einum skipuðum af ráðh. án tilnefningar, en fjórum samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila, einn frá hverjum þeirra. Það er Búnaðarfélag Íslands, það er Hafrannsóknastofnunin, það er Landssamband stangaveiðifélaga og það er Landssamband veiðifélaga. Í veiðimálanefnd hafa verið og eru samkvæmt núgildandi lögum þrír menn, og ég hef ekki trú á, að það sé til bóta að fjölga í n., og teldi eðlilegast, að þetta ákvæði væri óbreytt, og vildi beina máli mínu til hæstv. n., sem þetta mál fer nú til, og bið hana að athuga einnig þetta. Ég álít, að það væri heppilegt að hafa þetta eins og verið hefur. Ég veit, að það er samkvæmt óskum mjög víðs vegar að af landinu, að veiðiréttareigendur kysu helzt, að þetta gæti verið óbreytt, og þá sé ég nú ekki neina sérstaka ástæðu til þess að gera þessa breytingu á, sem í frv. er nú um þetta atriði.

Ég sé enga ástæðu til þess, herra forseti, að tefja hér tímann með lengri ræðu um þetta mál. Ég hef hér drepið á nokkur atriði í frv., sem ég álít að þyrfti að taka til frekari athugunar, og vona ég, að hv. landbn., sem málið fær til athugunar, líti á það, sem ég hef tekið fram eða bent á, með skilningi. Svo skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð nú að sinni.