28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (1044)

174. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Eina breyt., sem hv. Ed. gerði á frv. þessu, var um 48. gr., það var að breyta henni í það horf, sem hún var upphaflega, þegar frv. var flutt, að í veiðimálanefnd eigi sæti fimm menn í stað þriggja. Það er sagt, að bændur væru mikið á móti því, að hafa fimm menn í veiðimálanefnd. Þeir eru á móti því, að sagt er, vegna þess, að stangaveiðimenn eiga að fá rétt til þess að skipa einn mann í n. Stangaveiðimenn eiga samkvæmt þessari till. að hafa einn mann af fimm í n. Það er sagt, að það stafi jafnvel hætta af því fyrir bændur, ef þannig skipast. Það er sagt, að bændur hafi gert sér langa ferð á fund landbn. til þess að koma þessum óskum sínum á framfæri, að hún vildi nú gera svo vel og hindra þann voða, sem felst í 48. gr. frv.

Ég hef nú talað við bændur líka, og ég veit vel, hvernig hugur þeirra er til þessa frv. Þeir leggja mikið upp úr því, að það nái fram að ganga, og þeir leggja mikið upp úr því, að það nái fram að ganga jafnvel þótt nm. yrðu fimm, en ekki þrír. Enginn vafi er á því, að bændur gera sér fulla grein fyrir því, að þeim stafar engin hætta af því, að fulltrúarnir séu fimm. Það eru margir bændur svo raunsæir að skilja, að það getur haft jákvæða þýðingu að hafa fulltrúa frá stangaveiðimönnunum í n. Það er nauðsynlegt, að veiðiréttareigendur og stangaveiðimenn reyni að vinna saman, tala saman og það verði byggð brú á milli þessara stríðandi aðila, sem stundum halda, að þeir eigi ekki sameiginleg hagsmunamál, heldur að þeir séu andstæðingar. En það eru þeir ekki. Stangaveiðimenn hjálpa til þess að nýta veiðina, og þeir eiga að borga leigu fyrir það, og það verður veiðimálunum hollt, að till. frá þeim komist á framfæri. Það verður meiri hluti veiðimálanefndar, sem ræður till., sem fram koma, og veiðimálanefnd verður vissulega skipuð fulltrúum frá veiðiréttareigendum eða þeim aðilum, sem mundu vilja tryggja hagsmuni bændastéttarinnar.

Það er rétt að rifja það aðeins upp enn einu sinni, hvernig lagt er til, að n. verði skipuð, ef fimm eiga sæti í henni. Það verður einn skipaður án tilnefningar af ráðh. Ég reikna ekki með, að bændur trúi því, að sá maður, sem ráðh. skipar, verði hagsmunum þeirra óvinveittur. Ég hef aldrei heyrt því haldið fram. Þá er einn fulltrúi frá Búnaðarfélagi Íslands, einn frá Hafrannsóknastofnuninni, vísindamaður, einn samkv. tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga. Þannig er lagt til, að n. verði skipuð, og það að hætta stafi af því að skipa hana á þennan hátt er vitanlega hrein fjarstæða. Það er miklu eðlilegra, að svo sé, en gamli mátinn verði á hafður.

Ég vænti þess, að frv. verði samþ., eins og það kom frá Ed. Það má vel vera, að bændur hefðu viljað fá fleira inn í frv. Stangaveiðimenn eiga einnig sitt frv. og sínar óskir og allt aðrar og fleiri en eru í þessu frv. En í þessu frv. hefur verið þræddur meðalvegurinn, þannig að báðir aðilar fá nokkuð. Báðir aðilar óska eftir því, að frv. verði lögfest, vegna þess að það er betra en gildandi lög. Þetta hafa bændur sagt, og þetta hafa stangaveiðimenn sagt. Bændur vilja fá frv. fram, þótt nm. verði fimm. (Barið í borð.) Það er vissara að taka aftur til máls um það. Kannske hv. 5. þm. Norðurl. e. ætli nú að halda því fram, að ef nm. verði fimm, þá vilji bændur heldur, að frv. liggi kyrrt. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir, en það mætti vitanlega alveg eins fullyrða það og það að það sé bændum til tjóns, ef fulltrúarnir verða fimm.

Ég vænti nú þess, að frv. verði samþ. eins og það kom frá Ed., en segja má og ég skal viðurkenna það, að jafnvel þó að nefndarmennirnir hefðu bara verið þrír og Ed. hefði ekki breytt frv. neitt, þá væri það vitanlega stór vinningur, ekki bara fyrir bændur, heldur fyrir veiðimálin í heild, að fá frv. lögfest með fiskræktarsjóði og öðrum þeim ákvæðum, sem í því eru.