16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

130. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. muna ef til vill, var ég andvígur þeirri lagasetningu, sem hér var samþ. á s. l. ári, þar sem tekið var upp það fyrirkomulag að stofna til þessarar svonefndu áhafnadeildar við aflatryggingasjóð og greiða úr þeirri deild tiltekinn hluta af fæðiskostnaði skipshafna. Ég benti þá sérstaklega á það, að eins og fyrirhugað væri að skipa þessum málum, þá mundi það fara þannig, að allir smábátar í landinu, sem eru orðnir æðimargir undir 12 rúmlestum að stærð, þeir féllu fyrir utan þennan lagaramma, en þó þannig, að þeir bátar væru skattlagðir til þessa kerfis, þótt þeir, sem á þeim störfuðu, gætu ekki notið hlunninda samkvæmt lögunum. Ég veit, að ýmsum hv. alþm. var ljóst, að þetta var mjög óæskilegt fyrirkomulag, og það hefur auðvitað komið í ljós, að þarna hefur skapazt mesta óréttlæti.

Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., gerir ráð fyrir verulegri lagfæringu í þessum efnum, en þó er rétt að gera sér grein fyrir því, að því fer þó fjarri, að misréttið sé að fullu afnumið. Verði þetta frv. samþykkt, geta allflestir smærri bátar sem eru þilfarsbátar, en þó undir 12 rúmlestum að stærð, komið hér til greina samkvæmt þessu fyrirkomulagi, en eitthvað af slíkum bátum, sem ekki hafa 5 mánaða úthald á ári, falla þó hér utan við og halda áfram að borga gjöld í sjóðinn án þess að geta fengið bætur úr honum. Svo eru allir opnu smábátarnir í landinu, þeir halda áfram að vera skattlagðir í sjóðinn, en þeir, sem á þeim starfa, geta ekki fengið neinar greiðslur úr sjóðnum. Eins er það, að togararnir verða áfram skattlagðir í þennan sjóð, þó að fæðisgreiðslur þar séu samkvæmt allt öðrum reglum, og greiðslur úr þessum sjóði koma ekki til með að ganga til áhafna togaranna. Það er sem sagt ekkert um það að efast, að enn þá er eftir verulegt misrétti í þessu og hér er því um mjög ófullkomna leiðréttingu að ræða, en þó skref í rétta átt að mínum dómi.

Ég hef sem sagt verið með því að leggja til að gera þessa breyt. á lagaákvæðunum, sem sjútvn. Nd. hefur öll staðið að, af því ég tel, að hér sé um talsverða leiðréttingu að ræða, en því fer þó fjarri, að hér sé um fullkomið jafnrétti að ræða. Það er skoðun mín, að það beri að stefna að því að afnema aftur þessa áhafnadeild, og ég álít, að útgerðarmenn eigi sjálfir að semja um það á eðlilegan hátt við skipverja að greiða einhvern hluta eða allan hlutann af fæðiskostnaði, en það eigi ekki að greiða hann á þennan hátt, sem hér er gert ráð fyrir, þ. e. a. s. að leggja ákveðinn skatt á allan útfluttan fisk, leggja hann svo í einn sameiginlegan sjóð og greiða svo fæðiskostnaðinn úr þessum sameiginlega sjóði. Þetta greiðslufyrirkomulag er í eðli sínu óréttlátt og afskaplega erfitt í meðförum. Þetta kemur t. d. þannig út, að bátar, sem fiska mikið, eru látnir borga miklu meira í fæðiskostnað en aðrir. Ég er líka næstum viss um það, að afleiðingin verður sú, að ef menn venjast við þennan sameiginlega fæðiskostnaðarsjóð, þá vaxa kröfurnar til hans, og er þá ósköp hætt við því, að útgjöldin í þessum efnum fari vaxandi.

En sem sagt, ég stend ásamt öðrum sjútvn.- mönnum að því að gera þá leiðréttingu á lögunum, sem felst í þessu frv. og þeirri brtt., sem sjútvn. leggur hér fram, því ég tel, að hér sé um það að ræða að leiðrétta að nokkru það misrétti, sem þarna var, þó það fáist ekki full leiðrétting á því.