27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

109. mál, atvinnuleysistryggingar

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er nú komin hér upp deila um það, hvernig skilja beri þetta frv. Ég get nú fallizt á það með hv. 4. þm. Austf., að frv., eins og það er orðað nú, er kannske ekki nægilega skýrt. Hins vegar er augljóst eftir túlkun hv. 9. þm. Reykv., hvað á bak við liggur. Aftur á móti felli ég mig ekki við brtt. hv. 4. þm. Austf. vegna þess, að hún gengur augljóslega miklu lengra en eðlilegt er. Ég ætla því að leyfa mér að leggja fram skriflega brtt. við 1. gr., sem er umorðun á hluta af gr., þannig að það kemur skýrar í ljós, hvað við er átt. Ég ætla þá að leyfa mér að lesa þessa till., en samkv. henni mundi 1. gr. frv. þá verða þannig:

„Ákvæði laga þessara taka til atvinnurekenda, verkalýðsfélaga og meðlima þeirra í kaupstöðum og kauptúnum með 300 íbúum eða fleiri“, — þetta er óbreytt, en síðan komi: „svo og til atvinnurekenda og meðlima verkalýðsfélaga, þótt búsettir séu í fámennari sveitarfélögum en hér greinir, enda séu hlutaðeigandi sveitarfélög á félagssvæði verkalýðsfélaga, sem ná til kaupstaða og kauptúna með 300 íbúa eða fleiri.“

Ég held, að með þessu orðalagi sé það alveg skýrt, hvað við er átt, og vil ég leyfa mér að leggja till. fram.