24.03.1970
Neðri deild: 66. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

168. mál, Stofnlánaadeild landbúnaðarins

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um breyt. á l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum, er að því leyti frábrugðið öðrum frv., sem eru í þessum mikla skjalabunka á borðum okkar, að þar er lagt til, að ríkisstj. fái heimild til að lækka upphæðir til vissra framkvæmda. Á sama tíma og í flestum frv. eru till. um, að ríkisstj. megi hækka og auka útgjöld, er hér lagt til að lækka. Og hvað á þá að lækka hér? Það á að lækka framlag til nýbýla úr 9.5 millj. kr. í 3.5 millj. og til íbúðarhúsa á nýbýlum, samkvæmt 48. gr. l. nr. 75 1962, úr 2.4 millj. kr. í 900 þús. kr. Ég verð nú að segja það, að það er ekki gert mikið fyrir 900 þús. kr., og mér finnst, að á sama tíma og Alþ. lýsir yfir vilja sínum til að byggja hér við Lækjargötuna stórhýsi fyrir ríkisstofnanir, sem kostar, — ég veit það ekki nákvæmlega, — kannske frá 100 til 200 millj. kr., að þá skuli sama þingið vera uppi með frv. um að lækka framlög til Landnámsins um þessar fáu milljónir.

Ég er andvígur þessu frv. og mér finnst, að það eigi ekki að byrja lækkun ríkisútgjalda með því að ráðast á þennan garð, sem er ekki rismeiri en hann í raun og veru er. Það getur verið stefna út af fyrir sig að segja, að það eigi ekkert að vera að stuðla að fjölgun nýbýla eða byggingu nýbýla í landinu. Við vitum, að Alþfl. hefur haldið því fram, að það ætti að fækka bændum á skipulegan hátt. Hann hefur ekkert farið dult með það, hann hefur sagt það leynt og ljóst, og það er stefna út af fyrir sig. En við, sem erum þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að fækka bændum, getum ekki fallizt á frv. sem þetta.

Ég var fyrir nokkru á bændafundi, þar sem bændur og sérstaklega ungir bændur voru að ræða sín mál. Niðurstaða þeirra var sú, að í dag þyrftu ung hjón, sem vildu koma upp sæmilegum bústofni og húsakosti, sem væri nauðsynlegur, að hafa handa á milli um 2 millj. kr. Ég hef ekki ástæðu til að rengja það, en á sama tíma og við vitum, að það er mikið af ungu fólki, sem vill staldra við í sveitunum og byggja upp sín býli, þá finnst mér, að það opinbera eigi frekar að rétta því hjálparhönd heldur en að gefa því kinnhest.

Ég lýsi því svo yfir, að mér finnst, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, eigi að athuga þetta gaumgæfilega, og mér finnst, að það ætti að fella frv.